Morgunblaðið - 31.07.2021, Qupperneq 34
34 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 31. JÚLÍ 2021
VIÐTAL
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
„Fyrir Wagnersöngvara er hátíðin í
Bayreuth meistaradeildin. Það er
gríðarlega þýðingarmikið fyrir
hvaða söngvara sem er, sem syngur
í óperum Wagners, að fá þarna hlut-
verk,“ segir barítóninn Ólafur Kjart-
an Sigurðarson sem syngur hlutverk
Biterolfs í óperunni Tannhäuser
sem var frumsýnd síðastliðinn
þriðjudag á þessari merku Wagner-
hátíð, Bayreuther Festspiele í
Þýskalandi.
Hátíðina, sem fyrst var haldin árið
1876, má rekja til Richards Wagners
sjálfs sem fékk þá flugu í höfuðið að
stofna hátíð þar sem einungis verk
hans sjálfs yrðu flutt og var þeirri
hugmynd hrint í framkvæmd. Hann
hafði sjálfur umsjón með hönnun og
byggingu óperuhússins, þar sem há-
tíðin fer fram enn þann dag í dag,
sem var byggt sérstaklega til þess
að hýsa þær gríðarstóru hljóm-
sveitir og uppsetningar sem óperur
Wagners krefjast. Bygging hússins
var formlega hafin á 59 ára afmæli
Wagners, 22. maí 1872, og fyrsta
uppfærsla hátíðarinnar var Nifl-
ungahringurinn sem sett var upp
13.-17. ágúst 1876.
Opnar dyr að tækifærum
Ólafur Kjartan er einungis annar
Íslendingurinn sem hefur fengið
tækifæri til að syngja á hátíðinni.
Tómas Tómasson barítón söng hlut-
verk Friedrichs von Telramund í
Lohengrin árið 2011. Þess má þó
geta að leikarinn Björn Thors kom
fram í óperunni Parsifal, í leikstjórn
Christophs Schlingensiefs, árið
2005. Þar komu ýmsir leikarar fram
auk óperusöngvaranna.
„Ég er búinn að stefna lengi, leynt
og ljóst, að því að komast hér á pall.
Svo þetta er auðvitað ákveðinn
áfangastaður, en á sama tíma er
þetta líka nýr og mjög spennandi
byrjunarreitur. Ef allt gengur að
óskum opnar þetta fyrir manni
dyrnar að gríðarlega mikilvægum
tækifærum, til dæmis í stórum óp-
eruhúsum víða um heim, að vinna
með ákveðnum hljómsveitum,
hljómsveitarstjórum og leikstjórum
og svo framvegis,“ segir söngvarinn.
Ólafur fer einnig með stórt hlut-
verk í nýrri uppsetningu hátíð-
arinnar á Niflungahring Wagners
sem frumsýnd verður að ári og hefur
hann gert samning við hátíðina til
nokkurra ára.
Burðarhlutverk í Hringnum
Niflungahringurinn (þ. Der Ring
des Nibelungen) er samsettur úr
fjórum óperum, Rínargullinu (Das
Rheingold), Valkyrjunni (Die Walk-
üre), Siegfried og Ragnarökum
(Götterdämmerung). „Margir
þekkja söguna úr seríu Tolkiens,
The Lord of the Rings, og kvik-
myndum Peters Jackson. Þetta er í
raun og veru sama sagan, ævintýrið
um hringinn sem er mótaður úr gulli
úr Rínarfljótinu. Sá sem hringinn
hefur fær ótakmörkuð völd en því
fylgir að viðkomandi þarf að afneita
sjálfri ástinni. Enginn sem býr yfir
Rínargullinu og þessum miklu völd-
um getur orðið hamingjusamur á
meðan.“
Ólafur mun fara með hlutverk Al-
berichs, sem er mikið burðar-
hlutverk í Niflungahringnum.
„Dvergurinn Alberich rænir gullinu
af Rínarmeyjum þremur sem gæta
þess og afneitar um leið ástinni. Í
þessum óperum tekur við endalaus
barátta um völd. Karakterinn Alber-
ich er gríðarlega heillandi og
skemmtilegur. Ég segi stundum að
þetta séu mörg hlutverk soðin sam-
an í eitt. Hann sýnir á sér margar
hliðar.“
Þessi nýja uppfærsla verður
frumsýnd næsta sumar og mun Ólaf-
ur syngja Alberich í þeim þremur
óperum sem hann kemur fram í.
