Morgunblaðið - 09.10.2021, Blaðsíða 48
48 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 9. OKTÓBER 2021
ÚRVAL
ÚTILJÓSA
www.rafkaup.is
H
vað sjáum við er við lítum
til himna? er önnur frá-
sagnarmynd leikstjórans
Alexandres Koberidze og
sönnun fyrir því að kvikmynd sé list-
form. Í kvikmynd sinni sýnir Kober-
idze fram á að kvikmyndir eru sjálf-
stæð og merkingarbær listaverk þar
sem möguleikarnir eru endalausir og
má segja að það sé eins konar stef í
þessari 150 mínútna löngu mynd.
Hvað sjáum við er við lítum til
himna? er ástarævintýri sem á sér
stað í smábæ í Georgíu. Í opnunar-
atriðinu rekast tvær aðalsögupersón-
urnar, fótboltamaðurinn Giorgi
(Giorgi Ambroladze) og lyfjafræðing-
urinn Lisa (Oliko Barbakadze), hvor
á aðra á bökkum Rioni-árinnar.
Áhorfendur sjá þau í raun aldrei
mætast þar sem tökuvélin fangar að-
eins fætur þeirra fyrir neðan hné.
Samdægurs rekast þau aftur hvort á
annað á sama stað og aftur sjá áhorf-
endur ekki hitting þeirra nema úr
mikilli fjarlægð. Sögumaðurinn, sem
Koberidze talar fyrir sjálfur, fullviss-
ar hins vegar áhorfendur um að á
þessum fundi þeirra hafi orðið ást við
fyrstu sýn og þau mæla sér mót dag-
inn eftir. Það að áhorfendum sé ekki
leyft að sjá þau þegar þau hittast má
túlka sem eins konar forspá um að
líkamlegt útliti þeirra skipti ekki máli
í þessu ævintýri.
Áður en þau ná að hittast aftur
leggur illur andi á þau álög af því að
alvöruást getur aldrei verið svona
auðveld, alla vega ekki í ævintýrum.
Álögin gera það að verkum að næsta
dag vakna þau í öðrum líkama og
þegar þau setjast á kaffihúsið þar
sem þau mæltu sér mót þekkja þau
ekki hvort annað. Lisa vissi af bölv-
uninni fyrir fram af því vindurinn
hafði látið hana vita en áður en hann
gat sagt henni að hið sama myndi
koma fyrir Giorgi keyrir hávær bíll
fram hjá og hún missir af þessum
mikilvægu upplýsingum. Líf þeirra
gjörbreytist þegar þau vakna í nýjum
líkama, Giorgi og Lisa geta til að
mynda ekki haldið áfram í starfi sínu
vegna þess að þau hafa gleymt hæfi-
leikum sínum til þess.
Það sem eftir lifir kvikmyndarinn-
ar er fylgst með elskendunum vafra
um götur síns nýja veruleika á meðan
þau velta fyrir sér hvað hefði getað
orðið. Munu þau finna hvort annað
eða geta þau sleppt takinu og litið á
heiminn í kringum sig? Sömu spurn-
ingu er varpað til áhorfenda. Geta
áhorfendur horft á myndina án þess
að reyna að tengja ástarsöguna í sí-
fellu við það sem birtist á skjánum?
Heimurinn heldur áfram á meðan
elskendurnir syrgja.
Hvað sjáum við er við lítum til
himna? virðist því í fyrstu vera ástar-
saga en kvikmyndin getur allt eins
flokkast sem borgarsinfónía. Kober-
idze dvelur við það sem er í umhverfi
okkar á hverjum degi en við erum of
upptekin af því að leita að hinni einu
sönnu ást til þess að fylgjast með
hvað er að gerast í kringum okkur.
Koberidze gefur sér tíma og fylgir
takti bæjarins. Í einu atriðinu t.d.
kemur hópur af börnum og ætlar að
kaupa sér ís í ísbúðinni þar sem Lisa
er byrjuð að vinna en það er klukku-
stund þangað til ísinn verður tilbúinn.
