Morgunblaðið - 11.01.2021, Síða 19
og hafði unun af að segja okkur
sögur um lífið, veðrið og margt
fleira. Mér er minnisstætt að
eitt sinn fórum við fjölskyldan
til Siglufjarðar þar sem elsta
dóttir okkar keppti á fótbolta-
móti. Jói, sem er alinn upp á
Siglufirði og þekkir því aðstæð-
ur þar vel, benti okkur á að
fylgjast vel með veðrinu, sér-
staklega rigningu við fjöllin.
Veðrið var yndilegt, 25 stiga hiti
í ágústmánuði, margir úti að
grilla. Trausti sér skýin þykkna
og nálgast. Hann fer að orðum
Jóa, pakkar saman grilldótinu
og setur inn ásamt matnum sem
við vorum að grilla. Í því byrjar
að hellirigna og flestir enn þá
úti að grilla þegar rigningin
skellur allt í einu á.
Fleiri minningar koma upp í
hugann sem gaman er að rifja
upp. Þegar við Trausti vorum
kærustupar gistum við af og til
heima hjá Jóa og Fríðu. Einn
morguninn vakti Jói okkur og
sagðist hafa sett bílinn okkar í
gang til að hita hann fyrir okk-
ur. Svo fóru Jói og Fríða í vinn-
una en við kærustuparið sofn-
uðum óvart aftur. Þegar við svo
loks vöknuðum og flýttum okkur
út hafði bíllinn verið í gangi dá-
góða stund og orðinn sjóðheitur.
Minningar um góðar sam-
verustundir lifa með okkur fjöl-
skyldunni. Ég minnist Jóa með
hlýhug.
Hver minning dýrmæt perla að
liðnum lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug
þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að
kynnast þér.
(Ingibjörg Sig.)
Hvíl í friði.
Steinunn Lovísa
Þorvaldsdóttir.
Vinur okkar og göngufélagi
til margra ára, Jóhannes Helga-
son rafeindavirki, er látinn eftir
erfið veikindi. Við félagar hans
söknum vinar í stað og sendum
Fríðu eiginkonu hans, vinkonu
okkar og göngusystur, okkar
dýpstu samúðarkveðjur sem og
börnum þeirra hjóna. Við höfum
haldið saman í gönguhópi í hart-
nær þrjá áratugi og hafa þau
hjónin Jói og Fríða verið okkur
sérstakir gleðigjafar og hvergi
látið deigan síga á ferðalögum
og samkomum þótt heilsubrest-
ur kæmi í veg fyrir lengri göng-
ur. Síðast vorum við með þeim í
bráðskemmtilegri og fræðandi
ferð í Tromsø í Norður-Noregi
fyrir tveimur árum. Minningar
úr ferðum heima og erlendis
standa okkur lifandi fyrir hug-
skotssjónum nú þegar við sjáum
á bak Jóa okkar.
Jóhannes var fæddur og upp-
alinn á Siglufirði. Þótt starfs-
vettvangur hans væri ekki þar
hefur umhverfi síldveiðanna trú-
lega haft áhrif á starfsval hans.
Í mörg ár rak hann fyrirtæki
sem tengdist tæknibúnaði veiði-
skipa, dýptarmælar, ratsjár og
hvers kyns fiskileitartæki voru
viðfangsefni hans og var hann
þá búsettur í Keflavík. Það var
oft gaman að heyra Jóhannes
segja frá viðureign sinni við
tæknina í veiðiskipum sem
komu inn með biluð tæki og
varð að gera við eins og skot og
kannski ekki mörgum til að
dreifa í viðgerðirnar. Hann hafði
góða frásagnarhæfileika og
kímnigáfu. Síðar varð Jóhannes
kennari í rafeindavirkjun við
Iðnskólann í Reykjavík. Honum
var alla tíð umhugað um vöxt og
viðgang sinnar sérgreinar og
eftir starfslok skrifaði hann bók-
ina Frumherjar í útvarpsvirkj-
un.
