Morgunblaðið - 17.05.2021, Page 28

Morgunblaðið - 17.05.2021, Page 28
28 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 17. MAÍ 2021 Braggahverfin og fráveitan Við hernám Íslands vorið 1940 fjölgaði íbúum í höfuðborginni óvænt og skyndilega úr hófi fram. Herskála- hverfi risu út um öll holt og inni í bæn- um hvar sem autt rými fannst. Árið 1941 voru 17.800 breskir hermenn í Reykjavík og nágrenni. Megin- liðstyrkur breska hersins hélt á brott 1942 en þá var bandarískur her kom- inn í staðinn. Árið 1943 náðu hern- aðarumsvif Bandaríkjanna á landinu hámarki. Þá voru á landinu öllu um 50 þúsund bandarískir her- menn, þar af mikill fjöldi í Reykjavík og nágrenni. Fækka tók í herliðinu á síðari hluta árs 1943 en bæjarsjóður hóf þá að kaupa yfirgefna bragga og leigja fólki í húsnæðisneyð. Skólpleiðslur frá bröggunum voru ýmist engar eða mjög frumstæðar en bæjaryfirvöld vildu lítið gera í þeim málum því litið var á braggana sem bráðabirgða- húsnæði eins og áður sagði. Búseta Reykvíkinga í braggahverfum átti þó eftir að vera mikil næstu tvo áratugi og aðbúnaðurinn sem fólk þurfti að búa við í þeim oft gagnrýndur. Lýs- ingar á sóðaskapnum í braggahverf- unum, ekki síst vegna skólpfráveitu frá þeim, ófullnægjandi vatnsveitu og óþrifalegra útikamra, minna helst á lýsingar á Reykjavík fyrir daga vatns- veitu og holræsa. Skólp flóir yfir umhverfið Strax í mars 1944 var ástand í einu af braggahverfum bæjarins milli Sölv- hólsgötu og Skúlagötu gert að umtals- efni í Þjóðviljanum. Því hafði verið út- hlutað fólki af svokallaðri húsaleigu- nefnd bæjarins sem hafði með slík mál að gera. Blaðamaðurinn sem heim- sótti braggana skrifaði: „Íbúar skálanna þarna verða allir að taka neysluvatn á sama stað í skúr sem stendur yst í hverfinu. Í þessum sama skúr er niðurfall, en það er stífl- að og svo mun hafa verið lengi. En fátt er svo með öllu illt að ekki fylgi nokk- uð gott – gat er á veggnum og rennur skólpið þar út og síðan undan hall- anum meðfram skálunum. Fyrir utan fyrrnefndan skúr var sorpþró, en lítið sést fyrir henni nú því hún er full af skólpi sem flóir yfir umhverfið svo þarna hefur myndast skólptjörn sem hefur afrennsli meðfram skálunum.“ Blaðamaðurinn fann fleira at- hugavert en bætti svo við: „Íbúar sumra skálanna fá stundum meira vatn en þeir óska, enda þótt þeir séu allir um neysluvatn úr sama krana, en það vatn sem íbúarnir kæra sig ekki um kemur inn um – dyrnar! Sumir skálanna standa það lágt að ef vatn safnast fyrir utan í rigningum þá rennur það inn um dyrnar.“ Sveinn Þormóðsson blaðaljós- myndari bjó í bragga við Einarsstaði um 1950. Hann segir í endurminn- ingum sínum: „Einn morguninn er ég vaknaði eft- ir mikla rigningarnótt og skutlaði mér fram úr rúminu fann ég mér til skelf- ingar að ég var í vatni upp í miðja kálfa. Það lá við að flæddi upp í rúmin og skór og annað lauslegt flaut um braggann. Það tók marga daga að losna við vatnið og fá gólfið þurrt aft- ur.