Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2007, Blaðsíða 16
Mikilvægt að finna fyrir styrk hópsins
Ráðstefna eins og þessi er ákaflega mikilvæg fyrir samtökin
okkar og er mikill styrkur fyrir alla innviði þeirra.
Fyrst og fremst skapar svona ráðstefna grundvöll fyrir
jákvæða einstaklinga til að hitta aðra jákvæða einstaklinga
og deila með þeim upplifunum sínum og finna fyrir
styrk hópsins. Það er heldur ekki á hverjum degi sem við
setjumst niður og pælum í því hvernig við höfum það sem
einstaklingar eða sem hópur og hvernig við getum eflt
starfsemi samtakanna.
Fyrirlestrarnir voru mjög fræðandi á fremur jákvæðum
nótum og vöktu margar uppbyggilegar spurningar í hugum
okkar, kannski mest um félagslega stöðu hiv-jákvæðra á
Islandi í dag.
Aðalniðurstaða ráðstefnunnar, ef svo má að orði komast,
fannst mér þó hversu brýn þörf er fyrir jákvæða og
aðstandendur þeirra að hitta aðra og upplifa sig sem hluta
af stórum hópi þar sem hiv er eðlilegur hluti lífsins. Ég
veit til dæmis um par sem ákvað að nota þetta tækifæri til
þess að segja barni sínu frá að þau væru hiv-jákvæð. Þeim
fannst ráðstefnan, innan um allt þetta jákvæða fólk, kjörinn
vettvangur til að útskýra það fyrir barninu.
Frítíminn var ekki síður mikilvægur en skipulögð dagskrá.
Þó svolítið hafi rignt á okkur var engu að síður gott að fá sér
göngutúr upp að Geysi og um nágrennið.
Laugardagskvöldið var hápunktur gleðinnar þar sem við
héldum eins konar kvöldvöku, með góðum veitingum og
svo voru búin til skemmtiatriði á staðnum sem fóru fram
á ýmsum tungumálum þar sem gestir voru af mörgum
þjóðernum og allir löngu lausir við alla feimni.
Krafturinn í hópnum var svo öflugur að maður fór heim
fullur af eldmóði og tilhlökkun í að hitta hópinn aftur að
ári.
Verði svo!
Gunnlaugur I. Grétarsson