Það leyndi sér ekki í viðræð-
um við Jóhannes að hann var
mikill málafylgjumaður og hafði
ríka réttlætiskennd. Það sem
gera þurfti og átti að gera var
best að gera strax og ganga í
málin með oddi og egg. Jóhann-
es var stór maður og mikill vexti
og þegar hugur fylgdi máli hjá
Jóa þurfti ekki að spyrja að
leikslokum, sannfæringarkraftur
hans og réttlætisþörf var það
sem knúði málafylgju hans
áfram, hann þurfti ekki að blaka
hönd þeim málum til framdrátt-
ar. Þau hjón eiga tvo heyrn-
arskerta syni og þeir vildu
stunda nám eins og lög og regl-
ur kveða á um en framkvæmdin
vill oft verða önnur en reglu-
gerðin mælir fyrir um. Okkar
maður gekk í málið. Ef einhverj-
ir skyldu halda að afskipti for-
eldra af námi barna sinna séu
tiltölulega nýtilkomin þá ættu
þeir hinir sömu að þekkja stuðn-
ing Jóa við nám sona sinna,
hann ekki bara barðist fyrir
réttindum þeirra heldur sat
hann í kennslustundum með
öðrum og lærði það sama og
studdi hann með ráðum og dáð í
náminu.
Hjónaband Jóa og Fríðu var
fallegt og ástúðlegt. Þau eru ólík
um margt og er þá ekki bara
horft til útlits. Saman mynduðu
þau sterka heild þar sem hvort
naut sinnar sérstöðu en heimilið
samstöðu og væntumþykju.
Við göngufélagar færum
Fríðu og börnum þeirra fimm
samúðarkveðjur og erum þess
fullviss að minningin um mætan
og skilningsríkan eiginmann og
föður verður til hugbótar um
alla tíð.
Fyrir hönd gönguhópsins,
Eiríkur Páll Eiríksson
Guðmundur B.
Kristmundsson
Elsku Jói frændi. Jói frændi
minn var bara 12 ára þegar ég
kom inn í líf hans og frá þeim
tíma höfum við átt samleið í
gegnum lífið, samleið sem aldrei
hefur borið skugga á. Jói var
yngstur í fjögurra systkina hópi,
átti Stínu stórusystur og bræð-
urna Jón og Kristján. Nonni,
Diddi og Jói voru líklega fyrstu
nöfnin sem ég lærði, alltaf taldir
upp í aldursröð, litla frænka í
Bakka á Siglufirði sem fékk í
vöggugjöf þessa yndislegu
frændur. Drengirnir sem vökn-
uðu upp við vondan draum þeg-
ar litla frænka þeirra bættist við
fjölskylduna í Bakka, sú sem
svaf vært alla daga og grét allar
nætur.
Helgi afi og Kidda amma
voru systkinabörn og því kallaði
afi mig alltaf litlu frænku þótt
ég væri barnabarn hans. Fyrir
okkur barnabörnin 14 hefur
frænda- eða frænkutitillinn allt-
af verið eðlilegur viðbætir við
nöfn okkar innan fjölskyldunn-
ar, eins konar sameiginlegur
heiðurstitill.
Jói frændi var umvafinn góð-
um konum allt sitt líf. Svein-
björg amma hans var hluti af
hinni sístækkandi ungu fjöl-
skyldu á Akureyri, fjögur börn
fædd á fimm árum. Langamma,
amma og mamma dekruðu við
hann, en hann átti við veikindi
að stríða fram á fermingaraldur,
hann náði sér þó að fullu, þökk
sé þeim og Halldóri lækni á
Siglufirði. Konurnar í lífi Jóa
frænda urðu fleiri. Hann kynnt-
ist ungur ástinni í lífi sínu, henni
Fríðu, sem átti fimm systur. Ég
man enn eftir deginum þegar ég
hitti þær og mömmu þeirra
fyrst, þessar fallegu konur sem
höfðu svo smitandi dillandi hlát-
ur. Ég hafði aldrei upplifað hlát-
urmildari konur. Jói og Fríða
eignuðust ung börnin sín fimm,
ríkidæmi þeirra, Sigríði, Björg,
Olgeir, Unu og Trausta. Þau
hafa haldið vel utan um stóra
barnahópinn sinn og afkomend-
ur þeirra og hafa ríkulega upp-
skorið uppeldið og alla þá um-
hyggju sem þau veittu þeim.
Ég hef notið þess að vera
hluti af fjölskyldu Jóa og Fríðu
alla tíð, tengslin órofin gegnum
kynslóðirnar, ég sem barnapía
hjá þeim á Þrastargötunni og
seinna tók Sigríður frænka mín,
dóttir þeirra, við hlutverkinu og
passaði Hildi dóttur mína í
Kaupmannahöfn og Hildur síðan
Iðunni dóttur Sigríðar í Kefla-
vík.
Ég vil þakka elsku Jóa
frænda fyrir órjúfanlega vináttu
og fyrir samfylgdina og kveð
hann með ógleymanlegum en
hefðbundnum kveðjuorðum
Kiddu ömmu minnar og mömmu
hans: „Vertu nú ævinlega marg-
blessaður og sæll og Guð fylgi
þér.“
Helga frænka.
