Morgunblaðið - 22.12.2021, Síða 32
32 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 22. DESEMBER 2021
F
immta ljóðabók Bubba
Morthens nefnist Orð,
ekkert nema orð og gefur
titillinn hugmynd um þá
hógværð sem einkennir verkið.
Ljóðabókin er orðasafn sem þykist
ekki vera meira en það er, safn orða.
Þeim er þó vissulega raðað saman af
kostgæfni, vand-
að er til verka og
hugmyndirnar
sem settar eru
fram eru oft for-
vitnilegar.
Verkið skiptist
í þrjá nokkuð
ólíka hluta. Það
hefst á safni
sterkra ljóða sem
fjalla um ólík æviskeið, um mannleg
sambönd, ástina, fegurðina og ljót-
leikann. Þessi ljóð eru einlæg og tær
og sýna vel þann hæfileika Bubba að
snerta við manni án þess að vera
með eitthvert óþarfa prjál. Ljóðið
„Hjartað“ er gott dæmi um þetta.
Hjartað skáldið
sem lýgur aldrei
meðan höfuð okkar
reisa endalausa múra
loka ljósið úti
fótatak sem kveikir von
en fjarlægist jafnóðum
hjartað
sem höfuð þitt
vill ekki kannast við. (7)
Við tekur síðan kafli sem ber tit-
ilinn „Nokkrar bláar nótur“ og hef-
ur að geyma minningarorð á ljóð-
formi um tónlistarfólk sem fallið
hefur frá. Ljóðin eru tólf og meðal
þeirra sem Bubbi minnist eru Gunn-
ar Jökull Hákonarson trommuleik-
ari, tónskáldið Jón Múli og söngv-
ararnir Elly Vilhjálms og Rúnar
Júlíusson.
Um Guðrúnu Á. Símonar skrifar
hann meðal annars:
risi meðal risa of stór of skrýtin
í landi þar sem boð og bönn réðu
ríkjum
nú syngur hún einhvers staðar á
stjörnu
með kattargleraugu og hárkollu
úr draumum
vetrarbrautarinnar
Þessi ljóð eru persónuleg en þó
þannig að þeir sem þekkja til tón-
listarfólksins munu finna í þeim
kunnuglegan streng. Sumar lýsing-
arnar eru hráar og Bubbi er ekkert
að skafa af hlutunum, en hann sýnir
þó þá virðingu sem hann ber fyrir
þessum kollegum sínum. Aðdáunin
fær að skína í gegn og skáldinu
tekst vel að fanga músíkina og tíð-
arandann sem fylgdi þessu fólki sem
hann yrkir um og heiðrar.
Þriðji hlutinn er tilraunakennd-
astur og mörg ljóðin forvitnileg. Þar
flæða áfram prósaljóð sem snerta á
ýmsum ólíkum viðfangsefnum. Þau
skrif Bubba sem hafa að geyma
beitta ádeilu eru jafnan sterk og það
á við nokkur ljóðanna, en þau sem
upphefja vissa nostalgíu og fegurð
eru líka nokkuð sannfærandi.
Fyrri verk Bubba þar sem hann
hefur tekið fyrir eitthvert málefni
sem hann brennur fyrir eru ívið bet-
ur heppnuð, vegna þess að þau eru
hnitmiðaðri og beinskeyttari. Þegar
hann í þessu nýja ljóðasafni skellir
fram grófum lýsingum á ljótleika,
sem minna á fyrri ljóðabækur hans,
kippist lesandinn við og þær línur
verða áhrifamiklar þar sem þær eru
faldar milli sakleysislegra ljóða. Ég
saknaði þess svolítið að sjá ekki
meira af þessari hlið á ljóðskáldinu
Bubba en hin einlæga útgáfa af hon-
um er auðvitað afar viðkunnanleg og
á sinn hátt heillandi.
Þetta nýjasta verk Bubba, Orð,
ekkert nema orð, stendur alveg fyr-
ir sínu, það einkennist af einlægni
og hógværð en hefur þó einnig að
geyma minnisstæðar myndir, flottar
lýsingar og ýmsar spennandi hug-
myndir.
Einlæg og minnisstæð
orð frá hógværum Bubba
Ljóð
Orð, ekkert nema orð bbbmn
Eftir Bubba Morthens.
Mál og menning, 2021. Kilja, 64 bls.
RAGNHEIÐUR
BIRGISDÓTTIR
BÆKUR
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ljóðskáld Nýjasta ljóðabók Bubba, Orð, ekkert nema orð, skiptist í þrjá
ólíka hluta og gagnrýnandi segir það einkennast „af einlægni og hógværð“.
AF BÓKUM
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Hann trúir á fjöllin, tign
þeirra, kraft og hreinleik,
og hann boðar þjóð sinni
fagnaðarerindi um þau, með slíkum
þrótti, að hann talar eins og sá sem
vald hefur.“ Þannig er afstöðu hins
fjölhæfa listamanns og náttúruunn-
anda Guðmundar Einarssonar frá
Miðdal (1895-1963) til fjalla lýst í
lok hinnar rómuðu bókar hans,
Fjallamenn, sem kom út rétt eftir
heimsstyrjöldina seinni, 1946. Guð-
mundur var maður ekki einhamur,
kom víða við í listsköpun og hönnun
en hafði samt tíma til að vera lang-
dvölum á fjöllum og ögraði sér
löngum á erfiðum ferðalögum sem
leiddu hann iðulega upp á hæstu
tinda. Sem dæmi um það hvernig
fjöllin drógu hann til sín, þá kom
Guðmundur aðeins einu sinni heim
til Íslands þau fimm ár sem hann
var við nám og störf í Þýskalandi
fyrir um öld síðan, og þá dvaldi
hann í fimm vikur samfleytt á Kili,
aleinn í tjaldi.
