Morgunblaðið - 05.06.2021, Qupperneq 37

Morgunblaðið - 05.06.2021, Qupperneq 37
MINNINGAR 37 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 5. JÚNÍ 2021 Það er mjög óraunverulegt að setjast niður og skrifa niður minn- ingarorð um hana Sunnu mína. Ég hef ekki enn get- að samþykkt þann veruleika að ég geti ekki talað við hana aftur, og svo margt sem mig langar til að segja henni. Sunna var fyrir mér vinkonan sem hægt var að leita til með allt, hversu stórt eða smátt sem vandamálið var. Hún hlustaði og kom með góð ráð, setti hlutina í samhengi og sýndi tilfinningum manns skilning. Sunna var eldklár og vísindalega þenkjandi. Hún var langskólagengin með doktorspróf í lyfjafræði og starfaði við þróun og rannsóknir. Námið kláraði hún þegar hún barðist við krabbamein en það sýnir það mikla baráttu- þrek og æðruleysi sem hún bjó yf- ir. Hún sigraðist á krabbameininu og kláraði námið með glæsibrag. Sunna var glöð og skemmtileg, félagslynd og fannst gaman að hitta fólkið sitt. Það sést á þeim fjölda vina sem hún eignaðist og þeim nánu tengslum sem hún myndaði við þá. Það var gaman að njóta samveru Sunnu og hún var með mjög þægilega nærveru. Húmor og jafnaðargeð einkenndu hana og hún vildi öllum vel. Fjöl- skyldan var mikilvægur stólpi í lífi Sunnu og var hún einstaklega náin fjölskyldu sinni. Sunna hitti ástina sína, hann Ívar, og eignaðist síðar Kötlu sína. Hún var ljúf móðir og sinnti því hlutverki af kostgæfni. Sunna naut virkilega lífsins og vegna reynslu sinnar vissi hún að það væri ekki gefið að vera á lífi, hún var þakklát fyrir það sem hún átti og var góð fyrirmynd, hún var fyrirmyndin mín. Það hefur verið erfitt síðastliðinn mánuð að geta ekki leitað til hennar, að geta ekki spjallað við hana. Ótal minningar um Sunnu leita á hugann; skemmtanaglaðar ungar stelpur sem bjuggu í sömu blokk á stúd- entagarði, kvöldmatur og kokteill á fínni veitingastað þegar náms- árin voru liðin hjá og bíó á kvöldin eftir að búið var að svæfa börnin. Það sem ég sakna þó mest frá Sunnu er að geta spjallað við hana um daginn og veginn, og deila með hvor annarri hinu og þessu, sumu alveg nauðaómerkilegu eins og frétt um fræga fólkið eða skemmtilegum þætti til að glápa á en þetta hversdagslega er svo mikilvægt og söknuðurinn er mik- ill þar. Vonandi eru allir svo heppnir að fá að eiga eins góða vinkonu og Sunna var. Ég er þakklát fyrir tímann sem ég fékk með henni en mikið vildi ég óska þess að hann hefði mátt vera lengri. Elsku Ívar, Katla, Júlíana, Jó- hann, Sigrún og Freyr, mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar. Megi minning Sunnu vera ljós í lífi okkar allra. Kristjana Erna Pálsdóttir. Elsku besta Sunna. Ég man þig enn og mun þér aldrei gleyma. Minning þín opnar gamla töfraheima. Blessað sé nafn þitt bæði á himni og jörðu. Mér finnst þetta erindi úr ljóði Davíðs Stefánssonar frá Fagra- skógi eiga vel við á þessari stundu. Ég á aldrei eftir að gleyma þér, brosinu þínu og öllum þeim góðu stundum sem við eyddum saman í gegnum árin. Það voru forréttindi að eiga þig sem vin og ég á eftir að Sunna Jóhannsdóttir ✝ Sunna Jó- hannsdóttir fæddist 6. júlí 1985. Hún lést 25. maí 2021. Útför Sunnu fór fram 3. júní 2021. sakna þín meira en orð fá lýst. Þú varst ein af mínum uppáhalds- manneskjum og allra bestu vinum. Þinn vinur að ei- lífu, Daníel Örn Árnason. Þegar ég kynntist Sunnu á menntaskólaárunum komst ég að því að það