Erfitt ár er gengið um garð
og okkar bíður það nýja með
miklar væntingar. Við sem vor-
um svo heppin að þekkja og
deila stundum með Jóa erum
betur búin til að vinna úr þess-
um væntingum, þökk því sem
hann lét af sér leiða.
Eftir margra tuga ára vináttu
og náið fjölskyldusamband koma
upp óteljandi minningar sem
staðfesta þá ímynd sem ég mun
ávallt geyma um góðan vin og
tengdaföður. Þessar minningar
spanna langan tíma, marga staði
og stundir þar sem við unnum
og lærðum saman, ferðuðumst
um Evrópu, Asíu og Bandaríkin
og auðvitað ótal heimsóknir á
milli okkar heimila. Ég leyfi mér
að halda að heimshornaheim-
sóknir Jóa og Fríðu til okkar
Unu hafi fært okkur öllum
breiðari sýn á heiminn og fólk.
Og frá mínum bæjardyrum séð
þykir mér vænt um hvað Jói og
Fríða voru dugleg að leggja í
allar þessar ferðir og oft æv-
intýri til að gefa börnunum okk-
ar tækifæri á að kynnast afa og
ömmu aðeins betur, það verður
seint þakkað að fullu.
Að flytja með unga og stóra
fjölskyldu suður með sjó og
byrja með sitt eigið fyrirtæki
krefst mikils hugrekkis, það
sama hugrekki og Jói sýndi sem
frumherji þegar kom að
menntamálum heyrnarskertra.
Það tók ekkert minna en til-
færslu á ævistarfi til að koma
menntamálum sona hans í rétt
horf sem síðan leiddi til þess að
Jói varð farsæll kennari við Iðn-
skólann í Reykjavík í fjölmörg
ár.
Þessi framsækni og elja lýsa
Jóa vel og hvernig hann sigldi í
gegnum íþyngjandi mál án þess
að láta á því bera, t.d. að reka
innflutnings- og þjónustufyrir-
tæki í 70% verðbólgu og viku-
legum gengisfellingum, en þetta
var raunveruleikinn þegar þeir
Siggi ráku Sónar í Keflavík.
Ég á eftir að sakna þess að
tala við Jóa um okkar mörgu
sameiginlegu áhugamál og
hversu mikinn áhuga hann sýndi
minni vinnu og mörgu verkefn-
um, og þá sérstaklega þeim sem
höfðu með fjarskipti að gera.
Þessi sömu samtöl og við áttum
svo oft á leiðinni heim seint um
nótt eftir að hafa eytt mörgum
klukkustundum um borð til að
koma skipatæki eða loftneti í lag
svo að hetjur úthafsins gætu
haldið til veiða.
Mér er það til happs að geta
kallað fjölskyldu Jóa og Fríðu
mína eigin, þennan stóra hóp af
efnilegu fólki sem þau hafa hald-
ið utan um og ræktað. Með
þakklæti í huga fyrir góða fjöl-
skyldu og hversu vel Jói studdi
við mig ótal sinnum, þ.á m. á
þeirri stund lífsins þegar mig
vantaði stefnu í menntamálum,
skrifa ég þessar línur og setur
hljóðan.
Elsku Fríða, þú átt alla mína
samúð og aðdáun yfir því hvern-
ig þú hefur barist við hlið Jóa
okkar þetta erfiða ár.
Blessuð sé minning Jóhann-
esar Helgasonar.
Óskar S. Magnússon.
Jói minn. Mér varð hugsað til
þess hve dásamlegur maður þú
ert og hve heppinn ég er að hafa
fengið að kynnast þér.
Eins og þú kannski veist var
nærvera föður míns ekki mikil
þegar ég ólst upp og þegar hann
var þar, þá skipti ég hann litlu
máli. Þess vegna lít ég mikið
upp til góðra manna eins og þín
og reyni að taka þig mér til fyr-
irmyndar.
Ég man um aldamótin þegar
við Sigríður komum til Íslands,
þið bjugguð á Klapparstígnum.
Ég hafði aldrei farið út fyrir
landsteinana fyrr og allt í einu
er ég kominn til Íslands á fal-
lega heimilið þitt og Fríðu. Sig-
ríður sendi mig strax í rúmið því
hún vildi að ég yrði úthvíldur
þegar fjölskyldan kæmi til að
heilsa upp á okkur. Ég er þakk-
látur henni fyrir það því þegar
ég vaknaði var eins og heimili
ykkar hefði verið breytt í Grand
Central Station. Ég held að ég
hafi hitt alla íbúa Reykjavíkur
þennan morgun.