Guðmundur frá Miðdal var
einn stofnenda félagsins Fjalla-
manna árið 1939 en það stóð fyrir
námskeiðum í skíðamennsku og
klifurtækni í klettum og jökulís,
ferðum um jökla og hálendi og
byggingu fjallaskála. Og á stríðs-
árunum réðst Guðmundur í að
skrifa samnefnda bók, Fjallamenn,
sem endurspeglar svo fallega þessi
áhugamál hans, ferðaþrána og upp-
lifanir í tilkomumikilli náttúru. Fal-
lega bók sem er fyrir löngu orðin
klassísk og sannkallð viðmið þegar
fjallað er um hálendi Íslands og
upplifanir í náttúru landsins.
Gengið að gosi og laxaveisla
Þótt oft hafi mátt finna eintök
af frumútgáfu Fjallamanna Guð-
mundar á fornsölum, þá er ánægju-
legt að sjá að Salka forlag hefur nú
endurútgefið verkið með myndar-
legum hætti og hefur Ragnar Helgi
Ólafsson hannað bókina, trúr útliti
hinnar fyrri en þó með vissum nú-
tímalegum breytingum.
Eins og Ari Trausti sonur Guð-
mundar greinir frá í inngangi nýju
útgáfunnar notaði Guðmundur
lausan tíma í nokkur ár í að skrifa
bókina, „að nokkru leyti upp úr
minnisbókum, og safnaði ljós-
myndum til hennar. Hann hafði
teiknað tússmyndir og upphafsstafi
kafla, væntanlega til þess að hafa
bókina sem myndarlegasta og fjöl-
breytilegasta að gerð og með per-
sónulegu handbragði.“
Bókin er nær 400 síður og þar
af eru um eitt hundrað ljósmyndir
sem dreifast um verkið. Það er
breyting frá fyrri útgáfu þar sem
ljósmyndir eru í tveimur sérstökum
köflum á húðaðan pappír. Margar
myndanna eru glæsilegar, vel tekn-
ar og sýna fólk á ferð í tilkomu-
mikilli náttúru. Sýnilega hefur
þurft að skanna myndirnar inn úr
eldri útgáfunni, frummyndirnar
hafa þá ekki verið aðgengilegar, og
eru myndgæðin því lakari í nýju
bókinni og skuggafletir eiga til að
lokast. En ljósmyndirnar eru engu
að síður afar mikilvægur þáttur
verksins, eins og fjölmargar æting-
ar Guðmundar af viðkomustöðum
og fyrrnefndar tússteikningar.
Og viðkomustaðirnir eru
margir og eins og slyngustu ferða-
sagnahöfundar geta svo vel gert, þá
hrífur sögumaðurinn okkur lesend-
urna með sér. Í fyrri hluta bókar
um Ísland; til að mynda á slóðir úti-
legumanna á hálendinu og á Vatna-
jökul að upplifa ógnarkrafta Gríms-
vatnagoss, og svo eru hér frásagnir
af einstakri laxveiði listamannsins –
þessi lesandi hefur oft notið þess að
lesa frásögn hans af 37 löxum sem
hann veiddi á einum degi í Soginu
og vógu að meðaltali um 18 pund.
Í seinni hluta bókar leiðir Guð-
mundur okkur meðal annars á slóð-
ir væringja og um Alpana, sem er
einnig gaman að upplifa, en áður en
hann flutti heim árið 1926 lagðist
hann í sjö mánaða flakk um löndin
suður við Miðjarðarhaf.
Viðburðaríkir dagar
Guðmundur frá Miðdal skrifaði
þróttmikinn, myndríkan og fal-
legan stíl. Og hann brýnir landa
sína til dáða, hvetur þá til að halda
til fjalla, skíða og ganga. Hann upp-
lifir skýrar andstæður náttúru og
borgarlífs: „Þegar kemur af fjöll-
um, sést bezt, hve margt bæjarfólk
er hvítt og veiklulegt, og maður
horfir undrandi á meiningarlaust
ranglið á Austurstræti,“ skrifar
hann á einum stað. Og þá „minnist
ég þess, hve vistlegt er í tjaldinu
uppi við jökulbrúnirnar, þegar sest
er að einfaldri máltíð eftir erfiðan,
en viðburðaríkan dag“. (48)
Fjallamenn er heldur betur
viðburðarík, innblásin og ævin-
týrarík frásögn – klassísk og falleg
ferðabók.
Teikning/Guðmundur Einarsson
Á jökli Teikning Guðmundar við upphaf kaflans Eldgos við Grímsvötn sýnir
hvar ísveggur er hlaðinn um tjaldið á jöklinum. Gosmökkinn ber við himin.
Fagnaðarerindi
um fjöll og ferðir
Sú nýja Fjallamenn er hér í nýjum
umbúnaði á þeirri gömlu frá 1946.
Ljósmynd/Guðmundur Einarsson
Jökulganga Við ísborgir Tindfjalla-
jökuls í einni ferð Fjallamanna.
110 Ve