Morgunblaðið - 22.12.2021, Side 12
12 FRÉTTIR
Erlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 22. DESEMBER 2021
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Bandarísk stjórnvöld ætla að kaupa
500 milljón heimapróf og dreifa frítt
til allra Bandaríkjamanna sem óska
eftir slíku prófi frá og með næstu
áramótum. Þá verða um 1.000
læknar á vegum Bandaríkjahers
sendir til sjúkrahúsa vítt og breitt
um Bandaríkin á næstu tveimur
mánuðum.
Joe Biden Bandaríkjaforseti
ávarpaði í gærkvöldi þjóð sína í sjón-
varpi og kallaði eftir því að fólk léti
bólusetja sig með örvunarskömmt-
um til þess að bregðast við Ómíkron-
afbrigðinu, en sóttvarnastofnun
Bandaríkjanna, CDC, staðfesti í gær
að afbrigðið væri nú ráðandi afbrigði
kórónuveirufaraldursins í Banda-
ríkjunum, þar sem 73,2% nýrra
smita mætti rekja til þess.
Aðgerðir Bandaríkjastjórnar eru
einkum hugsaðar til þess að auka að-
gengi fólks að kórónuveiruprófum,
en erfitt hefur verið í mörgum ríkj-
um Bandaríkjanna að nálgast heima-
próf, og seljast þau oft dýru verði. Þá
ætlar alríkisstjórnin að opna sér-
stakar skimunarstöðvar á vissum
stöðum, þar á meðal í New York-
borg.
Útbreiðsla Ómíkron-afbrigðisins í
Bandaríkjunum hefur verið undra-
skjót, en stjórnvöld í Ísrael tilkynntu
í gær að þau hygðust banna komur
ferðalanga frá Bandaríkjunum
vegna þess.
Ekki lokað fyrir jólin
Biden kallaði einnig eftir því í
ávarpi sínu að fólk gætti sín yfir
jólahátíðina, en ekki verður gripið til
samkomutakmarkana í Bandaríkj-
unum yfir jólin. Boris Johnson, for-
sætisráðherra Bretlands, útilokaði
einnig í gærkvöldi að gripið yrði til
frekari samkomutakmarkana í Eng-
landi fyrir jól, þar sem enn þyrfti að
meta fyrirliggjandi gögn um smit-
tölur.
Sagði Johnson þó að ríkisstjórnin
myndi fylgjast náið með stöðunni, og
að gripið yrði til harðra aðgerða
strax eftir jól, ef aðstæður kölluðu á.
Sérfræðingar ríkisstjórnarinnar
hafa kallað eftir hörðum aðgerðum
þegar í stað, en mikil andstaða er
innan Íhaldsflokksins við slíkt.
Nicola Sturgeon, forsætisráð-
herra skosku heimastjórnarinnar,
lýsti því yfir í gær að búið væri að
fresta mannfögnuðum á gamlársdag
í Edinborg vegna afbrigðisins, annað
árið í röð, en tugþúsundir ferðalanga
gera sér ferð til borgarinnar til þess
að fylgjast með hátíðahöldunum á
hverju ári.
Þá hyggjast Skotar grípa til 500
manna samkomutakmarkana utan-
dyra, og annaðhvort 100 manns
standandi eða 200 í sætum á viðburð-
um innandyra. Sagði Sturgeon að
aðgerðirnar þýddu m.a. að leikir í
skosku úrvalsdeildinni yrðu nú að
fara fram að mestu án áhorfenda.
Skotar eru ekki einir um að hafa
sett takmarkanir á mannfagnaði um
áramótin, þar sem Lundúnaborg til-
kynnti á mánudaginn að hátíðahöld-
um á Trafalgartorgi hefði verið af-
lýst. Elísabet 2. Bretadrottning mun
hafa ákveðið að aflýsa hefðbundnum
jóla- og nýársfagnaði sínum, og mun
hún dvelja í Windsor-höll yfir hátíð-
arnar.
Ríki og borgir á meginlandi Evr-
ópu hafa einnig gripið til slíkra ráða,
og er t.d. gert ráð fyrir að þýsk
stjórnvöld muni setja harðar sam-
komutakmarkanir fyrir áramótin og
loka næturklúbbum. Þá hafa yfirvöld
í Parísarborg frestað öllum hátíða-
höldum.
Aldrei fleiri smit í Danmörku
Magnus Heunicke, heilbrigðis-
ráðherra Danmerkur, greindi frá því
í gær á twitter-síðu sinni, að Ómí-
kron-afbrigðið væri nú ráðandi í
Danmörku. Þá höfðu 13.558 ný til-
felli greinst þar á undangengnum
sólarhring, sem er hið mesta frá upp-
hafi faraldursins í Danmörku. Að
minnsta kosti 500 þeirra sem greind-
ust með smit höfðu áður fengið Cov-
id-19-sjúkdóminn.
Einungis er um mánuður liðinn
frá því að Ómíkron-afbrigðið greind-
ist fyrst í Danmörku, en stjórnvöld
þar ákváðu um helgina að loka kvik-
myndahúsum, leikhúsum og tón-
leikahöllum næstu fjórar vikurnar
vegna fjölda smita. Þá hefur veit-
ingahúsum verið gert að takmarka
afgreiðslutíma sinn.
Sérfræðingar hafa spáð því að
Ómíkron-afbrigðið verði ráðandi af-
brigði í öllum ríkjum Evrópusam-
bandsins fljótlega eftir áramót.