“ Frá bröggunum við Sölvhólsgötu streymdi skólpið niður í húsaport við Nýborg við Skúlagötu og sat þar kyrrt en þar voru Áfengisverslun rík- isins og Lyfjaverslun ríkisins til húsa. Þetta varð til þess að Kristinn Stef- ánsson læknir hjá lyfjaversluninni skrifaði einnig kvörtunarbréf til heil- brigðisfulltrúa bæjarins sem fram- sendi það síðan til húsaleigunefndar. Hún svaraði skriflega og kvaðst hafa farið fram á það við bæjarverkfræðing að ástandið, sem væri auðvitað alger- lega óþolandi, yrði bætt sem fyrst. Í bréfinu var reyndar reynt að varpa ábyrgðinni á sóðaskapnum á bragga- búa sjálfa. Í því sagði: „Þá vill nefndin vekja athygli yðar á því herra heilbrigðisfulltrúi að henni er ekki grunlaust um að sá vísir til frárennslis sem kann að vera þarna á staðnum (í sama litla skúrnum, sem vatnshanarnir eru í) mun sífellt vera stíflaður af mannavöldum, þ.e.a.s. ein- hverra af íbúum hverfisins sennilega, sem þangað munu bera allan þann úr- gang, sem fyrir fellur á heimilum þeirra, jafnt á nóttu sem degi. Væri mjög æskilegt ef hægt væri að koma í veg fyrir þann ósóma og áminna til dæmis íbúana í skála nr. 14 þarna í hverfinu um það, hvað gæti af slíkum örnagöngum hlotist, kynni þeim að fljúga í huga að gjöra eitthvað slíkt. – Það skal tekið fram að engar sannanir eru fyrir hendi um það, að nefndir íbúar eigi sök á stíflu frárennslisins, en allur er varinn góður.“ Í Harrowgate Camp við Sund- laugaveg bjuggu 15 íslenskar fjöl- skyldur sumarið 1944. Einn íbúinn sendi heilbrigðisfulltrúanum í Reykjavík harðort bréf þetta sumar og sagði að hann og aðrir íbúar hefðu kvartað hvað eftir annað, bæði munn- lega og skriflega, til yfirvalda yfir slæmu ástandi í bröggunum þar en hvorki hefði þeim kvörtunum verið svarað né neitt gert til úrbóta. Hann sagði að íbúarnir yrðu að hella öllu skólpi í tvær opnar þrær, 90x70 sentí- metra að stærð: „Má öllum ljóst vera hvernig loftið verður kringum þessar þrær og aðra þá staði sem sorp fellur á og hvílíkur háski slíkt er fyrir smábörn. Vatn, sal- ernahreinsun og sorpílát eru líka í mesta ólagi.“ Skólavörðuholtið Bæjaryfirvöldum var auðvitað ljóst hversu bágborið ástand vatns- veitu og fráveitu var í braggahverf- unum. Í apríl 1945 fól t.d. borgar- stjóri Ágústi Jósefssyni að koma með tillögur til úrbóta í hinu stóra bragga- hverfi á Skólavörðuholti. Um frárennslismálin sagði hann: „Skólp- leiðslur hafa frá upphafi verið mjög lítilfjörlegar, en dugðu þó hermönn- unum með góðri umgengni og dag- legu eftirliti og hreinsun á leðjuþróm jafnóðum og nokkur teppa kom í ljós. Alls munu vera þarna þrjár leðju- þrær og þrír ræsabrunnar, sem eru í sambandi við skólpleiðslur á aust- anverðu braggasvæðinu. Íbúar verða að bera allt skólp í þessar þrær og brunna. Með skólpinu fylgja oft ým- iss konar óhreinindi, tuskur og matarleifar o.fl., og teppist því frá- rennslið iðulega, og verður af þessu hinn mesti óþrifnaður, og smám sam- an myndast þarna mjög daunillar forarvilpur. Nú eru allar skólpleiðsl- urnar stíflaðar, og sumar e.t.v. brotnar.