Tölvumál - 01.01.2019, Síða 20

Tölvumál - 01.01.2019, Síða 20
20 GERVIGREIND Á MANNAMÁLI Brynjólfur Borgar Jónsson, stofnandi Data Lab Ísland Hugtakið gervigreind virðist á allra vörum þessa dagana. Frumkvöðlar skreyta viðskiptahugmyndir sínar með fyrirheitum um að gervigreind verði nýtt. Fyrirtæki fjárfesta í tæknilegum innviðum og fólki með þekkingu á gervigreind og háskólar mæta aukinni eftirspurn með nýjum námsleiðum á þessu sviði. Fjölmiðlar flytja okkur svo fréttir af tækninýjungum þar sem gervigreind kemur við sögu og fræðingar og spekúlantar skrifa hverja greinina af annarri þar sem þeir sjá fyrir sér nálæga framtíð þar sem þessi tækni verður alltumlykjandi og velta afleiðingunum fyrir sér. Þrátt fyrir að tæknin sé enn í þróun er heimurinn smám saman að átta sig á því að gervigreind er að öllum líkindum tímamótatækni (general purpose technology) eins og til dæmis gufuafl, rafmagn og tölvur. Áhrif slíkra tækninýjunga eru mikil, útbreidd og ná yfir langan tíma, á efnahag og samfélagið í heild sinni. Tækni sem færir svo margt úr skorðum í fyrstu en leitar í jafnvægi að lokum í bakgrunninum og við hættum að taka eftir henni því hún er alls staðar. HVAÐ ER GERVIGREIND? Gervigreind má líkja við aðra tímamótatækni, þ.e. rafmagn. Það sem rafmagn knýr eða drífur áfram er afar gagnlegt. Við notum rafdrifin hjól, rafmagnsverkfæri, rafmagnslýsingu, rafmagnseldavélar og ótal önnur rafdrifin tæki á hverjum degi. Við gætum ekki lifað án rafmagns í nútímasamfélagi. Það sama gildir um gervigreind. Hitt og þetta er nú þegar og verður í síauknum mæli drifið áfram af gervigreind. Nefna má efnisveitur á netinu, leitarvélar, sjálfkeyrandi bíla, meðmælakerfi vefverslana, hlutabréfamarkaði, sjúkdómsgreiningar, sjálfvirkt eftirlit með greiðslukerfum, verðlagningu trygginga. Listinn lengist sífellt. Á einhverjum tímapunkti í náinni framtíð verður þessi tækni orðin svo samofin í allt mögulegt að erfitt verður að hugsa sér lífið án hennar. Rétt eins og gildir um rafmagnið. ÞRÓUN GERVIGREINDAR Það sem er drifið áfram af gervigreind gerir eitthvað sem áður var ómögulegt að leysa án aðkomu mannlegrar greindar eða vitsmuna. Gervigreind mun því koma að verkefnum sem við höfum hingað til leyst með því að nota hausinn frekar en vöðvaaflið. Til eru mismunandi stig gervigreindar, eftir því hversu þróuð hún er. Frá einhverju mjög einföldu upp í eitthvað sem jafnast á við mannlegt eða jafnvel ofurmannlegt þó heimurinn hafi ekki séð slík kerfi enn. Á einfaldari enda skalans eru kerfi sem gera það sem þeim er sagt að gera, kerfi sem meta og kerfi sem læra. Það eru síðastnefndu kerfin sem hafa náð fótfestu á undanförnum árum og frumkvöðlar og fyrirtæki eru að reyna að ná tökum á. Svo má segja að þegar hylli í kerfi sem skapa og kerfi með tilfinningagreind og á þróaðri enda skalans eru svo kerfi sem yfirfæra frá einu sviði til annars, aðlagast og þróast. Síðastnefndu kerfin eru ekki enn komin fram og má telja víst að enn séu nokkrir áratugir í það að við getum búið til kerfi sem læra og þróast á hraða tölvunnar og gætu jafnvel náð einhvers konar ofurgreind. En telja má víst að í háskólum og á rannsóknarstofum fyrirtækja út um allan heim sé verið að stunda tilraunastarfsemi og rannsóknir sem lagt gætu grunn að slíkum kerfum. ALMENN GERVIGREIND OG SÉRTÆK GERVIGREIND Það er gagnlegt að gera greinarmun á gervigreind sem við hagnýtum nú þegar og gervigreind sem enn er ekki komin fram. Í því sambandi er oft talað um kerfi sem búa yfir almennri gervigreind og kerfi sem búa yfir sértækri gervigreind. Kerfi sem búa yfir sértækri gervigreind eru þjálfuð til að leysa ákveðin verkefni og geta ekkert annað. Dæmi um slík kerfi eru þjónustur á tónlistarveitunni Spotify sem setja saman sérsniðna lagalista, tungumálaþýðingar Google, andlitsþekkingarkerfi, forspárviðhald, sérhæfðar myndgreiningar, meðmælakerfi netverslana, spjallmenni og sjálfvirkt eftirlit með greiðslukerfum. Svo eitthvað sé nefnt. Slík kerfi hafa komið fram á sjónarsviðið á undanförnum árum, hafa sannað gildi sitt og eru nú hagnýtt á ótal sviðum, en einkum til að keyra áfram snjallar vörur og þjónustur og sjálfvirkni- og snjallvæða viðskiptaferla. Tími þessarar tækni er kominn. Segja má að almenn gervigreind sé svo hið háleita markmið. Kerfi sem er jafnklárt eða klárara en maður, með skilningarvit, getur lært almenn hugtök og yfirfært þekkingu frá einu sviði til annars. Slík kerfi eru til í kvikmyndum og vísindaskáldskap en þá er það upptalið.

x

Tölvumál

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.