AFP
Covid-19 Mikil mannmergð var á Times Square í New York í gær þar sem fólk beið þess að komast í skimun.
Auka aðgengi að prófum
- Bandaríkjastjórn kynnir aðgerðir vegna Ómíkron-afbrigðisins - Ekki gripið til
samkomutakmarkana - Ómíkron nú ráðandi í Bandaríkjunum og Danmörku
Danska þingið samþykkti í gær að
svipta Inger Støjberg, fyrrverandi
ráðherra innflytjendamála, þing-
sæti sínu. Støjberg, sem sagði af sér
varaformennsku í Venstre fyrir ári,
var í síðustu viku dæmd fyrir lands-
dómi Danmerkur í 60 daga óskil-
orðsbundið fangelsi fyrir að hafa
brotið á réttindum innflytjenda
með því að skilja að öll pör sem
sóttu um hæli í landinu ef annað var
undir 18 ára aldri, án þess að rann-
sókn hefði farið fram á högum
þeirra. Þá hafði hún einnig afvega-
leitt þingið um aðdraganda þeirrar
ákvörðunar.
Þetta er í fyrsta sinn í 30 ár sem
þingið sviptir þingmann sæti sínu.
Greiddu 98 þingmenn atkvæði með
tillögunni, en 18 þingmenn Danska
þjóðarflokksins greiddu atkvæði á
móti. Sögðu talsmenn flokksins að
bæði Venstre og Jafnaðarmanna-
flokkurinn bæru ábyrgð á málinu
og hefðu stutt hina ólöglegu stefnu.
DANMÖRK
AFP
Danmörk Inger Støjberg var dæmd í
síðustu viku í 60 daga fangelsi.
Støjberg svipt þing-
sæti eftir landsdóm
Þrír fangar voru hengdir í Japan í
gærmorgun, og eru það fyrstu af-
tökurnar í landinu frá 2019. Jap-
önsk stjórnvöld sögðu í gær að
dauðarefsing væri enn nauðsynleg
til að refsa fyrir „grimmilega
glæpi“.
Um hundrað manns eru nú á
dauðadeildum í japönskum fang-
elsum, og voru flestir þeirra sak-
felldir fyrir fjöldamorð.
Landssamband lögmannafélaga í
Japan mótmælti í gær aftökunum
og hvatti forseti þeirra, Tadashi
Ara, stjórnvöld til þess að afnema
dauðarefsinguna og fresta öllum
aftökum.
JAPAN
Dauðarefsingu beitt
í fyrsta sinn í tvö ár
Sindrastóll
Hönnuður: Ásgeir Einarsson (1927-2001)
Sindrastóllinn er bólstraður
með íslenskri lambagæru.
Verð frá: 229.000 kr.
Sólóhúsgögn ehf. Gylfaf löt 16-18 112 Reykjavík 553-5200 solohusgogn. is
Vladimír Pútín Rússlandsforseti
varaði í gær vesturveldin við því að
Rússar væru tilbúnir til að grípa til
„hernaðarlegra aðgerða“ ef þau létu
ekki af „augljóslega fjandsamlegri
afstöðu“ sinni til Rússlands.
Orð Pútíns féllu á fundi hans með
embættismönnum í rússneska varn-
armálaráðuneytinu, og sagði hann
þar einnig að Rússar hefðu allan rétt
á að bregðast hart við „óvinsamleg-
um aðgerðum“.
Pútín hefur sakað Bandaríkin og
Atlantshafsbandalagið um að ýta
undir spennu á landamærum Rúss-
lands og Úkraínu, en greint var frá
því í síðasta mánuði að Rússar hefðu
safnað saman miklu herliði við
landamærin. Hafa Bandaríkjamenn
og bandamenn þeirra varað Rússa
við því að innrás þeirra í Úkraínu
myndi kalla á grafalvarlegar afleið-
ingar í formi viðskiptaþvingana og
annarra refsiaðgerða.
Rússnesk stjórnvöld hafna því
hins vegar að þau séu að leggja á
ráðin um slíka innrás, en Rússar
hafa sett fram kröfur um lagalega
bindandi tryggingar um að Úkraína
gangi aldrei til liðs við Atlantshafs-
bandalagið, sem og að bandalagið
hafi ekki herlið í þeim ríkjum sem
gengið hafa til liðs við það frá lokum
kalda stríðsins.
Pútín sagði einnig í gær að Rússar
hefðu þungar áhyggjur af banda-
rískum stýriflaugum í Póllandi og
Rúmeníu, og sagði að ef slíkar flaug-
ar yrðu settar upp í Úkraínu gætu
þær hæft Moskvu á um 7-10 mín-
útum. Sagði Pútín þó að Rússar vildu
forðast blóðsúthellingar og leysa
deiluefnin með viðræðum.
Þá sakaði Sergei Shoiku, varnar-
málaráðherra Rússlands, Vestur-
veldin um að leggja á ráðin um „ögr-
anir“ í austurhluta Úkraínu, en þar
eru enn skærur milli rússneskumæl-
andi aðskilnaðarsinna og úkraínska
stjórnarhersins.
Rússar tilbúnir
að svara fyrir sig
- Varar við „óvinsamlegum aðgerðum“
AFP
Spenna Pútín varaði vesturveldin
við fjandsamlegum aðgerðum.