var aldrei skemmtilegra eða hlegið jafnmik- ið og þegar hún var á svæðinu. Hugur hennar var svo frábær og það var svo margt óvænt sem henni datt í hug að segja, hvort sem það var staðhæfingin að norð- ur væri alltaf til hægri eða ákveða að best væri að fallbeygja skemmtistaðinn „Ari í Ögri“ sem „Ara í Ögra“. Bestu tímar okkar saman voru í Danmörku þar sem við vorum hvort í sínum lýðháskólanum en fórum í heimsóknir hvort til ann- ars og svo saman til Danna og Jóns Otta í þeirra skóla. Sunna var frábær í hópi en á þessum tíma tengdumst við betur og að vera einn-á-einn með henni var jafnvel betra. Það var hægt að tala um hvað sem var við Sunnu, hún var frábær vinur með góð ráð og ég vonandi fyrir hana. Henni var gefið langt og erfitt verkefni og hún barðist eins og hetja fyrir meiri tíma. Ég er svo þakklátur fyrir að hún gerði það og við fengum meiri tíma með henni, hún fékk meiri tíma með Ív- ari og að eignast fallegu dóttur þeirra. Ég náði að hitta vinkonu mína þegar ég var síðast á landinu og allt virtist við ljúfa löð og hlut- irnir í fullkomnu jafnvægi. Mig ór- aði ekki fyrir því hversu dýrmæt- ur sá hittingur yrði mér. Sunna lifir áfram í hjörtum okkar sem þekktum hana. Inni- legustu samúðarkveðjur til fjöl- skyldu Sunnu og allra vina henn- ar. Suns, þú ert best. Smári Gunnarsson. Ein mín besta vinkona er farin frá okkur, tekin burtu allt of snemma. Elsku Sunna, elsku fallega vin- kona mín. Það er hræðilegur raunveruleiki að skrifa þessi orð. Á þessari stundu horfi ég til baka og fer yfir allar fallegu minn- ingarnar og góðu stundirnar sem þú gafst mér og okkur öllum í kringum þig. Sunna var samferða mér alla mína grunnskólagöngu en í 7. bekk vissi ég ekki að ég væri að taka eitt af mínum stærstu gæfu- sporum í lífinu þegar ég skipti al- farið um vinahóp. Það voru mikil forréttindi fólgin í því að kynnast Sunnu og fá að vera samferða henni í gegnum allar okkar sorgir og sigra. Hún var alltaf svo ljúf og góð og bræddi alla með sakleysislegu yf- irborðinu. Djúp og varanleg vinátta er dýrmætari en veraldlegar viðurkenningar, og allt heimsins gull og silfur. Henni þarf ekki endilega alltaf að fylgja svo mörg orð heldur gagnkvæmt traust og raunveruleg umhyggja. Kærleikur, sem ekki yfirgefur. (Sigurbjörn Þorkelsson) En nú þegar komið er að leið- arlokum okkar, þá þakka ég sam- fylgdina og minning yndislegrar vinkonu mun lifa í huga mínum. Það er komið að kveðjustund í bili, mín trú er sú að við munum hittast aftur. Elsku Ívar, Katla Rannveig, Júlla, Jóhann, Sigrún og Freyr. Ég sendi ykkur hlýja strauma og samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum. Þín vinkona, Kristín Hjálmarsdóttir. Sunna dó í sólinni. Það er svo skrýtið og illskiljan- legt að reyna ná utan um það þeg- ar ung og dásamleg kona fellur frá. Hvernig er hægt að ná utan um slíkt áfall? Spurningarnar sem hellast yfir eru samhengislausar, eins og þessi óraunverulegi veru- leiki. Er þetta ekki bara martröð? Förum við ekki öll alveg að vakna bara og þá verður allt aftur gott? Því miður er svo ekki. Eftir standa mölbrotnir ástvinir og spyrja: af hverju? Af hverju átti líf Sunnu að vera svona ógurlega stutt? Ástvinirnir hafa ekkert annað val en að halda lífinu áfram án hennar, full af söknuði og þrá fyrir lífinu sem átti að vera með henni. Tárin streyma niður við að skoða myndirnar hennar, sem hún setti á snjáldurskinnuna sína. Hamingjusama og