„Þetta mun ég endurtaka sumarið
2023 og samhliða því mun ég halda
áfram að syngja hlutverk Biterolfs í
Tannhäuser sem ég var að frumsýna
í fyrradag. Ég er yfir mig hamingju-
samur með þessa samninga og hver
veit nema maður fái að halda áfram
eftir 2023 ef vel gengur.“
Niflungahringur Wagners er eng-
in smásmíði og það sama má segja
um flestar aðrar óperur hans. „Allur
Niflungahringurinn tekur fjögur
kvöld í flutningi og hann slagar í 16
klukkutíma af tónlist. Þeim sem
ánetjast tónlist Wagners finnst þó
ekki mikið mál að sitja fjögur kvöld
undir Niflungahringnum. Á Tann-
häuser, sýningu sem hefst venjulega
kl. 16 og lýkur kl. 21, eru tvö klukku-
stundar löng hlé á einni sýningu svo
mannskapurinn fær góðan tíma til
að teygja úr sér. Það er ótrúlega
skemmtileg stemning sem myndast í
kringum óperuna í Bayreuth og það
er mikill viðburður að koma hingað.“
Aldrei heyrt eins töfrandi rödd
Með Ólafi syngur sannkallað
stjörnulið. „Á hverjum degi fæ ég
sent æfingaplan fyrir næsta dag og
nafnalistinn er stundum eins og
maður hafi sjálfur verið að skrifa
lista yfir uppáhaldssöngvarana sína.
Þetta er alveg lygilegt. Ég gæti talið
upp ógnarlangan lista af fólki. Í
Tannhäuser syngur til dæmis hin
norska Lise Davidsen og ég er far-
inn að kalla hana Lísu í Undralandi.
Ég hef bara aldrei heyrt mannsrödd
með svona töfra eins og hún hefur.
Nú er að detta inn listi yfir þá sem
verða í Niflungahringnum og maður
fer næstum því hjá sér og heldur að
það sé prentvilla þegar maður sér
sitt eigið nafn þarna inni á milli.
Þetta er alveg magnað.“
Sú viðurkenning sem felst í því að
fá hlutverk á hátíðinni í Bayreuth er
strax farin að hafa áhrif á dagskrá
Ólafs. „Það er ekkert launungarmál
að þegar málsmetandi óperuhús eru
að setja upp Wagneróperur þá eru
allar líkur á því að viðkomandi hús
kanni hvaða söngvari söng síðast
ákveðna rullu á Bayreuth,“ segir
hann og bætir við að spyrja verði að
leikslokum en að hann vonist til þess
að þetta sé „byrjunin á restinni“ af
sínum ferli.
„Eftir að það var gert opinbert að
ég muni syngja mikilvægt hlutverk í
nýrri uppsetningu af Niflunga-
hringnum á næsta ári þá er það þeg-
ar farið að hafa mjög öflug og bein
áhrif á mína dagbók í framtíðinni.
Það eru þegar komnar bókanir sem
eru bein afleiðing af því að hafa
fengið þennan samning.“
Ólafur segir frá því að hann muni
syngja titilhlutverkið í Hollend-
ingnum fljúgandi í nóvember í óp-
eruhúsinu í Leipzig í Þýskalandi,
sem er annað mikilvægt Wagnerhús.
Það sé dæmi um það hvað breytist
þegar maður er kominn með stimpil
upp á að vera orðinn Bayreuth-
söngvari. Hann hafi ekki þurft að
gera sér ferð til Leipzig til að taka
þátt í svokölluðum fyrirsöng eða
prufu. Það hafi verið nægilegt að
umboðsskrifstofan semdi um þetta
fyrir hans hönd.
Valkyrjan í Íslensku óperunni
Ólafur mun taka þátt í uppsetn-
ingu Íslensku óperunnar á Valkyrj-
unni í Hörpu í febrúar næstkomandi
og segir hann það að ýmsu leyti vera
hápunkt næsta starfsárs. Uppsetn-
ingin verður hluti af Listahátíð og
þar mun hann fara með hlutverk
Wotans, eða Óðins, í fyrsta sinn.
„Þetta hlutverk er stór og mikill biti
og það er ómetanlegt að fá að syngja
á heimavelli og ég hreinlega get ekki
beðið. Maður kemur orðið allt of
sjaldan heim svo það er ómetanlegt
að fá að æfa og koma fram í Hörpu
og fá að syngja þetta magnaða hlut-
verk. Að auki er þetta í fyrsta sinn
sem Valkyrjan er flutt í heild á Ís-
landi svo þetta var tækifæri sem var
ekki hægt að afþakka.“
Ýmis önnur verkefni eru á döfinni
hjá Ólafi og mörg þeirra eru Wagn-
ertengd. Þar má nefna nýja upp-
setningu á Niflungahringnum í
Þjóðaróperunni í Peking í Kína, sem
verður í gangi næstu tvö eða þrjú ár-
in. „Þar er ég svo heppinn að vinur
minn og kollegi, Bjarni Thor Krist-
insson, verður með mér, svo mér
ætti ekki að leiðast. Það er mjög
ánægjulegt.“ Hann mun einnig
syngja Ragnarök, lokaóperu
Niflungahringsins, í Gautaborg.
