Morgunblaðið - 02.06.2021, Page 28
Göldrótt valkyrja, fjendur sem sökkva, ástfangin Ása
og sorgbitin Guðný eru meðal þeirra sem koma við
sögu á tónleikum Umbru í Norðurljósasal Hörpu annað
kvöld, fimmtudagskvöld, kl. 20. Frumflutt verða tvö
verk eftir meðlimi Umbru í bland við íslensk þjóðlög og
sagnadansa í útsetningum hópsins. Þetta eru fyrstu
tónleikar Umbru síðan heimsfaraldurinn braust út, en
meðlimir sveitarinnar hafa nýtt síðustu mánuði til að
rannsaka þjóðlagaarfinn og íslenska sagnadansa
ásamt því að vinna nýtt efni upp úr textaarfi eddu-
kvæða og Galdrabókar. Tónleikarnir eru einnig hluti af
undirbúningi næstu plötu Umbru. Miðasala er á tix.is.
Umbra í Norðurljósum Hörpu
„Tilfinningin er mjög góð. Ég hef unnið að þessu mjög
lengi og það var geðveikt að vera með Birki og Aroni á
miðjunni. Ég hef litið upp til þeirra frá því ég man eftir
mér,“ segir Skagamaðurinn Ísak Bergmann Jóhann-
esson meðal annars við Morgunblaðið í dag. Ísak er 18
ára gamall og var í fyrsta skipti í byrjunarliði íslenska
A-landsliðsins í knattspyrnu í leiknum gegn Mexíkó að-
faranótt sunnudags. Landsliðið æfði í gær á Laugar-
dalsvelli en framundan er annar vináttulandsleikur og
verður hann í Færeyjum. »22
Ísak lék með mönnum gegn Mexíkó
sem hann hefur lengi litið upp til
Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Hárskerinn Halldór Helgason, eða
Dóri eins og hann er gjarnan kall-
aður, hóf störf á Rakarastofunni
Hótel Sögu 2. júní 1971 og í dag, 50
árum síðar, lokar hann rakarakafla
sínum með því að klippa manninn,
sem hann klippti fyrst á náms-
árunum. „Þegar ég fór að læra rak-
arann 1967 hlógu strákarnir á Holt-
inu og lýstu því yfir hver af öðrum
að þeir myndu aldrei láta Dóra
klippa sig,“ rifjar Dóri upp. „Allir
nema Siggi Villa. „Ég ætla að láta
Dóra klippa mig,“ sagði hann. Hann
var sá fyrsti og verður sá síðasti.“
Dóri lærði réttu handtökin á Rak-
arastofunni Kirkjutorgi. „Ég vissi
ekki hvað ég ætlaði að gera eftir
gagnfræðaskólaprófið, byrjaði að
vinna í Kron á Dunhaga en eftir að
hafa unnið þar í um viku benti systir
mín mér á að verið væri að auglýsa
eftir nema á Rakarastofunni Kirkju-
torgi. Ég fór niður eftir og byrjaði
að læra og um áramótin fór ég í Iðn-
skólann.“ Þar hitti hann Gunnar
Guðjónsson, sem var nemi á Hótel
Sögu, og þeir útskrifuðust vorið
1971. „Hann var í Roof Tops, einni
vinsælustu hljjómsveit landsins, og
ég ætlaði að leysa hann af á rakara-
stofunni hérna í þrjá mánuði yfir
sumarið, en er hér enn, keypti helm-
ingshlut í stofunni um áramótin
1971 til 1972 og stofuna alla ári síð-
ar.“
Fíngert handverk
Samskiptin við viðskiptavini hafa
gefið Dóra mikið og hann segir
marga hafa verið fasta kúnna hjá
sér alla starfsævina. „Ég hef líka
klippt fimm ættliði í einni fjölskyldu
og búið er að lofa mér þeim sjötta.“
Halldór Pálsson búnaðarmála-
stjóri var fastur kúnni, þegar Dóri
hóf störf á Hótel Sögu. „Hann er
einn sá eftirminnilegasti, var afar
skemmtilegur og kjaftfor.“ Í gamla
daga hafi bændur, útgerðarmenn,
kaupfélagsstjórar og sveitarstjórar
verið fastagestir á hótelinu og þeir
hafi gjarnan látið klippa sig í leið-
inni. „Við Hörður Sigurjónsson, sem
var lengi þjónn og veitingastjóri
hérna, grínuðumst með það fyrir
nokkrum árum að við hefðum átt að
skrifa bókina Sögur af Sögu, því hún
hefði selst í bílförmum.“
Hótel Saga var einn helsti stað-
urinn á höfuðborgarsvæðinu í ára-
tugi en kórónuveirufaraldurinn nær
slökkti á byggingunni. „Segja má að
þrjár manneskjur haldi aðalinn-
ganginum opnum bara fyrir okkur í
kjallaranum,“ segir Dóri. Hann seg-
ist samt alltaf hafa verið gott að
vera innilokaður niðri. „Hérna erum
við í samskiptum og samræðum við
fólk og ég hef oft sagt að ég sól-
skemmist ekki á meðan.“
Dóri hefur lengi spilað á trommur
og verið í hljómsveitum, skemmti
meðal annars á klúbbum bandaríska
hersins á Keflvíkurflugvelli. „Flestir
hárskerar sem ég þekki spila á
hljóðfæri,“ segir hann. „Ég held að
þeir sem eru fingraliprir vilji síður
fara undir hamarinn, velja sér fín-
gerðara handverk.“
Rögnvaldur Hreiðarsson tekur nú
við stofunni en Dóri ætlar að fara að
leika sér með Selmu Antonsdóttur,
eiginkonu sinni. „Ég ætla að klára
kroppinn við leikaraskap en ekki
vinnu.“ Barnabörnin fái meiri tíma,
við taki meira golf, jafnvel skotfimi
á ný auk viðhalds við sumarhús
hjónanna. „Við horfum björt fram á
veg.“
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kaflaskil Halldór Helgason eða Dóri rakari hefur verið rakari á Hótel Sögu í hálfa öld og lætur þar við sitja.
Hefur ekki sólskemmst
- Dóri rakari hættir á Hótel Sögu eftir 50 ára starfsferil
MIÐVIKUDAGUR 2. JÚNÍ 153. DAGUR ÁRSINS 2021
Sími: 569 1100
Ritstjórn: ritstjorn@mbl.is Auglýsingar: augl@mbl.is
Áskrift: askrift@mbl.is mbl.is: netfrett@mbl.is
Í lausasölu 739 kr.
Áskrift 7.982 kr. Helgaráskrift 4.982 kr.
PDF á mbl.is 7.077 kr. iPad-áskrift 7.077 kr.
ÍÞRÓTTIR MENNING