Strandapósturinn - 01.06.2018, Blaðsíða 76
74
Jónshús
Húsið sem við fjölskyldan, ég, Höskuldur bróðir, Anna systir,
mamma (Ingibjörg) og Sveinn fósturfaðir minn fluttum í, var
kallað Jónshús á Gjögri, húsið hjá foreldrum Sveins. Þegar við
fluttum í húsið var það illa farið, hafði staðið tómt í meira en tíu
ár.
Þakið lak, neglt var fyrir flesta glugga, margir voru brotnir og
stórar holur voru komnar í veggina sem snéru í suður og norður.
Stærstu holurnar voru uppundir þakinu, á hliðinni sem snéri að
sjónum. Ég man að Sveinn hafði miklar áhyggjur af þessu, talaði
oft um að hann þyrfti að fara að steypa í holurnar.
Húsið var byggt árið 1915, af Ólafi Gunnlaugssyni og Sigurði
Sveinssyni.1 Hefur verið stórt hús í þá daga, tvær hæðir og kjallari.
Húsið stóð niðri á bakkanum við sjóinn.
Seinna keyptu foreldrar Sveins, Jón Sveinsson og Olga Soffía,
húsið. Jón og Olga Soffía hófu síðar verslunarrekstur í húsinu.
Svenni sagði mér oft frá þeim tíma þegar hann var barn á
Gjögri. Til dæmis hve spennandi það var þegar Súðin lagðist við
akkeri beint framan við húsið og kom með vörusendingar til
verslunarinnar. Róið var útí Súðina á árabátum og varningurinn
hífður í neti um borð í bátana, sem síðan voru affermdir í
lendingunni fyrir innan húsið. Allur varningurinn var svo borinn
inn í húsið. Mest spennandi var að sjá hvað kom uppúr trékössun-
um: Sykur, hveiti, kaffi, kandís ... og stundum stórar krukkur með
brjóstsykri í.
Vorið 1972, þremur árum eftir að við fluttum í Jónshús á Gjögri,
fauk helmingurinn af þakinu af húsinu. Ég man að það brakaði
mikið í þakinu þessa nótt. Suðvestanhviðurnar skullu á húsinu en
á milli var dúnalogn, svo aftur hviður með braki og brestum. Ég
og Höskuldur sváfum í herbergi uppá lofti, sem snéri að sjónum,
Svenni og mamma við hliðina á okkar herbergi og Anna systir í
herberginu beint fyrir ofan eldhúsið, í norðausturenda hússins.
Ég og Höskuldur vöknuðum undir morgun við eitt heljarinnar
brak. Ég man að við hlupum fram á gang og opnuðum dyrnar
inní herbergið við hliðina, hjá mömmu og Svenna. Við okkur
blasti undarleg sjón, úr herberginu sást í bláan himin, á gólfinu
1 Hrundar borgir, eftir Þorstein Matthíasson. Bókamiðstöðin 1973, bls. 96.