Ég man líka þegar þú fórst
með mig upp að Nesjavöllum.
Ótrúlegasta stund lífs míns. Ég
hef aldrei upplifað aðra eins
orku og kraft. Það var rétt eins
og væri verið að skjóta upp eld-
flaug. Þú leiddir mig upp að hol-
unni þar sem rörin komu upp úr
jörðinni og við báðir lögðum
hendur okkar á rörin til að finna
kraft jarðarinnar. Ég er svo
þakklátur fyrir að þú skyldir
sýna mér þennan ótrúlega stað.
Við höfum gert hluti saman,
ekki satt?
Mér verður líka of hugsað til
þess þegar ég kom til Íslands
aðeins með verkfærin mín og
undirföt til skiptanna í farangr-
inum. Planið var að setja upp
stigann fyrir Björgu með þér og
Trausta. Hugsaðu um það, þrír
strákar sem töluðu ekki sama
tungumál og við létum það ger-
ast. Við lukum verkinu og út-
koman var bara nokkuð góð.
Engar leiðbeiningar eða þýðing-
ar, við bara gerðum það.
Ég hugsa um þinn frábæra
barnahóp, barnabörn og barna-
barnabörn sem þú getur verið
svo stoltur af. Sigríður sagði
mér oft frá því hve mikið þú
þurftir að vinna til að hafa ofan í
ykkur og á á uppvaxtarárum
þeirra. Og til að toppa það tókst
þér að gefa út bók um útvarps-
virkjun á Íslandi. Jói minn, þú
hefur svo sannarlega lifað fal-
legu lífi sem speglast í dásam-
legum afkomendum þínum sem
allir hafa lært af þér.
En oftast minnist ég þess
tíma þegar þið Fríða og Alla og
Nonni komuð í heimsókn til
okkar í Washington.
Við karlarnir sátum saman,
drukkum bjór, spjölluðum um
lífið, grallarastrik unglingsára
okkar, tilveruna og áhugamál,
og kvenmenn, auðvitað haha, á
meðan þær sátu saman, drukku
vín og gerðu plön fyrir sigl-
inguna sem við vorum öll að
fara í.
Það var svo gaman.
Þú varst maður sem öllum
líkaði vel við og ég get sagt með
sanni að það er mér mikill heið-
ur að hafa fengið að kynnast
þér.
Reyndu nú að hvíla þig Jói
minn. Þú ert kominn í Sum-
arlandið og ert þar með Öllu og
Nonna.
Jói minn, þú munt alltaf eiga
stað í hjarta mínu sem dásam-
legur faðir, eiginmaður og vinur.
Billy.
Kveðjur frá samstarfs-
mönnum við Iðnskólann í
Reykjavík
Fyrstu kynni margra iðn-
skólakennara af Jóhannesi
Helgasyni voru þegar hann sett-
ist á skólabekk í byrjun níunda
áratugar síðustu aldar. Höfðinu
hærri en aðrir í bekknum og
nokkrum áratugum eldri. Þarna
var hann í þeim tilgangi að að-
stoða Olgeir son sinn við nám í
útvarps- og sjónvarpsvirkjun.
Olgeir var algjörlega heyrnar-
laus og því í mjög erfiðri stöðu
við tileinkun námsefnis. Margir
er til þekktu töldu þetta
kennslufræðilega ómögulegt.
Þeir gerðu sér ekki grein fyrir
seiglu og dugnaði Olgeirs og
óbilandi stuðningi föður hans.
Síðar átti Jói eftir að styðja á
sambærilegan hátt yngri son
sinn Trausta en báðir synir hans
luku námi við skólann með góð-
um árangri.
Upphaflega hafði Jóhannes
hugsað sér þetta verkefni sem
ólaunað starf en hann hafði þá
nýlega hætt rekstri fyrirtækis
síns Sónar sem hann hafði rekið
um árabil með góðum félaga. En
þegar á leið helgaði hann sig
kennslu enda frábær kennari, og
vel að sér í faginu, ekki síst í því
er varðaði fjarskipti.
Það gleymist stundum þegar
rætt er um fengsælan sjávar-
útveg og duglega sjómenn að
bakhjarlar þar eru tæknimenn
sem sjá til þess að tæki og bún-
aður séu í lagi. Það myndi lítið
fiskast ef ekki væru græjurnar.
Sónar vann einkum við að þjón-
usta flotann. Til eru margar
sögur um útsjónarsemi og þol-
gæði Jóa við þau störf. Oft var
unnið undir mikilli tímapressu.