Börnin ákveða að bíða, sem er mjög í
takt við kvikmyndina, og á meðan
skimar tökuvélin til hægri og fangar
þannig andlit barnanna hvers á fætur
öðru á meðan þau bíða í hitanum eftir
ísnum. Í þeim skilningi er kannski
réttara að flokka kvikmyndina sem
borgarsinfóníu en rómantíska frá-
sagnarmynd. Bærinn og bæjarlífið er
í raun í forgrunni en ástarsagan er
eins konar bakgrunnssöguþráður.
Saga og svæði bæjarins er sett upp af
mikilli nákvæmni. Áhorfendur fá t.d.
innsýn í ást bæjarins á fótbolta með
því að stoppa við og setjast hjá karl-
mönnunum sem eru dáleiddir við
skjáinn fyrir ofan kebab-staðinn úti.
Einnig fá áhorfendur að heimsækja
tónlistarskólann og bakaríið þar sem
starfsmenn þess skreyta kökurnar á
steinborðum á gróinni grasflöt. Kob-
eridze minnir áhorfendur á að hægt
sé að finna töfra alls staðar í umhverf-
inu, jafnvel í augum flækings-
hundanna eða þegar þú missir bókina
þína og ókunnugur maður tekur hana
upp. Ef til vill hefur kvikmyndin of
mikinn kjarna til þess að getast talist
borgarsinfónía en Alexandre Kober-
idze er of sveimhuga til þess að
myndin verði hefðbundin frásagnar-
mynd. Réttast væri að kalla kvik-
myndina listaverk og því ekki furða
að hún hafi unnið FIPRESCI-
verðlaun samtaka gagnrýnenda á
kvikmyndahátíðinni í Berlín, Berl-
inale, árið 2021.
Hvað sjáum við er við lítum til
himna? er þó ekki kvikmynd fyrir alla
enda getur það reynt á þolinmæðina
að horfa á fjögurra mínútna langt at-
riði þar sem hverfiskrakkarnir spila
fótbolta í hægmynd, jafnvel þótt tón-
listin undir sé góð.
Borgarsinfónía ástarinnar
Sinfónía Hvað sjáum við er við lítum til himna? virðist í fyrstu vera ást-
arsaga en kvikmyndin getur allt eins flokkast sem borgarsinfónía.
Bíó Paradís – RIFF
What Do We See When We Look at
the Sky?/ Hvað sjáum við er við lít-
um til himna? bbbnn
Leikstjórn: Alexandre Koberidze. Hand-
rit: Alexandre Koberidze. Aðalleikarar:
Ani Karseladze, Giorgi Bochorishvili,
Oliko Barbakadze, Giorgi Ambroladze,
Vakhtang Panchulidze, 2021. 150 mín.
JÓNA GRÉTA
HILMARSDÓTTIR
KVIKMYNDIR
„Ég sem orðum ann“ er yfirskrift dagskrár í
Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, á morgun,
sunnudag, kl. 16 í tilefni af útgáfu ljóðasafns
Einars Braga. Í dagskránni verður fjallað um
ævi og verk skáldsins, valin ljóð lesin og flutt
tónlist sem tengist þeim.
Einar Bragi (1921-2005) var í fylkingar-
brjósti atómskáldanna svonefndu og átti stór-
an þátt í þeim straumhvörfum sem urðu í ís-
lenskri ljóðagerð um og eftir miðja síðustu
öld. Hann var frumkvöðull að stofnun tíma-
ritsins Birtings og atkvæðamikill þýðandi er-
lendra ljóða.
Fram koma þau Aðalsteinn Ásberg Sig-
urðsson, Ástráður Eysteinsson, Harpa
Björnsdóttir, Sigrún Björnsdóttir, Æsa
Strand Viðarsdóttir og Þorgerður Ása Aðal-
steinsdóttir.
Ljóðasafnið nýja er í tveimur bindum og er
birtur meginþorri frumortra ljóða skáldsins
auk viðamikils úrvals af ljóðaþýðingum hans.
Ástráður Eysteinsson valdi og ritar ítarlegan
inngang. Aðgangur að dagskránni er ókeypis
og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Dagskrá vegna útgáfu
ljóðasafns Einars Braga
Skáldið Fjallað verður um ævi og verk Einars Braga.