glæsilega Sunna með gullunum sínum, Kötlu dóttir sinni og honum Ívari sínum. Fyrir tveimur mánuðum gengu hún og Ívar að eldgosinu og voru mynduð saman. Nú er hún dáin. Fréttirnar komu eins og þruma úr heiðskíru lofti. Samt datt okkur ekki annað í hug en að Sunna myndi sigrast á því, enda hafði hún gert það fyrir 10 árum, svo af hverju ekki aftur? Svona getum við verið einföld. Sunna og Ívar náðu að gifta sig á ögurstundu. Höfðu eignast sam- an Kötlu Rannveigu sína og fram undan var öll ævin þeirra saman. Að vera foreldrar og eldast sam- an. Nú stendur Ívar frammi fyrir þeim kalda veruleika að ala Kötlu upp án Sunnu sinnar. Missir þeirra feðginanna er afar sár og við hin fylgjumst bara með orð- laus yfir þessum aðstæðum. Jói og Júlla þurfa nú að jarða yngstu dóttur sína og það er akk- úrat ekkert sanngjarnt við það. Ég minnist þess þegar Júlla sagði mér að hún vissi að Sunna yrði fyrst til að gera hana að ömmu. Móðir þekkir börnin sín. Jói og Júlla, sem alltaf hafa ver- ið stolt af Sunnu sinni, sem ein- göngu 26 ára gömul sigraðist á hvítblæði, gerði sér svo lítið fyrir og skellti sér í doktorsnám og út- skrifaðist úr því í janúar 2018, geri aðrir betur takk fyrir. Þau elskuðu Sunnu sína afar heitt og hún þau. Foreldrar eiga ekki að jarða börnin sín, það er eitthvað mjög rangt við þá tíma- röð. Sunna var yngst af systkina- hópnum, litla systir Sigrúnar og Freys, öll afar náin og yndislegur systkinahópur. Þær systur eins konar tvíburasálir, saman í nýjum hlutverkum. Þær ætluðu að ala stelpurnar sínar upp saman, hlið við hlið. Systur og frænkur, sam- ferða í lífinu. Nú er það hlutverk ástvina Sunnu að sjá til þess að Katla alist upp með vitneskju um mömmu sína, fái að kynnast henni í gegn- um minningar og kærleika ástvina sinna. Ástvinir Sunnu munu svo finna og sjá hana í Kötlu litlu. Það verður ljúfsárt. Elsku Ívar, Katla Rannveig, Júlla og Jói, Sigrún og Freyr, og allir sem elskuðu Sunnu. Sorg ykkar er ólýsanleg og ekkert eðli- legt við þau spor ykkar að vera að kveðja elsku Sunnu. Tíminn læknar ekki þessa sorg, þið mun- uð bara læra að lifa með henni. Þið eigið þó hvert annað og þar er styrkurinn ykkar, í fjölskyld- unni og ástvinum ykkar. Sunna er og verður alla tíð í hjarta ykkar og minningum. Við fjölskyldan vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Rannveig Ernudóttir. Elsku Sunna hefur kvatt okkur. Það er ákaflega erfitt að meðtaka og trúlega eigum við eftir að læra það þegar frá líður. Sunna hefur verið samstarfs- kona okkar í tæp fjögur ár og fyrir það erum við þakklát. Hún vann fyrst fyrir Oculis sem mastersnemi og því verkefni sinnti hún af mikilli prýði. Síðar fór hún í doktorsnám og að því loknu lá beint við að hún kæmi til okkar. Sunna bjó klárlega yfir þeirri þekkingu sem okkur vantaði, við vissum að hún myndi styrkja okk- ar litla hóp bæði faglega og fé- lagslega. Sunna var hreinskiptin í samskiptum, sinnti verkefnum vel, mætti þeim af æðruleysi og náði að setja sig hratt og vel inn í verk- efnin. Sunna var metnaðarfull, fann einfaldar lausnir og hugsaði hlutina til enda. Sunna sinnti kennslu með námi sínu, hún átti auðvelt með að miðla og við nutum góðs af því. Hún var ætíð tilbúin að aðstoða, hjálpa og miðla úr eigin viskubrunni. Reynslan kenndi Sunnu að njóta þess sem er og líta á björtu hliðarnar. Fjölskyldan var henni mjög dýrmæt og naut hún þess að eiga gæðastundir með henni. Við sem vorum