Þeim hring hefur hann tekið þátt í
síðan árið 2017 og er honum nú að
ljúka.
Stórkostleg tækifæri
„Það eru kollegar sem syngja ekk-
ert annað en Wagner. Ég hef ekki
ætlað mér það, ég syng til dæmis
töluvert úr óperum Verdis. Ég vil
alls ekki sleppa hendinni af þessum
hlutverkum en staðreyndin er sú að
því betur sem gengur í Wagnerfag-
inu, því meira þéttist dagbókin af
verkefnum því tengdum og sumir
hreinlega enda þannig að hafa ekki
tíma í annað en að syngja Wagner og
það er svo sem ekkert til þess að
ergja sig yfir. Ég get vel hugsað
mér, og geri ráð fyrir því, að Wagner
verði ráðandi á mínum verkefnalista
og ég tek því auðvitað fagnandi því
tækifærin eru alveg stórkostleg í
þessari tegund ópera.
Ég bugta og mig beygi fyrir því
hvernig stjórnendur Bayreuth-
hátíðarinnar hafa leyst úr málum
varðandi Covid-19. Hátíðinni í fyrra
var aflýst en í sumar er þetta gerlegt
með gríðarlegu tilstandi. Af þeim
um það bil 2.000 sætum sem húsið
tekur eru rétt um 900 gestir sem
mega koma á hverja sýningu í ár.
Svo eru allir þátttakendur hátíð-
arinnar, alveg sama hvort það er
fólk úr einsöngvarahópnum, kór-
unum, hljómsveitum eða tæknifólk,
sendir í Covid-próf á hverjum ein-
asta degi. Ef ég fer ekki í test daginn
áður en ég fer á æfingu eða sýningu
þá hleypir tölvukerfi hátíðarinnar
mér ekki inn á svæðið. Hátíðin heitir
Bayreuther Festspiele og einhverjir
hafa verið að gantast með að þetta
sé Bayreuther „Test“-spiele í ár.“
Hátíðin dýrmæt í ljósi aðstæðna
Ólafur segir það í einu orði sagt
aðdáunarvert hvernig Katharina
Wagner, stjórnandi hátíðarinnar, og
hennar meðstjórnendur hafa tekist á
við áskoranirnar. „Hér hafa allir
lagst á eitt að láta þetta ganga því
auðvitað vitum við öll sem tökum
þátt að það má ekkert út af bregða
svo það verði ekki öllu aflýst aftur.
Það þarf ekkert að orðlengja hvað
maður er þakklátur fyrir að hafa
vinnu því síðasta ár var síður en svo
gjöfult fyrir okkur farandsöngvara,
ekki frekar en aðra. Þessi hátíð
verður snöggtum dýrmætari í ljósi
aðstæðna.“ Eins og áður sagði var
óperan Tannhäuser frumsýnd síð-
astliðinn þriðjudag en fimm sýn-
ingar til viðbótar hafa verið skipu-
lagðar; á mánudag og fimmtudag í
næstu viku og 13., 16. og 23. ágúst.
Ljósmynd/Jorge Rodríguez-Norton
Á sviði Ólafur tekur sig vel út í hlutverki Biterolfs í Tannhäuser í óperuhúsinu í Bayreuth. Wagner lét sjálfur
byggja húsið undir hátíð tileinkaða verkum sínum og hafa Bayreuther Festspiele farið þar fram frá 1876.
Ljósmynd/ Isolde Stein-Leibold
Barítón Ólafur Kjartan Sigurðarson hefur gert samning við Bayreuth-
hátíðina til nokkurra ára og segir það bæði áfangastað og byrjunarreit.
„Gríðarlega þýðingarmikið“
- Ólafur Kjartan Sigurðarson óperusöngvari kemur fram í Tannhäuser á Bayreuth-hátíðinni
- Syngur mikilvægt hlutverk í Niflungahringnum næstu árin - Valkyrjan í Hörpu í febrúar
Bíltúr Ólafur Kjartan þeysist um á sportbíl með óperutónskáldinu Wagner.
Söngvarinn segir að Wagnerhlutverk verði líklega ráðandi á næstu árum.
Fjölskylda Sigurður Rúnar Jóns-
son, Ásgerður Ólafsdóttir, Sig-
urbjörg Bragadóttir og Brynja
Ólafsdóttir á frumsýningunni.