Morgunblaðið - Sunnudagur - 16.05.2021, Blaðsíða 4
FRÉTTIR VIKUNNAR
4 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 16.5. 2021
Skoðið fleiri innréttingar á
innlifun.is
Suðurlandsbraut 26 Sími 587 2700
Opið 11-18 virka daga, 11-16 laugardaga innlifun.is ALVÖRU ELDHÚS
Vikan hófst með uppnámi þegar í
ljós kom að maís væri plast sam-
kvæmt skilgreiningu Umhverfis-
stofnunar og Evrópusambandsins
og svonefndir maíspokar því kol-
ólöglegir á afgreiðslusvæðum versl-
ana. Netverslanir mega víst heldur
ekki nota þá, því samkvæmt hinum
alvísu möppudýrum eru heimili fólks
víst afgreiðslusvæði þegar inn-
kaupapokar berast í forstofuna.
Næst: Poppkorn er frauðplast.
Gróðureldar héldu áfram að gera
vart við sig í grennd við höfuðborg-
ina vegna langvarandi þurrka, en
slökkvilið voru á varðbergi og komu
í veg fyrir að suðvesturhornið yrði
skógareldum að bráð. Skortur á
skógum hjálpaði mikið.
Bókunum í ferðaþjónustu fjölgaði
áfram og sagði Bogi Nils Bogason
hjá Icelandair að Bandaríkjamark-
aður hefði tekið hressilega við sér og
merki víðar um að bólusettir ferða-
menn væru komnir á stjá, fullir
ferðahugar eftir árs útgöngubann
víða í borgum útlandsins.
Í Færeyjum fögnuðu menn líka
ferðamönnum eftir langa ein-
angrun, en þar voru vitaskuld Ís-
lendingar á ferð, 50 eldri borgarar.
Skagfirska efnahagssvæðinu var
hins vegar lokað um hríð vegna sex
smita, sem þar komu upp um liðna
helgi. Þar á meðal var sjúkrahús-
starfsmaður og 20 starfsmenn
grunnskólans settir í sóttkví. Skírn í
Sauðárkrókskirkju um helgina vakti
athygli, en faðir barnsins mátti
fylgjast með henni í síma úr sóttkví.
Aftur á móti var ögn slakað á klónni
í sóttvörnum þegar veitingahús
máttu hafa opið til klukkan tíu á
kvöldin og þurfa vertarnir ekki að
henda kúnnunum út í vornóttina
fyrr en klukkan ellefu. Veitinga-
menn segja mikið muna um þennan
klukkutíma.
. . .
Katrín Jakobsdóttir forsætis-
ráðherrra fékk fyrri bólusetningu á
þriðjudag og notaði tækifærið til að
hvetja landsmenn alla til þess að
taka bólusetningu. Markmiðið væri
að bólusetja alla sem allra fyrst, svo
þjóðfélagið gæti losnað úr viðjum
faraldursins og tekið við sér á ný.
Þurrkatíðin á suðvesturhorninu hélt
áfram, en Trausta Jónssyni veður-
fræðingi telst svo til að í ár væri sól-
ríkasta maíbyrjun frá upphafi mæl-
inga. Hann segir þurrkakafla sem
þennan þó ekkert einsdæmi.
Þrátt fyrir að atvinnulausum hafi
fækkað hægt og sígandi á síðustu
mánuðum og útlit fyrir aukið vinnu-
framboð fyrir aðgerðir stjórnvalda
er atvinnuleysi enn mikið og út-
breitt. Um 14.000 manns hafa verið
atvinnulausir í hálft ár eða lengur.
Ástandið er verst á Suðurnesjum.
Beint flug er við það að hefjast milli
Íslands og Ísraels á vegum ísraelska
flugfélagsins El Al. Ísraelar eru sú
þjóð sem fyrst náði að bólusetja
þorra þjóðarinnar.
Reykjavíkurborg þrengir mjög að
Tilraunastöðinni á Keldum, en
vegna fyrirhugaðrar sölu á landi í
grennd hennar setja skipulags-
yfirvöld þá kvöð á stöðina að ný
mannvirki þurfi að fjarlægja þegar
borgin krefst þess. Sigurður Ingv-
arsson segir stöðina í gíslingu borg-
arinnar fyrir vikið.
Sumarið er komið í sinni lögregl-
unnar, sem í sólskinsskapi er tekin
til við að sekta eigendur bíla sem
enn eru á nagladekkjum.
Netverslunin með áfengi fór af stað
og fékk gríðargóðar viðtökur, en þar
voru vín og bjór seld til neytenda án
milligöngu og smásöluálagningar
ÁTVR. Lysthafendur kaupa vínið af
franskri vínbúð í íslenskri eigu, en
það er afhent af lager hér á landi.
. . .
Í nýrri skýrslu um sjávarútvegs-
stefnuna kemur fram að í 28 af 29
ríkjum OECD þurfi að styrkja sjáv-
arútveg með opinberum framlögum.
Aðeins á Íslandi greiði greinin
meira í sameiginlega sjóði en hún
þiggi. Kvótakerfið hafi orðið grein-
inni hvati og gefið henni forskot.
Hafi einhver haldið að ÁTVR myndi
kæra nýja netverslun með vín, þá
gerðist það ekki. Þvert á móti, því
hún kvartaði til Neytendastofu und-
an notkun ÁTVR á heitinu Vínbúð-
in, sem ekki samræmdist lögum og
væri villandi í viðskiptaboðum.