svo lánsöm að vinna með Sunnu fengum að fylgj- ast með Kötlu og viðfangsefnum þeirra mæðgna í gegnum Sunnu. Okkur finnst við þekkja Kötlu þó svo að sum okkar hafi ekki hitt hana. Sunna naut þess virkilega að vera mamma og hún var svo þakk- lát fyrir það bakland sem þau eiga. Að eiga tvö sett af ömmu og afa er dásamlegt og Sunna var meðvituð um það. Þegar Katla var með leik- skólapest virtist ávallt vera amma eða afi til staðar. Sunna var einnig þakklát fyrir Ívar sinn, við fengum óspart að heyra af matreiðsluhæfi- leikum hans. Sunna kæmi aðallega inn í eldhúsið til að borða góðan mat, það færi betur á að Ívar eldaði. Það má segja að Sunna hafi kennt okkur að njóta þess sem er og vera þakklát. Við munum halda áfram að njóta þess sem hún hefur kennt okkur og leiðbeint okkur með. Elsku Ívar, Katla, foreldrar, systkini og fjölskylda Sunnu, við vottum ykkur samúð okkar. Guð veri með ykkur og styrki. Er sárasta sorg okkur mætir, og söknuður huga vorn grætir. Þá líður sem leiftur af skýjum, ljósgeisli af minningum hlýjum. (HJH) Fyrir hönd samstarfsfólks í Oculis, Guðrún Marta Ásgrímsdóttir. Elsku ljúfa, fallega Sunna. Þeg- ar ég var látin vita af andláti þínu þá brast eitthvað innra með mér. Hrikalega getur þetta líf verið óskiljanlegt og óréttlátt. Seinast þegar ég var á Íslandi þá varst þú svo glöð, þú varst svo ánægð með að vera komin yfir fimm ára mörk- in. Mörkin sem áttu að vernda þig fyrir þessum hryllilega sjúkdómi. Það hvarflaði ekki að mér að þetta væri ekki búið. Ósanngjarnt, órétt- látt og óskiljanlegt, orðin sem end- urtaka sig í hausnum á mér. Ég á svo margar og skemmti- legar minningar með þér. Þegar ég loka augunum og hugsa til þín sé ég fallegt, breitt og vinalegt bros. Þú varst alltaf svo hlý, glaðlynd, róleg og trygg. Þú varst fluggáfuð, ákveðin, vissir hvað þú vildir, hörkudugleg og með óútskýran- lega ofurkrafta. Þú reyndir aldrei að vera neitt annað en þú sjálf og ég leit upp til þín á svo margan hátt. Þú skilur eftir þig stórt skarð í svo mörgum hjörtum og Folda- skvísuhópurinn verður aldrei sá sami án þín. Þú hefur kennt mér mikilvægi fjölskyldunnar, vina og að sjá gleðina í hverdagslegum hlutum. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þér. Innilegar samúðarkveðjur til Ívars, Kötlu litlu og fjölskyldu, hugur minn er hjá ykkur. Elsku Sunna, ég kveð þig ekki, ég segi sjáumst seinna. Þín vinkona, Líf. ✝ Sigrún Mar- grét Júl- íusdóttir, Há- konarstöðum, fæddist 25. febrúar 1932 á Akureyri. Hún lést 9. maí 2021. Foreldrar hennar voru Júlíus Davíðsson og Mar- grét Sigurrós Sig- fúsdóttir, Ak- ureyri. Hún átti einn hálfbróður, Kristján Frí- mannsson, d. 2010. Maður hennar var Þórður Sigvaldason, Há- konarstöðum, f. 19. maí 1929. Börn þeirra: Anna Sig- urjóna, d. 1959, Sigvaldi Júlíus, Gréta Dröfn, Há- kon Jökull, Reynir, d. 2002, og Trausti. Barna- börnin eru 10 og barnabarnabörnin 16. Jarðarför Sigrúnar Mar- grétar fór fram 22. maí í kyrr- þey að hennar ósk. Hinsta stund er runnin upp, Sigrún systir mín hefur kvatt þetta líf. Á æskuheimili mínu á Akureyri kölluðum við hana allt- af Diddu sem hefur verið barns- lega útgáfan af „systu“ en aðrir þekktu hana sem Sillu. Hún kom til föður síns Júlíusar Davíðsso- nar og Önnu Helgadóttur eig- inkonu hans um 12 ára aldur. Tveimur árum síðar fæddist ég á heimili þeirra og ólst þar upp alla tíð. Við tengdust sterkum böndum þótt aldursmunurinn væri mikill. Á