Morgunblaðið - 15.01.2022, Qupperneq 20
20
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. JANÚAR 2022
Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/
Það er greini-
legt að sveit-
arstjórnar-
kosningar eru í
nánd. Í vikunni brá
svo við að meiri-
hlutinn í Reykjavík
ákvað að draga í
land með áform um
þéttingu byggðar.
Þessi ákvörðun
snerist reyndar að-
eins um Bústaða-
hverfið þar sem hugmyndir um
þéttingu við Bústaðaveg hafa
mætt mikilli gremju og and-
spyrnu. Meirihlutinn var sann-
færður um að þar væri bara há-
vær minnihluti á ferð, en þegar
skoðanakönnun sýndi með af-
gerandi hætti að svo var ekki
var dregið í land. Er það
kannski til marks um að stytt-
ist í kosningar að það var gert á
sama degi og niðurstöður
könnunarinnar birtust.
Pawel Bartoszek, formaður
skipulags- og samgönguráðs og
borgarfulltrúi Viðreisnar, má
þó eiga það að hann segist í við-
tali við Morgunblaðið óhrædd-
ur við að taka umdeildar
ákvarðanir og muni verða það
alveg fram að kjördegi.
Sú stefna borgarinnar að
láta þéttingu byggðar ráða för
við að reisa íbúðarhúsnæði í
stað þess að leyfa borginni að
breiða úr sér eftir því sem íbú-
um fjölgar hefur reynst af-
drifarík. Hún hefur átt þátt í að
sprengja upp húsnæðisverð og
leitt til þess að framboð á hús-
næði í borginni hefur verið
langt á eftir eftirspurninni.
Þetta hefur ekki aðeins haft
áhrif á borgarbúa og orðið til
þess að hrekja fólk annað. Það
hefur beinlínis áhrif á þjóðar-
hag, kyndir undir verðbólgu og
keyrir upp vísitölur.
Í fyrradag var aðalskipulag
Reykjavíkur til 2040 undirritað
í Höfða. Í frétt í Morgun-
blaðinu var haft eftir Degi B.
Eggertssyni borgarstjóra að
borgin mundi byggjast þéttar
en áður meðfram nýjum þró-
unarásum borgarlínu og virkir
samgöngumátar yrðu stór-
efldir.
Bjarni Reynarsson skipu-
lagsfræðingur gagnrýnir aðal-
skipulagið í grein í Morgun-
blaðinu á fimmtudag og segir
að það verði „að teljast öfga-
kennt að gera ráð fyrir að nær
ekkert verði byggt utan núver-
andi byggðamarka til 2040“.
Bjarni fer hörðum orðum um
það hvernig staðið hefur verið
að þéttingu byggðar í Reykja-
vík og segir að skipulag eigi
fyrst og fremst að snúast um að
skapa sem best lífsskilyrði fyr-
ir borgarbúa þannig að þeir
hafi sem mest val um húsagerð-
ir og búsetu: „Síðustu árin hafa
í Reykjavík myndast hálfgerð
skuggahverfi með þéttri og
hárri byggð. Sú
gagnrýni hefur
komið fram að
þéttingarreitirnir
einkennist af eins-
leitni í húsagerð-
um og að hin þétta
og háa byggð (5-7
hæðir) gefi ekki
næga birtu í íbúð-
um og víða vanti
leiksvæði. Þetta
byggðaform fær
ekki háa einkunn hjá umhverf-
issálfræðingum sem hafa sýnt
fram á að fólki líði best í hlý-
legu grænu umhverfi.“
Bjarni segir að ekki þurfi
nauðsynlega að reisa há fjöl-
býlishús til að ná góðri nýtingu
á landi og bendir á að ein mesta
landnýting í Reykjavík sé í
Þingholtunum og Gamla Vest-
urbænum þar sem sérbýlis- og
sambýlishús séu á litlum lóð-
um. Þetta séu ein vinsælustu
hverfi borgarinnar.
Hér fyrir ofan var drepið á
þjóðhagslegt tjón af þéttingar-
stefnu meirihlutans í borginni.
Þá er ónefnt ómælt tjón vegna
aðgerðaleysis í umferðar-
málum, sem hefur leitt til gríð-
arlegra tafa í umferð og glat-
aðs tíma fyrir almenning.
Stytting vinnuvikunnar snýst
ekki um að búa til meiri tíma til
að sitja fastur í umferð.
Bjarni víkur einnig að um-
ferðarmálum í grein sinni og
reifar afleiðingar þess að hafa
látið umbætur á stofnbrauta-
kerfinu sitja á hakanum síð-
ustu 10 til 15 árin.
„Það er óþolandi að umferð-
artafir á höfuðborgarsvæðinu
séu með þeim mestu sem finn-
ast í borgum með svipaðan
íbúafjölda í Kanada og Banda-
ríkjunum,“ skrifar Bjarni. Í
greininni vísar Bjarni til þess
að í upphafi aldarinnar hafi
víða verið áætlanir um fjöl-
breyttar almenningssam-
göngur, lestir og hraðvagna-
kerfi. Nú sé hins vegar í
vaxandi mæli fjallað um að
„þessi kerfi hafi reynst mun
dýrari en áætlað var og að far-
þegafjöldi hafi orðið minni en
vonast var til“.
