Morgunblaðið - 07.01.2021, Blaðsíða 34
34 FRÉTTIRErlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 7. JANÚAR 2021
KRINGLAN – SMÁRALIND – DUKA.IS
ULLARTEPPI
& ULLARSJÖL
Ullarteppi lítið
90x130 cm – 11.900,-
Ullarteppi stórt
130x180 cm – 19.900.-
Margir litir
Ullarsjal
19.900,-
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Gera þurfti hlé á talningu kjörmanna
á Bandaríkjaþingi eftir að stór hópur
stuðningsmanna Donalds Trump
Bandaríkjaforseta náði að brjóta sér
leið inn í þinghúsið um hálf-áttaleytið
að íslenskum tíma í gærkvöldi. Mót-
mælendur og lögreglan höfðu tekist á
fyrir utan þinghúsið og beitti lögregl-
an táragasi og piparúða til þess að
reyna að ná tökum á ástandinu, en án
árangurs. Ekki var ljóst hver staðan
var þegar Morgunblaðið fór í prentun
í gærkvöldi, en sjá mátti á frétta-
myndum mótmælendur ganga um
sali þinghússins án nokkurrar mót-
spyrnu.
Muriel Bowser, forsprakkar þings-
ins og lögreglan í Washington-borg
kölluðu öll eftir aðstoð frá alríkisyf-
irvöldum, en nokkrir grunsamlegir
pakkar fundust á víð og dreif um ná-
grenni þinghússins. Sendi Trump
Bandaríkjaforseti þjóðvarðliða á
vettvang. Hvatti hann mótmælendur
á Twitter-síðu sinni til þess að vera
friðsama, en forsetinn ávarpaði mót-
mælafundinn fyrr um daginn.
Innrás mótmælendanna truflaði
umræðu sem þá var nýhafin í báðum
deildum þingsins eftir að þingmenn
repúblikana höfðu gert athugasemd
við kjörmenn frá Arizona-ríki, einu af
þeim ríkjum sem Joe Biden, verðandi
Bandaríkjaforseti, vann af Trump í
kosningunum í nóvember.
Snýst gegn varaforseta sínum
Lífverðir Mike Pence varaforseta
leiddu hann úr sal öldungadeildar-
innar og komu honum í skjól, en
hann hóf sameiginlegan þingfund
þingsins á því að lesa upp yfirlýs-
ingu, þar sem hann tók fram að
stjórnarskráin veitti sér enga heim-
ild til þess að breyta niðurstöðu
kosninganna, en Trump hafði haldið
því fram að varaforsetinn hefði heim-
ild til þess að telja þau atkvæði sem
sér sýndist, þar á meðal „kjörmenn“
repúblikana í þeim ríkjum þar sem
gerður hafði verið ágreiningur um
niðurstöðuna. Trump brást reiður
við yfirlýsingu Pence á Twitter-síðu
sinni og sakaði Pence um að hafa
„skort hugrekki“ til þess að gera hið
rétta.
Nokkrir þingmenn repúblikana í
báðum deildum höfðu lýst því yfir
fyrirfram að þeir hygðust gera at-
hugasemdir við talningu kjörmanna í
allt að sex ríkjum, en hver athuga-
semd kallar á umræðu sem getur
staðið yfir í allt að tvo tíma.
Ekki þótti neinn vafi leika á því að
allar athugasemdirnar yrðu felldar
og hóf Mitch McConnell, leiðtogi
repúblikana í öldungadeildinni, um-
ræðuna með því að fordæma þá koll-
ega sína í deildinni sem hygðust gera
athugasemdir við talninguna. Sagði
McConnell að með gjörðum sínum
kynnu þingmennirnir að valda lýð-
veldi Bandaríkjanna „varanlegum
skaða“, þar sem enginn efi væri leng-
ur um að Biden hefði sigrað.
Demókratar með yfirhöndina
Fyrr um daginn hafði hagur demó-
krata á Bandaríkjaþingi þótt vænk-
ast mjög, en allt benti þá til þess að
Raphael Warnock og Jon Ossoff,
frambjóðendur þeirra til öldunga-
deildarinnar í Georgíu, hefðu sigrað
þau Kelly Loeffler og David Perdue í
seinni umferð kosninga. Voru báðir
demókratar komnir með forystu í
gær í talningunni, en endanleg nið-
urstaða mun ekki liggja fyrir fyrr en
á morgun, föstudag.
Sigur Warnocks, sem þjónar sem
prestur í sömu kirkju og Martin Lut-
her King var á sínum tíma, þótti ekki
í vafa, en óvíst var enn hvort mun-
urinn á milli Ossoffs og Perdue yrði
nægur til þess að ekki þyrfti að end-
urtelja atkvæði.
Sendi framboð Perdue frá sér yfir-
lýsingu í fyrrinótt, þar sem lýst var
yfir að það hygðist halda baráttunni
áfram, og var jafnvel gert ráð fyrir að
Perdue myndi reyna að kæra kosn-
ingarnar og framkvæmd þeirra.
Bæði Perdue og Loeffler þykja nánir
bandamenn Donalds Trump Banda-
ríkjaforseta, og hafa þau bæði tekið
undir efasemdir Trumps um niður-
stöðu forsetakosninganna. Óvíst er
þó hvaða áhrif það hafi haft á gengi
þeirra, en framámenn í Repúblikana-
flokknum höfðu óttast að barátta
Trumps við að snúa niðurstöðu kosn-
inganna við hefði dregið úr kjörsókn
meðal repúblikana í fyrradag.