“ Og Ágúst heldur áfram: „Allar gömlu leiðslurnar þyrfti að taka upp, og gera góða leiðslubrunna á hentugum stöðum með steyptum þróm í kringum þá, sem skólpinu væri hellt í. Tveim af leiðslubrunn- unum hefur verið breytt þannig, en með því ekkert eftirlit er með þeim hafa þeir stíflast, og kringum þá safn- ast alls konar óþverri, því haldið hef- ur verið áfram að hella í brunnana, þótt sýnilegt ætti að vera, að leiðsl- urnar væru stíflaðar. Í braggahverf- inu fyrir sunnan Eiríksgötu er engin skólpleiðsla, en skólpinu hellt í vilpur, sem myndast hafa í suðurhluta hverf- isins. Þarna þyrfti að leggja eina skólpleiðslu úr miðju hverfinu austur í Mímisveg með tveimur leiðslu- brunnum, sem íbúarnir gætu hellt í skólpi sínu, og myndu þá hætta að hella í götuniðurföllin við Mímisveg, en það hefur átt sér stað að undan- förnu.“ Stærsti kampurinn Stærsta braggahverfið var Camp Knox við Kaplaskjólsveg í Vestur- bænum. Í það fluttu fyrstu íslensku fjölskyldurnar í ársbyrjun 1947 en fimm árum síðar var búið þar í 133 bröggum og íbúarnir orðnir yfir 600 talsins. Heilbrigðisfulltrúi bæjarins skrifaði harðort bréf um ástandið í Camp Knox til lögreglustjórans í Reykjavík vorið 1947. Það hljóðaði svo: „Undanfarið hafa borist margar kvartanir frá íbúum við Kapla- skjólsveg um óþrifnað í sambandi við umgengni og frárennsli frá Camp Knox. Heilbrigðislögreglan hefur at- hugað ástandið á staðnum og komist að raun um að kvartanirnar eru á rökum reistar … Skólpleiðsla sú er setuliðið lagði frá hverfinu á sínum tíma er nú ónýt eða að minnsta kosti svo léleg að hún flytur ekki skólpið. Eru því allir skurðir fullir af for og er það mjög bagalegt fyrir þá sem eiga lóðir þarna að, t.d. barnaheimilið [Grund]. Einn aðalskurðurinn liggur fram með veginum heim að barna- heimilinu, er þetta ástand því hættu- legt umferð barnanna. Dýpt forar- innar er yfir hálfan metra í skurðinum, svo er þetta hinn mesti viðbjóður og sóðaskapur sem heil- brigðislögreglunni er nú kunnugt um hér í bæ. Það skal tekið fram að heilbrigðislögreglan hefur þráfald- lega farið fram á lagfæringar á þessu ástandi við verkstjóra bæjarins sem þessi mál heyra undir, svo og skrif- stofu bæjarverkfræðings, en þessir aðilar hafa ekki treyst sér að bæta úr ástandinu. Þar sem ekki má dragast að úr þessu sé bætt, tilkynnist yður hér með herra lögreglustjóri.“ Barnavinafélagið Sumargjöf sem rak barnaheimilið Grund sendi bæj- arverkfræðingi einnig harðort bréf yfir ástandinu sem varð til þess að seinna þetta sama sumar var ráðist í að leggja nýtt skólpræsi frá Camp Knox. Hinn mesti viðbjóður og sóðaskapur Bókarkafli | Í bókinni Cloacina – Saga frá- veitu rekur sagnfræð- ingurinn Guðjón Frið- riksson sögu fráveitu Veitna í Reykjavík og aðkomu fyrirtækisins að sams konar rekstri á Akranesi og í Borgarbyggð. Ljósmynd/Myndasafn Jóns Bjarnasonar Braggalíf Börnin í Camp Knox, fjölmennasta braggahverfinu. Allt skólp fór í opna skurði sem voru fullir af for. Úr því var þó bætt sumarið 1947. Nú finnur þú það sem þú leitar að á FINNA.is

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.