Áhöfn og grenjandi skipstjórn-
armenn áttu allt sitt undir því
að nauðsynleg tæki kæmust í
lag. Það kom fyrir að Jói var
tekinn með í túrinn til að ljúka
viðgerð. Það þarf stáltaugar til
að vinna við slíkar aðstæður
með fáa varahluti og frumstæð
mælitæki.
Við námsaðstoð bræðranna
rákust bæði Jóhannes og skóla-
menn á nær ókleifan vegg.
Skilningur á aðstoð við heyrn-
arlausa og aðra fatlaða nemend-
ur var í skötulíki á þessum ár-
um. En þarna sem annars
staðar var Jói betri en enginn.
Hann var fylginn sér og ákveð-
inn og nýtti þessa eiginleika í
samskiptum við stjórnendur
ráðuneyta. Fyrir kom að hann
fékk þau svör að viðkomandi
væri upptekinn. Ekkert mál, ég
bara bíð. Það er óvíst hvenær
hann losnar. Ekkert mál ég
bara bíð. Hann verður ekki
meira við í dag. Ekkert mál ég
bara bíð. Dropinn holar steininn
og Jóhannes fékk oftar en ekki
viðunandi úrlausn mála.
Þessi barátta nýttist ekki
bara sonum hans heldur fjölda
annarra heyrnarlausra og fatl-
aðra nemenda. Segja má að
hann hafi þarna fylgt í fótspor
fyrrverandi kennara síns og vin-
ar Jóns Sætrans. Jón hafði u.þ.b
áratug áður verið einn aðal-
hvatamanna við stofnun fram-
haldsdeildar Heyrnleysingja-
skólans. Það nám brúaði bilið
fyrir fjölmarga heyrnarlausa inn
í iðnnám og annað framhalds-
nám.
Þegar Jóhannes fór á eftir-
laun lét hann gamlan draum
rætast. Hann hafði tekið viðtöl
við marga frumherja í útvarps-
virkjun. Í samvinnu við góðan
félaga úr hópi íslenskukennara
skólans gaf hann út ýtarlega og
vandaða bók er fjallar um
stéttabaráttu og tæknileg við-
fangsefni þessara brautryðj-
enda. Stórt verkefni en allir sem
þekktu Jóa vissu að hann myndi
ljúka því með sóma eins og öðru
sem hann tók sér fyrir hendur.
Síðastliðið ár var Jóhannesi
erfitt og hann lést í árslok. Eng-
inn vinnur sitt dauðastríð, ekki
einu sinni baráttujaxl eins og
Jóhannes Helgason. Við þökkum
Jóa fyrir samstarfið og vinátt-
una. Farðu í friði kæri vinur.
Við sendum Fríðu konu hans og
fjölskyldunni allri okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Frímann I. Helgason.
MINNINGAR 19
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 11. JANÚAR 2021
Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar,
tengdafaðir, afi og langafi,
TÓMAS KRISTINN ÞÓRÐARSON,
Dalsmynni,
lést á krabbameinsdeild Landspítalans
29. desember.
Jarðarförin hefur farið fram í kyrrþey.
Ásta Margrét Sigurðardóttir
Petrea Tómasdóttir Þórður Tómasson
Sigurður Grétar Tómasson Ámundi Sjafnar Tómasson
Sesselja Salóme Tómasd. Tómas Kristinn Tómasson
Margrét Ósk Tómasdóttir
tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn
Ástkær sonur okkar, bróðir, frændi, mágur
og barnabarn,
ÞORLÁKUR INGI SIGMARSSON,
Hamrakór 12, Kópavogi,
lést 27. desember.
Sigmar Örn Sigþórsson
Sesselja Hreinsdóttir Eyjólfur Þór Jónasson
Ástrós Elma Sigmarsdóttir Arnar Pálsson
Þorbjörg Lilja Sigmarsdóttir Daníel Rafn Jónsson
Eysteinn Hrafn Arnarsson
Elskulegur faðir, tengdafaðir, bróðir, mágur
og frændi,
SIGURGEIR BJARNI GUÐMANNSSON,
fyrrverandi framkvæmdastjóri
Íþróttabandalags Reykjavíkur,
lést á Vífilsstöðum miðvikudaginn
30. desember. Jarðarförin fer fram í kyrrþey.
Blóm og kransar afþakkaðir, en þeim sem vildu minnast hans er
bent á Samtök sykursjúkra.
Rannveig Sigurgeirsdóttir Sverrir Jónsson
Elín Guðmannsdóttir
Bára Guðmannsdóttir
Alda Guðmannsdóttir
Anna S. Guðmundsdóttir
Guðmann Sigurgeir, Bára og Bára Vilborg
systkinabörn og aðrir aðstandendur