Víkurfréttir - 20.01.2021, Qupperneq 20
Þróttarar halda áfram leikgleðinni
Þróttur Vogum lék gegn Haukum á
laugardag. Þróttarar voru 1:0 undir
í hálfleik en í síðari hálfleik tryggðu
þeir sér sigur með mörkum Viktors
Smára Segatta og Eyjólfs Arasonar.
Þróttarar, sem leika í riðli 1 í B
deild, eru með þrjú stig eftir fyrstu
umferð, jafnir Aftureldingu sem
vann Vestra og á eitt mark til góða.
Þróttur mætir Vestra í næstu um-
ferð og fer sá leikur fram á Fylkis-
vellinum á laugardag klukkan
13:00.
knattspyrnuvertíðin hófst um helgina
Eftir frekar snubbóttan endi á knattspyrnutímabili síðasta
árs, þar sem ekki var hægt að ljúka leik í Íslandsmótinu
vegna veirufaraldursins Covid-19, er undirbúningstímabil
ársins 2021 formlega hafið en leikir í æfingamóti Fótbolta.
net fóru af stað fyrir helgi.
Keflavíkingar mæta vel undirbúnir fyrir Pepsi Max-deildina
Lengudeildarmeistarar Keflavíkur mættu FH í sínum fyrsta leik á laugardag, leikið var í Hafnarfirði. Keflvíkingar,
sem leika í Pepsi Max-deildinni í ár, höfðu betur í þessari viðureign og sigruðu 2:1. Það voru Oliver Kelaart, 22ja ára
ástralskur sóknarmaður sem er til reynslu hjá Keflavík, og Helgi Þór Jónsson sem skoruðu mörkin fyrir Keflavík.
Tvö efstu lið riðils 2 í A deild leika í Reykjaneshöllinni á laugardag klukkan 12:00 þegar Keflvíkingar mæta
Blikum.
Keflavíkingar fagna eftir að hafa tryggt sér sæti í Pepsi Max-deildinni í ár.
Reynismenn ríða á vaðið á laugardag
Reynismenn mæta Hvíta riddaranum í fyrstu umferð riðils 1 í C deild,
leikið verður í Skessunni í Hafnarfirði á laugardag og leikurinn hefst
klukkan 18:30.
Grindavík tapaði í Kópavogi
Grindavík lék gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli en þau leika í sama riðli
og Keflavík og FH.
Markalaust var í hálfleik en í síðari hálfleik seig á ógæfuhliðina fyrir
Grindavík og Blikar settu þrjú mörk án þess að Grindavík næði að svara,
lokatölur 3:0 fyrir Breiðabliki.
Grindavík mætir FH í Skessunni í Hafnarfirði á laugardaginn klukkan
11:00, bæði lið eru stigalaus í riðli 2 í A deild.
Njarðvíkingar byrja með látum
Njarðvíkingar mættu Selfossi
í Reykjaneshöllinni og þar var
sannkölluð markaveisla, átta
mörk voru skoruð áður en blásið
var til leiksloka. Maður leiksins
var Skotinn Kenneth Hogg sem
hóf árið með því að skora þrennu,
Atli Freyr Ottesen Pálsson
skoraði eitt mark fyrir Njarðvík.
Njarðvíkingar eru í öðru sæti
2. riðils B deildar og mæta næst
Víkingi Ólafsvík á föstudag í
Reykjaneshöllinni og hefst leik-
urinn klukkan 19:40.
ÞORRABLÓT UMFN 2021
Ágætu Njarðvíkingar og aðrir velunnarar UMFN,
okkur þykir leitt að tilkynna að þorrablótið í ár
fellur niður vegna COVID-19.
Við mætum ofurhress á næsta ári
og tökum vel á því þá.
Þorrablótsnefnd UMFN
Kenneth Hogg skoraði
þrennu gegn Selfossi.
Meistaraflokkur kvenna í Keflavík vann FH
Nýliðar Keflavíkur í Pepsi Max-deild kvenna léku æfingaleik við FH í
Reykjaneshöllinni um helgina.
Stelpurnar reyndust engir eftirbátar Keflavíkurstrákanna og sigruðu þær
leikinn 4:2.
Mörk Keflavíkur gerðu þær Aníta Lind Daníelsdóttir, sem skoraði tvö
mörk, Eva Lind Daníelsdóttir og Amelía Rún Fjeldsted sem skoruðu sitt
markið hvor.
Markaskorararnir þrír eftir leikinn gegn FH.
Miðvikudagur 20. janúar 2021 // 3. tbl. // 42. árg.sport