Strandapósturinn - 01.06.1971, Page 62
upp í það rúm sem myndaðist fyrir ofan garðinn, var það gert
með því að róta fram úr hlíðinni fyrir ofan, grjóti, torfi og öðru
sem hægt var að losa, nú þurfti að flytja þetta fram að fyrr-
nefndum garði, en þá voru engar vélar til að vinna verkin og
varð því að vinna þetta með handverkfærum.
Þetta sumar var söltunarstöð á Djúpavík við Reykjarfjörð, sem
Elías Stefánsson átti og starfrækti þar. Olafur var búinn að fá
hjá Elíasi vagna sem hann hugðist nota við áðumefnda vinnu,
en það var eftir að koma þeim norður til Ingólfsfjarðar, enginn
vegarspotti var á þessari leið og engar skipaferðir, svo nú var úr
vöndu að ráða, en vagnarnir þurftu að koma sem allra fyrst.
Ölafur kom að máli við mig og annan strák Sæmund Guðmunds-
son, en hann var einn af þeim bráðduglegu Byrgisvíkur-systkin-
um og var harðduglegur. Ólafur spurði okkur hvort við treystum
okkur til að koma vögnunum norður, við tókum vel í það, héldum
víst að þetta væri sport- ferð, annars var nú ekki verið að hugsa
út í það á þeim aldri, annar 18 ára og hinn 19 ára og vissum
við raunar ekki hvað við vorum að játast undir. Olafur sagði
okkur að við réðum því sjálfir hvernig við kæmum þeim, bara
ef þeir kæmust norður.
Ákveðið var að við færum næsta dag. Morguninn eftir lögðum
við af stað og fórum eins og leið lá fram yfir Eyrarháls, um Tré-
kyllisvík, inn yfir Göngumannaskörð og kring um Reykjarfjörð
til Djúpuvíkur. Þegar þangað kom hittum við menn að máli og
sögðum erindi okkar, nokkur stund leið, þar til við fundum rétta
manninn til að afhenda okkur vagnana og sögðum honum erindi
okkar og afhenti hann okkur strax vagnana, en heldur brá okkur
í brún, þegar við sáum þá, þetta voru síldarvagnar með stórum
trogum ofaná eins og notaðir voru í þá daga til að keyra síld
upp úr bátum. Við þessu var ekkert að segja, við tókum við þeim
og lögðum af stað með þá, menn sem voru að vinna þarna spurðu
okkur hvert við ætluðum með þessa vagna, við sögðumst ætla
með þá til Ingólfsfjarðar, en þeir sögðu að það gætum við ekki
því það væri ekki framkvæmanlegt.
Þetta gekk vel fyrst, en þó fundum við strax að við gætum
ekki dregið vagnana, nema að hafa band á kjálkunum, sem við
60