Börn og menning - 01.09.2008, Side 24
22
Börn og menning
Sigurður Ólafsson
Metsöluhöfundur barnanna
Afþreyingarbækur fyriryngri borgara
Ég veit ekki hversu vinsælt það er á þessum
vettvangi að lýsa sig ósammála ákveðinni
pólitískri réttsýni gagnvart viðhorfi til barna
og unglinga. En ég ætla að taka sénsinn.
Það er nefnilega þannig að ég leyfi mér að
efast um gildi frasans um það að „börn séu
kröfuhörðustu áhorfendurnir/lesendurnirl
hlustendurnir". Vissulega er það svo að
börn og unglingar hrífast stundum af
góðum og vönduðum listaverkum, eins
og sumt fullorðið fólk. Hins vegar verður
því vart neitað að engum hópi er jafn
auðveldlega stjórnað af markaðsbrögðum,
tískusveiflum og yfirborðsmennsku.
Það er ekkert óeðlilegt við þetta. Börn
og unglingar eru ómótaðir einstaklingar
sem þar af leiðandi eru áhrifagjarnari þegar
að þeim steðjar ytra áreiti, sér í lagi í formi
yfirborðsmennsku og markaðsherferða. Þau
eru ginnkeyptari en eldra fólk fyrir ytri
byrðum og einmitt þess vegna erum við hin
fullorðnu í hlutverki þeirra sem leiðbeina
þeim áfram og hafa á stundum vit fyrir
þeim þegar kemur að því að velja gæði
og innihald fram yfir fagrar umbúðir. Fyrir
mér er þetta ósköp eðlileg spurning um
þroskaferli. Ekki er ég alla vega á því að ég
hafi verið á hápunkti skynjunar og þroska
míns sem barn og unglingur og hafi síðan
deyfst í kröfum mínum sem njótandi lista og
menningar- þvert á móti.
Vinsælar bækur
Framangreind óvinsæl yfirlýsingagleði mín
tengist því að nýlega fékk ég í hendur
það óvænta verkefni að taka örfáar
stikkprufur af ferli rithöfundarins Helga
Jónssonar og skrifa um þá reynslu mína í
þetta rit. Helgi þessi hefur ekki farið hátt í
fjölmiðlaumræðunni en samt er svo að fáir
barna- og unglingabókahöfundar njóta meiri
vinsælda hjá sínum markhópi en einmitt
hann. Bækur hans hafa um árabil rokið út
af bókasöfnum og hafa að sögn selst afar
vel. Höfundur auglýsir þannig sjálfur á síðu
útgáfu sinnar að Gæsahúðar-bókaflokkur
hans hafi selst í um 45.000 eintökum. Ef
satt reynist verður það að teljast harla gott á
litlum bókamarkaði.
Sama máli gegnir um dóma þá sem
lesendur bókanna fella yfir þeim. Á vef
bókaorma, sem (þáverandi) Kennaraháskóli
íslands hýsir, er enginn íslenskur rithöfundur
ofar á blaði en Helgi Jónsson yfir fjölda
umsagna. Eitt og eitt barn gefur Helga
dræma dóma fyrir bækur sínar en þegar á
heildina er litið líst krakkaskaranum annað
hvort dável eða mjög vel á bækur Helga.
Þrátt fyrir þetta hefur heyrst hér og hvar í
hornum að fullorðið fólk sem komist hefur
í höfundarverk Helga taki bókakostinum
misjafnlega.
Það er því sjálfsagt sanngirnismál að reyna
að komast að hinu sanna í málinu. Ég
lagði því til hliðar allar þær djúphugsuðu
fullorðinsbækur sem ég les þessa dagana,
vopnaður mínum geysilega áunna þroska,
og lúslas þrjár stikkprufur af rithöfundarferli
Helga Jónssonar. Bækurnar voru tvær
Gæsahúðarbækur, önnur frá 1998, merkt
númer tvö og ætluð fyrir börn og hin frá því
í fyrra, ætluð unglingum og með titlinum
Villi vampira. Þriðja bókin var unglingabókin
Rauðu augun (1999) en hana skrifaði Helgi
í félagi við son sinn, Hörð Helgason. Stutt
grein eins og þessi býður ekki upp á langa
eða ítarlega greiningu eða að mörg dæmi
séu tiltekin, umfjölluninni til stuðnings. Því
verður ákveðin heildarásýnd látin duga.
Stirðleiki og staðalmyndir
Skemmst er frá því að segja að vantrú mín
á frasann um kröfuhörku barna, fram yfir
fullorðna, staðfestist nokkuð við lesturinn.
Það sem einkennir allar bækurnar þrjár er
stirður söguþráður þar sem höfundur dvelur
of mikið við smáatriði en ræður aftur á móti
illa við að gera lykilatriðum skil, hvað þá að
vinna úr þeim. Sögupersónur eru flestallar
byggðar á steríótýpískri, einfaldaðri ímynd
af börnum og unglingum og þar að auki ber
nokkuð á því, sérlega í unglingabókunum,
að allir aldurshópar, ungir sem aldnir, hegði