Garland tilnefndur
Verði sigur Warnocks og Ossoffs
staðfestur þykir það mikill sigur fyrir
Joe Biden, verðandi Bandaríkjafor-
seta, þar sem demókratar munu þá
hafa 50 þingsæti í öldungadeildinni á
móti 50 þingsætum repúblikana, sem
hingað til hafa haft meirihlutann í
höndum sér.
Þar sem oddaatkvæðið er í hönd-
um varaforsetans hverju sinni, þýðir
það að um leið og Biden sver embætt-
iseið sinn 20. janúar næstkomandi
hljóta demókratar meirihlutann í
deildinni, sem aftur auðveldar Biden
að koma stefnumálum sínum í gegn,
en deildin gegnir bæði mikilvægu
hlutverki í utanríkismálum og við
skipan bæði ráðherra og dómara.
Biden, sem sjálfur var öldunga-
deildarþingmaður í rúma þrjá ára-
tugi, hafði til dæmis beðið með að út-
nefna í stöðu dómsmálaráðherra þar
til ljóst væri hvernig kosningarnar
færu, þar sem ekki var vitað hvort
hann gæti treyst á stuðning deildar-
innar, eða hvort Biden þyrfti að
semja við McConnell um skipan rík-
isstjórnar sinnar.
Biden tilkynnti svo í gær að hann
hefði ákveðið að skipa dómarann
Merrick Garland í stöðuna, en Gar-
land er þekktastur utan Bandaríkj-
anna fyrir að hafa verið útnefndur af
Barack Obama í stöðu hæstaréttar-
dómara árið 2016. Repúblikanar
lögðust þá gegn skipan Garlands, þar
sem um kosningaár væri að ræða.
Garland þykir miðjusinnaður demó-
krati líkt og Biden.
Þá þykir víst að öldungadeildin
muni nú samþykkja ýmsar fjárveit-
ingar sem fulltrúadeildin hefur lagt
til, en þar á meðal er tillaga um að
hver Bandaríkjamaður fái ávísun upp
á 2.000 Bandaríkjadali frá ríkinu
vegna kórónuveirufaraldursins, en
bæði fulltrúadeildin og Trump
Bandaríkjaforseti höfðu kallað eftir
því í andstöðu við McConnell.
Stjórnmálaskýrendur vestanhafs
sögðu þó að ekki mætti ætla að Biden
og Demókrataflokkurinn myndu hafa
frítt spil til að gera sem sér sýndist,
jafnvel þótt bæði framkvæmda- og
löggjafarvald yrðu nú á sömu hendi,
þar sem meirihlutinn væri ekki
traustari en svo að aðeins einn demó-
krata þyrfti til að fella mál. Þá bíða
erfiðar þingkosningar árið 2022, en
flokkur sitjandi forseta tapar jafnan
þingsætum í þeim.
AFP
Óeirðir Lífverðir verja innganginn að sal fulltrúadeildarinnar í þinghúsinu á meðan þingmenn yfirgefa salinn.
Brutu sér leið inn í þinghúsið
Hlé gert á talningu kjörmanna á Bandaríkjaþingi Pence hugðist ekki reyna að breyta niðurstöðu
kosninganna McConnell fordæmir kollega sína og segir þá geta valdið lýðveldinu varanlegum skaða
Taldar eru góðar líkur á því að Inger
Støjberg, fyrrverandi varaformaður
Venstre og fv. ráðherra innflytj-
endamála, yrði sakfelld fyrir emb-
ættisafglöp sín fyrir Landsdómi
Danmerkur, að mati tveggja óháðra
lögfræðinga sem unnu skýrslu fyrir
danska þingið. Greidd verða atkvæði
í næstu viku um hvort Støjberg verði
ákærð.
Støjberg sagði af sér varafor-
mennsku í Venstre, helsta stjórnar-
andstöðuflokki Danmerkur,
skömmu fyrir áramót, en þá hafði
komið í ljós að hún hafði afvegaleitt
danska þingið um þá atburðarás sem
leiddi til þess að ráðuneyti hennar
gaf út árið 2016 ólögleg fyrirmæli um
aðskilnað allra para sem sóttu um
hæli í Danmörku, ef annar aðilinn
var undir 18 ára aldri. Fyrirmælin
voru síðar sögð ólögleg af umboðs-
manni þingsins, þar sem þau kölluðu
á aðskilnað án nokkurrar undan-
tekningar eða rannsóknar á málsat-
vikum.
Jakob Elleman-Jensen, formaður
Venstre, lýsti því yfir fyrir áramót að
hann styddi að Støjberg yrði dregin
fyrir Landsdóm vegna málsins, en
stjórnmálaskýrendur danska ríkis-
útvarpsins sögðu í gær að bæði Ven-
stre og Sósíaldemókrataflokkurinn
væru hikandi við að stíga það skref,
en gera má ráð fyrir innanflokks-
átökum í Venstre vegna málsins.
Landsdómur var síðast kallaður
saman í Danmörku á 10. áratug 20.
aldar vegna Tamíla-málsins svo-
nefnda, en þá var Erik Ninn-Hansen
dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í
fjóra mánuði fyrir að hafa komið í
veg fyrir að flóttamenn úr hópi Tam-
íla gætu sameinast fjölskyldum sín-
um sem þegar voru löglega í Dan-
mörku.
Mögulega ákærð
fyrir Landsdómi
Líkur taldar á sakfellingu Støjberg
AFP
Í vanda Støjberg sést hér hlýða á
umræðu á þinginu árið 2016.