Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2007, Blaðsíða 9

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2007, Blaðsíða 9
Krossgöbur Þegar lífslöngunin kom síðan aftur hægt og sígandi vaknaði spurningin hvert skyldi stefna. Hverjir væri í raun möguleikarnir með margra ára örorku á ferilskránni og það vegna hiv eða alnæmis sem miklir fordómar hvíldu á? Myndi atvinnulífið í raun bjóða upp á tækifæri til nýs lífs? Væri kannski öruggara að vera öryrki áfram? Slíkar hugsanir sóttu á huga fólks. En hægt og sígandi tóku flestir fyrstu skrefin. Einhverjir ákváðu að halda áfram því lífi sem þeir höfðu lifað áður en þeir urðu veikir og biðu eigin örlaga. Þeir fluttu aftur til útlanda, fóru í nám eða fengu sér vinnu, Það þurfti oft ákveðinn kjark og áræðni til þess að þora að kveðja hið„örugga” líf öryrkjans og takast á við atvinnulífið. Það verður að segjast að þetta er afar sérstök staða að vera í, að eiga allt í einu kost á því að fara að lifa eðlilegu lífi eftir að hafa eytt allri orku í að kveðja gamla drauma, farsæld og velgengni, líf sem hafði mótast af ótta við framtíðina og eigin dauðdaga. Fólk þurfti eðlilega tíma til þess að átta sig aftur á því hverjir hinir gömlu draumar, væntingar og langanir hefðu eiginlega verið? Flestir stóðu líka á þessum tíma uppi slippir og snauðir því fáir riðu feitum hestum eftir að hafa verið öryrkjar. Þeir höfðu horft á eftir samferðafólki sínu halda áfram á vegferð sinni til aukinnar menntunar og lífsgæða. Núna var allt í einu þeirra eigið tækifæri komið til að eiga framtíð þótt seint væri. í umhverfi fordóma þar sem vonin hafði verið lítil og framtíðin dökk tóku hiv-jákvæðir skrefin inn í nýjan veruleika sem flest okkar hinna höfðu alltaf tekið sem sjálfsagt mál. Langflestir þeirra sem ég þekki til hafa í dag náð þangað sem hugurinn stefndi eða langleiðina þangað. Einhverjir eru búnir að mennta sig og aðrir eru að sinna fjölbreytilegum og mikilvægum störfum í samfélaginu. Þeir eru orðnir nýtir þjóðfélagsþegnar og samfélaginu til mikils sóma. Fleiri áskoranir Mér hefur fundist yndislegt að taka þátt í vegferð hiv- jákvæðra út í lífið. Sumir gerðu það einungis með því að treysta á sjálfa sig, aðrir með dyggri aðstoð sinna nánustu eða sérfræðinga. Enn aðrir með blöndu af þessu öllu saman. Það hefur verið frábært að sjá hvernig löngunin til nýs lífs vaknaði alltaf meir og meir og horfa á hvernig skrefin út í hið nýja líf urðu ávallt stærri og stærri. Hver fór á sínum hraða, einhverjir hrösuðu á leiðinni en stóðu upp aftur. Nánast allir sem ég þekki hafa tekist á við þessar nýju aðstæður, en einhverjir hafa þurft að snúa við aftur, þótt hugurinn og viljinn hafi viljað stefna ótrautt áfram. Þarna greip gjarnan ástand líkamans inn í atburðarásina og sagði stopp hingað og ekki lengra. Viðvarandi verkir, þróttleysi og aðrir líkamlegir annmarkar gerðu það að verkum að erfitt gat reynst að standast allar kröfur atvinnulífsins. Þessari upplifun tengist gjarnan mikil sorg að komast ekki lengra og þurfa að horfa á eftir hinum fara út í frelsið. Sú samvera sem hafði ríkt meðal hiv-jákvæðra á meðan þeir voru öryrkjar minnkaði einnig mikið þegar þeir fóru meir og meir að taka þátt í lífinu. Það er því mikil áskorun sem felst í því að takast á við líf sem öryrkjar og fá lífsfyllingu á borð við aðra en með annarri iðjan en þeirri að vera úti á atvinnumarkaðinum. Það er svo sannarlega margt annað hægt að lifa fyrir en bara vinnuna þótt skilaboðin í samfélaginu séu ennþá á þá lund að hún sé hin eina sanna lífsfylling. í raun voru það mikil forréttindi fyrir mig að koma til vinnu árið 1997 eftir að nýju lyfin komu á markaðinn og hiv- jákvæðir fengu tækifæri til að skipuleggja framtíð og huga að aukinni þátttöku í samfélaginu. Eg var svo heppin að geta tekið þátt í þessu jákvæða framfaraskeiði þeirra með þeim með því að bjóða upp á samtalsmeðferð, ráðgjöf, stuðning og ýmiss konar félagslega aðstoð á þessari leið til aukinna lífsgæða. Hópurinn sem smibaðisb ePbir 1996 Þau sem hafa greinst með hiv eftir árið 1996 búa við annan og betri kost en þau sem greindust fyrir þann tíma. Enda eru aðstæðurnar gjörbreyttar. Nú eru hiv-jákvæðir ekki lengur skráðir sem öryrkjar vegna sjúkdómsins heldur eru skilaboð sérfræðinganna að þau haldi ótrauð áfram í lífi sínu á þeirri braut sem þau voru fyrir greininguna. Skiptir ekki máli hvort um vinnu, skóla eða framtíðaráform er að ræða. Þeir þurfa því ekki lengur að umturna lífi sínu fjárhagslega, atvinnu- eða húsnæðislega eins og þeir sem greindust fyrir árið 1996 þurftu gjarnan að gera. Lyfjagjöfin í dag er líka orðin miklu mun einfaldari, töflurnar fáar, inntaka þeirra eingöngu einu sinni til tvisvar á dag og aukaverkanir fátíðar.

x

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi
https://timarit.is/publication/1509

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.