Morgunblaðið - 07.01.2021, Blaðsíða 63
MENNING 63
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 7. JANÚAR 2021
Nánari upplýsingar um sýningartíma á sambio.is
SÝND MEÐ ÍSLENSKU TALI.
TRYGGÐU ÞÉR
MIÐA INNÁ
SÝND MEÐ ÍSLENSKU TALI
Titill gamanmyndarinnarThe Forty-Year Old Vers-ion vísar til hins gríðar-vinsæla grínslagara The
Forty-Year Old Virgin sem skart-
aði Steve Carrell í hlutverki fávísa
hreina sveinsins. Útúrsnúningurinn
er til þess gerður að fanga athygli
meginstraumsáhorfenda, líkt og
myndin sem notar kunnuglegt frá-
sagnarform og þemu til að bjóða
upp á ferskt og fáheyrt sjónarhorn.
Söguhetja Fertugu gerðarinnar,
Radha Blank, er svört, fertug og
kvenkyns leikskáld sem býr í New
York. Radha stendur á ákveðnum
krossgötum en þrátt fyrir fögur
fyrirheit hefur ferillinn ekki náð
flugi og einkennst af endalausri
höfnun undanfarinn áratug. Hún er
óörugg í eigin skinni, aukakílóin
plaga hana og þar að auki hefur
hún nýverið misst móður sína. Til
að ná endum saman kennir hún
leiklist í menntaskóla í hverfi sínu
Harlem. Æskuvinur og umboðs-
maður hennar, hinn kóreskættaði
Archie, reynir eftir fremsta megni
að koma leikritum hennar að í leik-
húsum breiðstrætanna. Á óvæntan
hátt finnur Radha flóknum tilfinn-
ingum sínum farveg í rapptónlist
og tekur upp emmsjénafnið Radha-
MUSprime (önnur lunkin afbökun
á poppmenningu en Rodimus
Prime er einn leiðtoga Transform-
ers-vélmennanna og líkt og Radha
hrjáist hann af efa og litlu sjálfs-
trausti). Um leið kynnist hún yngri
taktsmiði og lagahöfundi að nafni D
en þau tengjast nánum böndum í
gegnum sköpunina og sameigin-
legan móðurmissi. D fyllir glaður
skarð rómantíska viðfangsins (sem
þarf, jú, alltaf að fylla).
Fertuga gerðin ber ýmsa eigin-
leika sjálfvísandi skáldskapar.
Einna helst að því leyti að leikstjóri
og handritshöfundur hennar fer
með aðalhlutverkið sem er eins
konar skáldræn útgáfa af henni
sjálfri. Fléttan og söguatriði eru að
miklu leyti byggð á ævi höfund-
arins. Radha Blank er í leikskáld
með (aðeins) eitt uppsett leikrit á
ferilskránni og hún á sér sama
rapphliðarsjálf og persóna mynd-
arinnar. Bróðir Rödhu kemur fram
sem hann sjálfur í myndinni og at-
riðin sem varða foreldra þeirra eru
sannleikanum samkvæm – faðir
þeirra var trommari og smiður og
móðir þeirra myndlistarkona og
kennari sem lést fyrir stuttu (m.a.
eru notaðar ljósmyndir af þeim og
listaverk móðurinnar í myndinni).
Allt er þetta hluti af leik með mörk
raunveruleika og skáldskapar. Í
grunninn er þetta listamannasaga
en samfélagslegir þættir og sjálfs-
myndarpólítík eru í fyrirrúmi og
veltir Fertuga gerðin markvisst
fyrir sér hvernig er hægt sé að
skapa svartar frásagnir í listaheimi
sem samanstendur af hvítum lykla-
vörðum.
Eins og sígílt er í gríni snýr það
að miklu leyti að aðalpersónunni
sjálfri og hennar hrakföllum (sér-
staklega framan af). Radha er frá-
bær í aðalhlutverki hinnar sein-
heppnu en bráðsnjöllu listaspíru,
sem glímir við eigin sjálfsmynd (en
hún er gjarnan mynduð í spegli).