milli okkar ríkti órjúfanleg tryggð. Hún hafði alla tíð sterkar taugar til æskustöðv- anna á Akureyri og minntist oft á æskuvinkonurnar, Deddu, Möggu og Daisy. Hún hafði un- un af tónlist og fallega söngrödd. Fyrstu minningar mínar um hana eru hún að syngja og spila á gítar – og vinkonurnar að syngja með. Að loknum skóla fór hún í kaupavinnu á Möðrudal og átti þar yndislegan tíma. Vinátt- an við heimilisfólkið þar hélst alla tíð. Eftir að hún giftist Þórði sínum flutti hún á Hákonarstaði á Jökuldal og varð húsfreyja í sveit. Þeim varð sex barna auðið og barnabörnin eru orðin á ann- an tug. Það var ekki auðvelt að setjast að á Efra-Jökuldal á 6. áratugnum, samgöngur lélegar og veður válynd. Öll aðföng voru svo erfið að á haustin þurfti að skipuleggja innkaup fyrir allan veturinn. Þá kom sér vel hve hún var útsjónarsöm og smekkleg, nýtin og úrræðagóð. Sjálfbærni var lykilatriði og matvæli unnin á staðnum, veiði nýtt úr heiðinni, bakstur og matargerð mikið verk á stóru heimili. Hún hafði yndi af öllu handverki, málaði, prjónaði og saumaði fallega muni bæði á sitt fólk og seldi stundum á handverksmörkuðum. Hún systir mín sýndi líka ein- dæma bjartsýni og þrautseigju þegar hún kom upp gróðurvin við bæinn, ræktaði þar tré og ótrúlegustu plöntur, meðal ann- ars í heimagerðu gróðurhúsi þeirra. Innandyra var líka safn fagurra blóma. Það höfðu ekki margir trú á að hægt væri að búa til einstakan unaðsreit svo nærri Öræfunum. Systir mín var með létta lund og notaleg svo fólk laðaðist að henni. Hún og Þórður voru höfð- ingjar heim að sækja. Margar ferðir fór ég til þeirra í æsku og síðar með mína eigin fjölskyldu. Þau hjónin áttu sjaldnar heim- angengt en gaman var að taka á móti þeim á Akureyri þar sem þau komu á Willys-jeppa, fullum af börnum. Í sveitinni varð hver dagur að ævintýri. Oft var farið inn á Öræfin að njóta náttúrunn- ar og kyrrðarinnar eða veiða sil- ung í vatninu uppi á heiði. Þau hjónin nutu sín í tónlist, þar sem Þórður var organisti og kórstjóri og þau forystufólk í slíku starfi. Eftir fráfall Þórðar stóð systir mín styrk og þrautseig sem áð- ur. Síðustu ár fór minnið og heilsan að gefa sig, en hún naut umönnunar á Dyngju þótt hug- urinn væri alltaf heima í sveit- inni. Systir mín gat litið stolt yfir farinn veg og verið hreykin af af- komendum sínum. Ég er þakklát fyrir samleið okkar í þessu lífi og áfram nýt ég tryggðar og vináttu afkomenda þeirra. Við vitum að nú syngja þau saman hjónin í sumarlandinu. Góða ferð mín elskulega og takk fyrir allt. Þín systir, Valdís. Sigrún Margrét Júlíusdóttir Ástkær móðir okkar, tengdamóðir og amma, GUÐRÚN MAGNÚSDÓTTIR, Hveragerði, lést á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði föstudaginn 21. maí. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Sérstakar þakkir til starfsfólksins í Ási fyrir einstaka umönnun og hlýtt viðmót. Magnús Haukur Hannesson Hrönn Þorsteins Þorvaldur Hannesson Ingveldur Sigurðardóttir Inga Lóa Hannesdóttir Svanur Kristinsson og barnabörn Ástvinir þakka auðsýnda samúð og vinarhug við andlát og útför elskulegs eiginmanns, föður, tengdaföður og afa, JÓNS TÓMASSONAR, Hafnarstræti 21, Akureyri, sem lést 14. apríl. Þórey Bergsdóttir Tómas Jónsson Helga Margrét Sigurðardóttir Ragnhildur Jónsdóttir Bergur Jónsson Guðrún Hallfríður Björnsdóttir Kristín B. Jónsdóttir Tryggvi Haraldsson

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.