Börn og menning - 01.09.2008, Síða 26
24
Börn og menning
Júlía Margrét Alexandersdóttir
Hrylling ofar hamingju
Við mæðgurnar eigum okkur einnar línu
brandara sem er eiginlega eini brandari
heimilisins sem við þreytumst aldrei á að
segja. „Dúa bangsi datt í koppinn!" Þessi
lína finnst okkur alltaf jafn ótrúlega
fyndin en hana má finna í einni af fyrstu
uppáhaldsbókum dóttur minnar en hún
fjallar um drenginn Dúa og leikföngin
hans. Dóttir mín og ég þræddum held
ég flestar þær barnabókmenntir sem í
boði voru fyrir þau allra yngstu á sínum
tíma og það verður að viðurkennast að
fæstar sitja þær eftir enda takmarkað
hve eftirminnilegan texta hægt er að
skrifa fyrir börn sem eru rétt að byrja
að tala.
Það er því í raun ákveðið afrek að í
þessum ósköp einföldu sögum af honum
Dúa náði höfundurinn, Barbro Lindgren,
að höfða til húmors tveggja ára barns með
einföldum áföllum eins og þegar bangsinn
endasteyptist ofan í koppinn hans Dúa. Og
hlátur dótturinnar yfir bangsanum í koppnum
smitaðist auðvitað strax til móðurinnar sem
þreyttist aldrei á að lesa sögurnar af Dúa og
beið spennt eftir því að afkvæmið ræki upp
roku. Skiljanlega munum við alltaf elska Dúa
og hans hversdagslegu ævintýri.
Dóttirin, sem nú er tíu ára, lærði fljótt að
lesa, móðirin er að eðlisfari löt og því var
barnið oftar en ekki frekar látið lesa fyrir
móðurina en að móðirin læsi fyrir það. Afinn
gerði þetta líka - rétti barninu bækur og lá
svo og dottaði meðan hún las fyrir afa sinn
söguna af Hans og Grétu eða Rauðhettu
og úlfinum. Grimmsævíntýrin og annar
hryllingur virtist strax koma sterkastur inn og
þar fundum við fljótlega okkar sameiginlega
flöt í lestri: Einhvers konar lokkandi óhugnað.
Þá entist móðirin lengst og kvöldstundin
dróst á langinn. Vísnabókin varð þannig að
einni mest spennandi bók heimilisins, ekki
af því að þar væri svo skemmtilegar vísur
að finna (sem auðvitað var nóg af), heldur
biðu allir með öndina í hálsinum eftir því að
myndin af henni Grýlu í allri sinni dýrð birtist
i miðri bók og móðirin dró sængina upp fyrir
haus á meðan dóttirin hló og tróð myndinni
framan í hana, hæstánægð með að sjá hana
hræðast gömlu kellinguna.
Svona hélt þetta áfram. Bækur þar
sem hugsanlega var að finna einhverja
„næturstemningu", dulúð og óhugnað
heilluðu öðru fremur og þegar ég fór
yfir bókaskápinn með dóttur minni um
daginn benti hún á bækur eins og Litla
Vampýran, Gæsahúð, Sesselju Agnesi og
Ævintýrabækurnar. Einnig uppgötvuðum við
að oftast hefðum við lesið saman þá allra
svörtustu í skápnum: Nornirnat, eftir Roald
Dahl. Nornirnar hafa allt að bera til að geta
skemmt foreldri og barni í senn - svartan
húmor, stórkostlegan texta, myrkur, spennu
og fullt af brjálæðislega skemmtilegum
hugmyndum. Roald Dahl fjölfaldaði Grýlu,
kom henni í hundraðatali fyrir á stórri
samkomu norna og henti svo litlu barni inn í
miðja þvöguna -fullkominn hryllingur!
Við ræddum í gærkvöldi hverju það sætti
að við elskuðum hryllinginn. Og hvað það
væri sem gerði barnabækur leiðinlegar.
Dóttirin var með svar á reiðum höndum.
„Leiðinlegar barnabækur fjalla um glaðlegar
kanínufjölskyldur. Of hamingjusamar bækur
eru leiðinlegar. Það verður eitthvað að gerast.
Eins og að mamman deyi í eldsvoða." Þetta
hljómar kannski skelfilega í fyrstu, að barnið
vilji ekki samsama sig hamingju í bókum
en ætli það sé ekki fyrst og fremst það að
fæst okkar þekkjum við hinn fullkomna
„kanínuheim". Fyrir utan það að syngjandi
fjölskyldan er yfirleitt plein og leiðinleg þá
er reynsluheimur barns fullur af alls kyns
óvæntum atburðum, sorgum og lífsreynslu
og hver græðir þá á því að lesa um heiminn
þar sem ekkert gerist nema að síminn
hringir, pabbinn tekur bensín og allir fá
afmælisgjöf?
Höfundur er blaðakona