Ferðalag hennar inn í karllægan
heim rappsins er stórskemmtilegt
og textarnir eru jafn beittir og
skop myndarinnar í heild. Ekki
kemur á óvart að upphaflega var
Fertuga gerðin hugsuð sem net-
þáttaröð og gæti frásögnin ekki
síður fallið vel að því formi. Líklega
er ætlunin með svarthvítri kvik-
myndatöku að veita myndinni auk-
inn „bíóblæ“ og skipa sér á þann
hátt á skör listrænna New York-
gamanmynda eins og Manhattan
Woodys Allens og She’s Gotta
Have It Spikes Lees – en sjónræna
hliðin er ekki beinlínis styrkur
myndarinnar.
Grínið er þó sterkast þegar það
ögrar og lætur (hvíta) áhorfandann
endurmeta afstöðu sína til svartar
listar (áhrif kvikmynda Spikes
Lees eru ótvíræð). Spjótunum er
beint að leikhúsheiminum sér-
staklega en einnig á samfélagið í
víðum skilningi. Innan söguheims-
ins einskorðast rými fyrir frásagnir
svartra við „fátæktarklám“ og
rappsöngleiki, sem uppfylla um-
fram allt þarfir hvítrar millistéttar.
Undirgefni og/eða kynferðislegir
greiðar eru eina leiðin inn í þessa
veröld. Smeðjulegi leikhúsframleið-
andinn J. Whitman er holdgerv-
ingur allra þessara annarlegu
kennda og valdaójafnvægis (óvænt
innskot af slöppum skinnpoka
myndgerir vandamálið á snilldar-
legan og sprenghlægilegan máta)
en hann er frábærlega leikinn af
Reed Birney. Enn fremur tekur ír-
ónían á sér skýra frásagnarlega
mynd í grískum kór sem ávarpar
Rödhu og hlutskipti hennar beint í
myndavélina í innskotsmyndskeið-
um. Kórinn er skipaður svörtum
erkitýpum, „fólki úr hverfinu“. Þar
er að finna hressa rónann á horn-
inu með klúru brandarana og
fyndnu konuna í eldri kantinum
sem veitir óumbeðið lífsráð í sífellu.
Erkitýpurnar vita að þær eru klisj-
ur og tala um það í samskiptum
sínum við Rödhu, sem gerir grínið
enn fyndnara.
Frásögnin fylgir að öðru leyti
hefðbundnu mynstri – Radha upp-
lifir mótlæti og lærir af því og
stendur eftir stoltari fyrir vikið.
Bent hefur verið á að hún sé full-
sjálfhverf persóna, þ.e.a.s. að erfitt
sé að halda með henni þar sem hún
(og myndin) líti niður á þorra per-
sónanna sem verða á vegi hennar.
Þó að tilfinningalegt ferðalag sögu-
hetjunnar sé ekki endilega full-
nægjandi helgar tilgangurinn með-
alið að þessu sinni. Í heildina er
Fertuga gerðin frumleg, beitt og
fyndin frumraun leikstjórans.
Getur einhver elskað …?
Fertug „Þó að tilfinningalegt ferðalag söguhetjunnar sé ekki endilega fullnægjandi helgar tilgangurinn meðalið að þessu sinni,“ skrifar gagnrýnandi.
Netflix
Fertuga gerðin/ The 40 Year Old
Version bbbmn
Leikstjórn: Radha Blank. Handrit: Radha
Blank. Kvikmyndataka: Eric Branco.
Aðalleikarar: Radha Blank, Peter Kim,
Oswin Benjamin, Reed Birney, Imani
Lewis. Bandaríkin, 2020. 123 mín.
GUNNAR
RAGNARSSON
KVIKMYNDIR