Börn og menning - 01.09.2008, Blaðsíða 16

Börn og menning - 01.09.2008, Blaðsíða 16
14 Börn og menning til foreldranna og það er mikils virði að eiga flotta foreldra. Á þessu ber mest í bókinni Ef þú bara vissir ... og á bæði við foreldra Jonna, sem er draumaprins Klöru, en þó alveg sérstaklega um mömmu hennar, enda kemst hún í gallabuxur númer 27. Það verður ekki mikiðflottara. Þarerannarsdregin upp heldur grátbrosleg mynd af foreldrunum, fólki sem er upptekið af tísku og ytri velmegunartáknum, nýtísku húsbúnaði, flottum bílum, frægð og frama með myndbirtingum í Séð og heyrt. Sú gagnrýni sem örlar aðeins á í bókinni hefði mátt vera miklu beittari. Þetta lífsstílsæði verður enn kaldhæðnislegra í Ijósi efnahagshrunsins sem ríður yfir okkur núna, ári eftir að bókin kom út. í bókunum um Emblu er óspart gert grín að fullorðnu fólki og ófullkomleiki þeirra afhjúpaður í stíl við íróníuna sem einkennir frásagnarháttinn. Júlía býr hins vegar hjá einstæðri móður sinni, sem er hjúkrunarfræðingur og alls ósnortin af lífsstílsæðinu, enda peningar af skornum skammti á því heimili. Lúxusinn er samt ekki með öllu fjarverandi í bókunum um Júlíu; hann á bara heima hjá öðrum en henni. Mál og stíll Bækurnar tvær um dramadrottinguna Emblu eru ágætlega skrifaðar á léttum, húmorískum og ekki síður írónískum nótum. Þó ástamál unglinga séu ekki léttvæg og valdi oft vanlíðan er fjallað um ástarmál Emblu í léttum dúr. Persónusköpunin tekst þar nokkuð vel miðað við alla íróníuna og þar er reynt með ágætum árangri að byggja upp tilfinningar á milli Emblu og Braga. Þar bregður líka fyrir skemmtilegu myndmáli og stíll og efni minna langmest á Dagbók Bridged Jones af þessum dramadrottningabókum. Sjálfshjálparbækur fá þar háðulega útreið svo og umtal um prinsa og froska, þó það komi reyndar í bakið á Emblu. Bækurnar um flatbrjósta nunnuna Júlíu eru skrifaðar af óheftu fjöri og höfundur sýnir á köflum góð tilþrif. Stíllinn er þó full talmálslegur og enskuslettur eru algengar. Bækurnar hefði þurft að prófarkalesa betur og þær hefðu líka haft gott af meiri ritstýringu; hugsanlega hefði farið betur á því að þjappa sögunni niður f tvær bækur. Það er reyndar mikið um slettur og slangur í texta bókanna um dramadrottningarnar, þó síst í bókunum um Emblu, og greinilegt að það er notað sem meðal til að höfða til unglinga og laða þá að bókunum. Dramadrottningarnar og vinir þeirra nýta sér nýjustu samskiptatækni, blogg, MySpace, tölvupóst, msn, sms, og sumar persónurnar eiga ipod, enda er þetta órjúfanlegur hluti af unglingamenningu samtímans. Það veldur alsælu þegar draumaprinsinn biður eina dramadrottninguna um að láta adda sig á MySpace-ið hennar. Dramadrottningin Embla bloggar og vinkonurnar bregðast við. Bloggið er hluti af frásögninni, en efni þess er stundum nánar útfært í textanum. Efni sumra hinna sagnanna er líka miðlað að hluta í gegnum orðaskipti á MySpace og með sms-skilaboðum. Gemsinn er svo auðvitað líka orðinn samgróinn persónum og gegnir mikilvægu hlutverki í samskiptum þeirra. Talsvert er um tilvísanir í þekktar persónur úr dægurmenningu samtímans, einkum erlendri, svo sem íþróttahetjur, leikara, kvikmyndir og sjónvarpsþætti. En lesendur verða annars lítið varir við ytra samfélag í bókunum, nema sem lýtur að lýsingum á munaði í húsbúnaði og bílum foreldra sumra sögupersóna. Skólinn og námið, tómstundaáhugamál og framtíðarplön eru lítið sem ekkert til umfjöllunar. Að lokum Persónur bókanna um dramadrottningarnar eru á hraðri leið inn í heim fullorðinna. Þær hafa rekið tána þangað inn þegar bækurnar hefjast og eru komnar inn fyrir með annan fótinn þegar við skiljum við þær. Flestar dramadrottningarnar læra eitthvað um sjálfar sig, eins og skvísurnar í skvísubókunum. Þrátt fyrir að persónusköpuninni sé að sumu leyti ábótavant gera dramadrottningarnar þrjár sér betur grein fyrir því hvað þær vilja og hvað þær eru tilbúnar að gefa. Þær vita líka betur til hvers þær ætlast og hvers þær geta vænst af öðrum. Það er auðvitað talsvert. Bækurnar um dramadrottningarnar eru því þrátt fyrir allt þroskasögur þó þær risti misdjúpt og séu umfram allt afþreyingarsögur. Verulega bitastæðar íslenskar skáldsögur fyrir unglinga eru ekki margar á síðustu árum og fáir rithöfundar skrifa fyrir þennan hóp lesenda. Bækur sem fjalla um ungt fólk á menntaskólaaldri sjást varla. Þeim markaði virðist helst sinnt af amerískum kvikmyndum og sjónvarpsseríum. Það ber því að fagna því þegar nýir rithöfundar kveðja sér hljóðs með bókum fyrir unglinga og það er full ástæða til að hvetja þá til frekari dáða. Höfundur er lektor í íslensku við menntavísindasvið Háskóla íslands

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.