Myndlistarkonan J Pasila opnar á morgun, sunnudag, kl. 14
sýningu í Kompunni í Alþýðuhúsinu á Siglufirði og er yfir-
skrift hennar „Ókunnugur“.
J Pasila hefur sýnt verk sín bæði í Evrópu og Bandaríkj-
unum, í galleríum og í söfnum, og hefur hún hlotið ýmsa
styrki og verðlaun.
Um verkin á sýningunni segir hún meðal annars að síð-
ustu 18 mánuði hafi hún varið tíma sínum „í Zoom og Face-
Time-símtöl í leit að einhvers konar samveru – líkt og vinir
mínir og kunningjar. Stundum hægði á sambandinu eða net-
tengingin hökti. Skjámyndin fraus og varð þokukennd, eins
og óljós vatnslitamynd. Ég fór að taka myndir af þessum
augnablikum – tilgangslitlar tilraunir til að halda í tengingu
sem var þá þegar næstum horfin, varla til staðar lengur.“
Seinna sama dag, eða kl. 15.30, verður tónlistarblaða-
konan Lydia Athanasopoulos með erindi í dagskránni
„Sunnudagskaffi með skapandi fólki“ þar sem hún fjallað
um svokallaða „rebetika“-sönghefð á Grikklandi.
Sunnudagsveisla í
Alþýðuhúsinu á Siglufirði
Móskukennd Hluti eins verka J Pasila.
Kammerhópurinn Ensemble Pro-
mena kemur fram á tónleikum „Sí-
gildra sunnudaga“ í Norðurljósasal
Hörpu á morgun, sunnudag, kl. 16.
Ensemble Promena er nýstofn-
aður alþjóðlegur kammerhópur
sem sérhæfir sig í flutningi róman-
tískrar tónlistar á upprunaleg
hljóðfæri með girnisstrengjum og
rómantískum bogum. Hópurinn er
breytilegur að stærð, en á þessum
fyrstu tónleikum á Íslandi skipa
hann Herdís Anna Jónasdóttir
sópran, Elfa Rún Kristinsdóttir og
Hed Yaron Meyerson á fiðlu, Muriel
Razavi á lágfiðlu og Vladimir Walt-
ham á selló.
Á efnisskránni eru þrjú verk, tvö
fyrir söng og strengjakvartett og
svo þriðji og síðasti strengjakvar-
tett Brahms. Söngverkin eru út-
setningar eftir tónskáldið Aribert
Reimann á 6 Gesänge eftir Schu-
mann og átta söngljóðum eftir
Mendelssohn við ljóð eftir Heine.
Tónleikar Ensemble Promena í Hörpu
Morgunblaðið/Kristinn
Fiðluleikari Elfa Rún Kristinsdóttir er
meðal flytjendanna í Ensemble Promena.
„Af búfjársjúkdómum á átjándu og
nítjándu öld“ er yfirskrift málþings
Félags um 18. aldar fræði sem verð-
ur haldið í fyrirlestrasal Þjóðar-
bókhlöðu í dag, laugardag, frá kl.
13.30-16.15.
Flutt verða sjúkdóma í búfénaði
og sjúkdóma sem búfénaður getur
borið í mannfólkið.
Helgi Sigurðsson, dýralæknir og
sagnfræðingur, flytur erindi sem
gefur yfirlit yfir búfjársjúkdóma á
nítjándu öld. Erindi Karls Skírn-
issonar dýrafræðings nefnist „Um
sullaveiki á Íslandi á liðnum öld-
um“. Ólafur R. Dýrmundsson, sjálf-
stætt starfandi doktor í búvís-
indum, flytur erindið „Fjárkláða-
faraldrar á átjándu og nítjándu
öld“ og Sigurður Sigurðarson dýra-
læknir flytur erindi um miltisbrand
á Íslandi.
Málþing um búfjársjúkdóma áður fyrr
Morgunblaðið/Sverrir
Fyrirlesari Karl Skírnisson fjallar í sínu
erindi um sullaveiki á Íslandi.