Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2007, Page 12

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2007, Page 12
'Telurðu þó í hundnuðum eða þúsundum ..." Þegar ég fór í alnæmisprófið Þegar alnæmisfaraldurinn gaus upp var ég formaður í félagi Samtakanna '78, félagi lesbía og homma á Islandi. Við fengum lækna sem komu að alnæmismálum til að koma á fund með félagsmönnum til að fræðast um málið og skiptast á skoðunum. Þegar mótefnaprófið kom til sögunnar mæltu læknarnir auðvitað með því að nota sér það en skoðanir voru skiptar á meðal félagsmanna. Sumir töldu tilgangslaust að fá að vita að maður sé með sjúkdóm sem ekkert væri hægt að gera við. Aðrir óttuðust það að fara í prófið, bæði vegna þess sjálfs og vegna heilbrigðisstarfsmanna sem ynnu verkin. Þegar svona stóð á og skoðanir mjög skiptar gat stjórn félagsins ekki mælt með einni leið umfram aðra, að fara í próf eða ekki. Eg taldi afar ólíklegt að ég væri smitaður þó að það væri svo sem aldrei að vita miðað við þekkinguna fyrir rúmum tuttugu árum. En ég ákvað að fara í prófið - alveg eins og kannski aðallega til reyna á sjálfum mér hvernig væri að ganga í gegnum það. Ef mér litist vel á gæti ég mælt með því að fara í próf, að minnsta kosti fyrir sjálfan mig. Ég ákvað að fara ekki í þá sérstöku móttöku á vegum spítalanna sem var ætluð fyrir mótefnapróf, heldur að fara til almenns læknis. Þeir höfðu allir fengið leiðbeiningar frá landlækni um það hvernig afgreiða skyldi beiðni um mótefnamælingu. Ég var skráður hjá lækni á heilsugæslustöð en hafði aldrei hitt hann og vissi ekki hver hann var, enda svo sem sama um það. Þannig að ég hringi og panta mér tíma, sem ég fékk mjög fljótlega. Læknirinn heilsaði mér og hann reyndist vera roskinn maður. Hann spyr mig um erindið og ég segi honum að mig langi til að fara í aids-próf. Hann verður gapandi hissa en segir svo:„Hvers vegna vilt þú það?“ „Vegna þess að ég er hommi." Það kemur á hann en svo segir hann: „Jæja, vinur minn. Telurðu þá í hundruðum eða þúsundumi" Hann gaf bara tvo svarkosti svo að ég svaraði: „Þá frekar í hundruðum." Þá setti hann hljóðan um stund en sagði svo:„Ja, ég veit bara ekkert hvað ég á að gera.“ Ég spurði hann þá hvort hann hefði ekki nýlega fengið leiðbeiningar frá landlækni. Jú, hann játti því og hugsaði sig svo um og sagði: „Heyrðu, hringdu í mig á morgun.“ Svo kvöddumst við og ég hringdi daginn eftir. Hann segir mér að fara daginn eftir klukkan eitt og hitta lækni sem hann hafði talað við og væri tilbúinn að taka á móti mér. Þegar ég kem stundvíslega klukkan eitt á staðinn er skrifstofan opin en enginn inni. Ég hitti starfsmann á ganginum og segi honum að ég hafi átt að hitta Guðmund1. „Hann er kominn niðurj segir starfsmaðurinn og fylgir mér niður á hæðina fyrir neðan og að dyrum að stórum sal á við tveggja herbergja íbúð. Þar stendur læknirinn eins og herforingi inni á miðju gólfi og tveir aðrir læknar sinn til hvorrar handar, karl og kona. Mér er heilsað afar virðulega og svo var sóttur stóll og settur niður úti á miðju gólfi og mér boðið sæti. Þá sótti konan sprautuna og færði Guðmundi, Hann mundar hana og dregur blóð. Hinir læknarnir horfa á með aðdáun og konan segir: „Guðmundur, en hvað þú manst þetta ennþá!“ „Já, maður gleymir því ekki sem maður hefur einu sinni lært,“ segir minn maður, Svo gekk hann að borði við vegginn og settist við smásjá, renndi blóði á glerplötu og horfði dálítinn tíma í smásjána. Að því loknu stendur hann upp og segir mér að hringja í lækninn minn á morgun. Ég hringdi í lækninn daginn eftir og fékk niðurstöðuna:„Þetta er allt í fínu lagi.“ Eftir þessi fyrstu kynni af mótefnarannsókn ákvað ég að segja ekki nokkrum manni frá þeim - og ekki fyrr en núna - því að ég vildi ekki letja menn til að fara í próf. En ég gat heldur ekki mælt með því. Hefði ég verið logandi hræddur um að vera smitaður hefði ég orðið fyrir áfalli við móttökurnar hjá heilsugæslulækninum og jafnvel í byrjun alnæmisfaraldursins vissi hver sem fylgdist með að veiruna sér maður ekki í venjulegri smásjá. Allt í plati! Guðni Baldursson 1 Nafninu er breytt. 12

x

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi
https://timarit.is/publication/1509

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.