Strandapósturinn - 01.06.2018, Blaðsíða 52
50
var nýtilegt og setti í holu fyrir fluguna og hugði gott til silungs-
veiða í framhaldinu og þá varð til eftirfarandi vísa:
Heyrðu kæri veiðivin,
vaskur í ormaslangi,
heldurðu ekki sels á sin25
silungurinn gangi?
Gefur bæði gleði og frið
og gróðavon í buddu,
er austan golan gælir við
gilda selsins snuddu.
H.J.S.
Framan af voru netin heimariðin, þá var setið við á veturna að
ríða silungsnet og gera þau klár fyrir sumarið. Þegar búið var að
ríða netin voru þau lituð í sótvatni, sótblandað vatn hitað og netið
látið liggja í um stund. Þegar því var lokið og netið orðið þurrt var
það „fellt“ sem kallað var, en þá var ysti möskvi netsins þræddur
upp á band sem kallaður var teinn. Talað var um að „teina net“,
og þannig varð til flotteinn og botnteinn. Á botnteininn voru sett-
ar sökkur, sem voru oftast heimasaumaðir smápokar fylltir af
sandi og á flotteininn var settur korkur svo netið breiddi vel úr sér
þegar það kom í sjóinn. Við gerð netanna var talað um djúpenda
og landenda (grunnenda) á neti, þá var netið riðið þannig að það
var dýpra (breiðara) í þann endann sem fjær var landi, á meira
dýpi. Seinna, þegar nælonnetin komu, aflögðust heimagerðu
netin og þá voru keyptar „slöngur“ í kaupfélaginu, en það voru
net sem eftir var að teina, eins og áður er lýst, og enn seinna
komu fullbúin nælonnet með blýteini og ásettum korki og voru
það bestu netin.
Við bræður sinntum silungsveiðinni á Undralandi af miklum
áhuga, vöktuðum netið, vorum duglegir að safna í maðkaholuna
og gera að silungnum. Ef vel veiddist þá var silungurinn slægður
og síðan lagður í ferskan arfa,26 þannig geymdist hann best. Arf-
inn var bæði rakur og svalur og varnaði því að fluga kæmist í fisk-
inn.
Á Undralandi var silungurinn alltaf borðaður nýr, soðinn með
bræddu smjöri og kartöflum.