Tölvumál - 01.01.2018, Blaðsíða 34
34
Fyrirsjáanlegur er skortur á tæknimenntuðu fólki í framtíðinni og þá
sérstaklega í tölvunarfræði. Ýmis störf verða í náinni framtíð vélvædd að
hluta eða að öllu leyti og má jafnvel leiða líkur að því að mörg þeirra verði
störf sem nú eru í höndum kvenna frekar en karla, en í staðin munu
skapast störf sem krefjast tæknikunnáttu. Einnig má benda á að nú er
verið að hanna og þróa tækni og tæki framtíðarinnar og auðvitað þyrftu
bæði kynin að koma að þeirri vinnu, því að það verða jú bæði kynin sem
munu nýta sér tæknina.
Það þarf að tryggja jafnari menntunar- og atvinnuþátttöku kynjanna í
tæknigreinum, en hvernig förum við að því? Það er búið að reyna margt
undanfarna áratugi, s.s. kynningarstörf, heimsóknir, „réttar“ myndir í
kynningarefni, o.s.frv. Stofnuð hafa verið samtök eins og /sys/tur, Women
Tech Iceland og Samtök kvenna í vísindum og haldinn er Stelpur og
tækni dagur árlega. Forritunarkennsla hefur verið aukin í grunnskólum
og meira framboð er af forritunarnámskeiðum fyrir börn, sem getur aukið
áhuga á tæknigreinum.
Því miður er það þó svo, að fjöldi kvenna í tæknigreinum á háskólastigi
hefur lítið sem ekkert breyst undanfarin 20 ár. Þróunin í raunvísindum,
stærðfræði og tölvunarfræði hefur lítið breyst frá 1997, eins og sést á
mynd 1.
Ef við skoðum tölvunarfræðina sérstaklega þá sjáum við að konum hefur
ekki fjölgað á rúmum 20 árum, eins og mynd 2 sýnir.
Þegar við skoðum kynjahlutföll í háskólanámi í verkfræði, mannvirki og
byggingarverkfræði (orðalag af vef Hagstofunnar) frá 1997-2017 þá sést
að konum hefur fjölgað úr 18% í 45%, sem er mikil breyting, eins og
mynd 3 sýnir. Ástæðan fyrir þessari þróun gæti verið nýjar námsleiðir í
verkfræði s.s. Heilbrigðisverkfræði og Umhverfisverkfræði.
Þó að staðan hafi lítið breyst á rúmum 20 árum þá hefur hún ekki versnað
og vonandi hefur það sem gert hefur verið haft sín áhrif. Það sem hefur
reynst vel er t.d. að breyta framsetningu á kennsluefni og nöfnum á
námskeiðum og námsbrautum. Gott dæmi er frá Berkeley háskóla þar
sem námskeiðinu Introduction to Symbolic Programming var breytt í
The Beauty and the Joy of Computing, sem jók aðsókn og upplifun
nemenda á jákvæðan hátt. Aukinn stuðningur við nemendur sem hafa
ekki mikinn bakgrunn í forritun þegar þeir hefja nám hefur góð áhrif og
einnig að fjölga kvenkennurum í tæknigreinum, sem hefur reynst vel því
fyrirmyndir í námi og starfi skipta miklu máli.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að konur velja tölvunarfræðinám síður en karlar,
meðal annars vegna skorts á sjálfstrausti, fyrirmyndum og hvatningu frá
kennurum og foreldrum, en einnig vegna þess að kennsluumhverfið hefur
ekki alltaf verið nógu aðlaðandi fyrir konur.
STELPUR, LÁTIÐ EKKI
STAÐALÍMYNDIR HREKJA
YKKUR FRÁ
TÆKNIGREINUM
Dr. Ásrún Matthíasdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík
Mynd 1. Kynjamunur í raunvísindum, stærðfræði og tölvunarfræði í háskólum á
Íslandi.
Mynd 2. Kynjamunur í tölvunarfræði í háskólum á Íslandi.
Mynd 3. Kynjamunur í verkfræði, mannvirki og byggingarverkfræði.