Eftir ógnarlangan umhugsunartíma
ákváðu sjálfstæðismenn í Krag-
anum að halda prófkjör og sögðu
annað aldrei hafa komið til greina.
Því ótengt óskuðu skipuleggjendur
tónlistarhátíðarinnar Secret Sol-
stice eftir því að fá að halda hátíðina
á eða nálægt Vífilsstaðatúni í
Garðabæ. Ástæðan er sögð sú að
leiðin til Garðabæjar sé styttri en
boðleiðirnar í Reykjavík, sem hafi
gert skipulagninguna óbærilega
flókna.
Fjárhagsstaða sveitarfélaga hefur
versnað til muna, samkvæmt nýrri
úttekt Sambands íslenskra sveitar-
félaga. Af þeim tíu stærstu voru sex
rekin með halla á liðnu ári og gekk
þó betur en óttast hafði verið.
Íslendingar eru Evrópuþjóða fyllstir
grunsemda í garð appa og persónu-
upplýsingafíknar framleiðenda
þeirra. Aðeins 8% hafa aldrei synjað
appi um persónuupplýsingar sínar.
Þrátt fyrir að offituaðgerðir hafi
gefið ákaflega góða raun við að
lengja líf og auka lífsgæði fólks eru
þær furðufátíðar í heilbrigðiskerfinu
hér á landi. Æ fleiri leita því á náðir
einkarekinna heilbrigðisstofnana um
þær. Um þriðjungur Íslendinga er of
feitur og þeim fer ört fjölgandi.
Saksóknari staðfesti að fjórir yrðu
ákærðir fyrir morðið í Rauðagerði
um miðjan febrúar.
. . .
Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna
og Rússlands, þeir Antony J. Blink-
en og Sergei Lavrov, munu sækja
ráðherrafund Norðurskautsráðsins
um næstu helgi, en þá tekur Rúss-
land við formennsku af Íslandi.
Landhelgisgæslan hefur nú þrjár
þyrlur til taks en flugskýlið á
Reykjavíkurflugvelli rúmar þær ekki
allar. Reykjavíkurborg hefur ekki
svarað erindi gæslunnar frá 2018 um
staðsetningu þyrlusveitarinnar.
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF)
kynntu vegvísi til ársins 2025 um
bætt starfsumhverfi greinarinnar,
svo hún næði að eiga þann þátt í
efnahagslegri viðspyrnu eftir kór-
ónukreppuna sem ráðgert er. Jafn-
framt var sett upp mælaborð á
vefnum, sem sýnir töluleg markmið í
þeim efnum og hvernig miðar.
Menningarmálaráðuneytið samdi
við Akureyrarbæ um 230 milljón
króna árlegan stuðning við menn-
ingarstarf nyrðra. Ásthildur
Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar
segir markmiðið að byggja up at-
vinnustarfsemi í listum á Akureyri.
Tæplega 350 manns fóru í sóttkví í
Skagafirði en vonast er til að aflétta
megi sérstökum sóttvarnaaðgerðum
eftir helgi.
Bæjarstjórar Kópavogs og Reykja-
víkur hittust á miðri brú á hlutlausa
beltinu í Fossvogi og undirrituðu
samkomulag um að grafa þar sam-
eiginlega sundlaug til þess að inn-
sigla friðarferlið.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þing-
maður vinstrigrænna, dró framboð
sitt í forvali flokksins í Reykjavík til
baka og sagði ástæðuna þá að hann
hefði lofað konum meira en hann
hefði svo staðið við. Bjarkey Olsen
Gunnarsdóttir, þingflokksformaður
hans, sagði þetta rétta ákvörðun hjá
Kolbeini, sem best sæist á því að hún
hefði komið sér á óvart.
. . .
Á þriðja hundrað Íslendingar flugu
suður á bóginn til Alicante, en auk-
innar ferðaþrár gætir eftir því sem
bólusetningu vindur fram og áfanga-
staðir opnast.
Kynnt var að Hjallastefnan yrði að
flytja tvo skóla úr Öskjuhlíð eftir
næsta skólaár, þar sem viðræður við
Reykjavíkurborg um húsnæði undir
þá hefðu ekki borið árangur.
Stóreflis plastkassaverksmiðja á að
rísa á Djúpavogi öðru hvorum megin
áramóta. Þar á að framleiða frauð-
plastskassa fyrir laxeldi eystra, þó
ekki úr maísstönglum.
Tíu ár voru liðin frá því Harpa, tón-
listarhöll alþýðunnar, var opnuð á
minningarreitnum um bankahrunið.
Af því tilefni gáfu bæði ríki og borg
henni veglegar gjafir, eins og raunar
öll önnur ár.
Misjafnlega er haldið upp á upps-
tigningardag í heiminum, en við
Perluna var það fremur gert með því
að renna sér niður en að stíga upp.
Þar var uppblásinn stærsti hoppu-
kastali í heimi, en vegna sóttvarna-
takmarkana komust þó færri að en
vildu. Rétt eins og í Himnaríki.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var bólusett við kórónuveirunni í vikunni, en mikill árangur hefur náðst í þeim
efnum upp á síðkastið. Er svo komið að viðkvæmustu hóparnir og heilbrigðiskerfið verða komin í var fyrir mánaðarlok.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
9.5.-14.5.
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Bólusetning &
uppstigning