Í aðalskipulagi Reykjavíkur-
borgar til 2040 er gengið út frá
því að borgarlína verði að veru-
leika. Enn er hún þó aðeins til á
skipulagi og engar fram-
kvæmdir hafnar. Meirihlutinn
sýndi óvænta hlið þegar hann
ákvað að hætta við þéttinguna
við Bústaðaveg. Hvernig væri
að athuga reynslu annarra af
framkvæmdum í anda borgar-
línu? Ef reynslan er almennt
sú að framkvæmdir hafi farið
fram úr áætlun og spár um
fjölgun farþega hafi reynst tál-
sýn ein er full ástæða til að
staldra við og velta fyrir sér
hvort nokkurt vit sé í að apa
slíkt eftir.
„Það er óþolandi að
umferðartafir á höf-
uðborgarsvæðinu
séu með þeim
mestu sem finnast í
borgum með svip-
aðan íbúafjölda í
Kanada og Banda-
ríkjunum“}
Borg í ógöngum
S
tjórnarskráin var gölluð áður en
fyrrverandi forseti Ólafur Ragnar
skemmdi hana en gallarnir urðu að
veruleika þegar fyrrverandi forseti
lét á þá reyna. Hvað er ég að tala
um? Það eru þau tvö ákvæði sem fyrrverandi
forseti lét á reyna. Fyrst með því að hafna að
skrifa undir lög og svo þegar hann hafnaði
þingrofsbeiðni þáverandi forsætisráðherra.
Hér þurfum við aðeins að láta liggja á milli
hluta hvað okkur finnst um þessar ákvarðanir
fyrrverandi forseta.
Til þess að átta sig á því af hverju þessar
ákvarðanir fyrrverandi forseta skemmdu
stjórnarskrána þá þarf smá samhengi. Við
þurfum að átta okkur á því hvernig er farið með
opinbert vald á Íslandi. Á Íslandi er þingbundið
lýðræði, sem þýðir að þingið setur lög og hefur
eftirlit með framkvæmd þeirra laga. Framkvæmdavaldið,
sem ríkisstjórnin fer með, verður svo að fara eftir lögum.
Ef ráðherra ætlar að hreyfa svo mikið sem litla putta verð-
ur að vera heimild fyrir því í lögum á einhvern hátt. Þess
vegna eru lög um skráningu á því hvern ráðherra hittir,
lög um ábyrgð ráðherra, upplýsingalög og lög sem vernda
þá sem ljóstra upp um misferli sem ráðherra ber ábyrgð á.
Forseti er svo á mjög skrítnum stað í stjórnkerfinu, kon-
ungur sem var að þróast í að verða valdalaus.
Forseti getur gert ýmislegt samkvæmt bókstaf stjórn-
arskrárinnar. Hann getur lagt fram frumvörp, sett bráða-
birgðalög, neitað að skrifa undir lög, fellt niður saksókn,
veitt undanþágu frá lögum og ýmislegt annað sem við átt-
um okkur á í dag að er alls ekki hluti af því sem
einhver forseti ætti að geta gert. Ég býst ekki
við að íslenskur forseti ákveði að fella niður
saksókn, svo dæmi sé tekið, en valdið er samt
fyrir hendi. Eða hvað? Því samkvæmt stjórn-
arskrá lætur forseti ráðherra framkvæma vald
sitt.
Hvernig skemmdi Ólafur þá stjórnar-
skrána? Íslenska stjórnarskráin er með svipað
ákvæði og sú danska um að forsetinn (og
drottningin) skrifa undir lög sem þingið hefur
samþykkt. Samkvæmt okkar stjórnarskrá
þýðir það að lögin fara í þjóðaratkvæða-
greiðslu. En er það í alvörunni hluti af valdi
forseta að neita að skrifa undir? Er forseti ekki
búinn að láta ráðherra í té vald sitt? En hvað
með þingrof sem ráðherra biður um? Getur
forseti bara neitað því líka? Bókstaflega svarið
við því er já en margir hafa haldið því fram að fræðilega
svarið sé nei, þar sem forseti lætur ráðherra framkvæma
vald sitt.
Þegar Ólafur Ragnar ákvað hvernig skyldi túlka þessi
orð skemmdi hann gölluðu stjórnarskrána. Allt í einu
framseldi forseti ekki vald sitt til ráðherra, sem þýðir að
forseti getur samkvæmt bókstaf stjórnarskrárinnar fellt
niður saksókn, rofið þing og veitt undanþágur frá reglum.
Ólafur Ragnar bjó til nýjan konung Íslands – og gat það af
því að stjórnarskráin okkar er gölluð.
bjornlevi@althingi.is
Björn Leví
Gunnarsson
Pistill
Ólafur Ragnar skemmdi
stjórnarskrána. Tvisvar.
Höfundur er þingmaður Pírata.
STOFNAÐ 1913
Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík.
Ritstjóri:
Davíð Oddsson
Aðstoðarritstjóri:
Karl Blöndal
Ritstjóri og framkvæmdastjóri:
Haraldur Johannessen
SVIÐSLJÓS
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
G
ripið var til enn harðari
sóttvarnaaðgerða í gær,
þegar ríkisstjórnin sam-
þykkti að tillögu Þórólfs
Guðnasonar sóttvarnalæknis að taka
upp 10 manna samkomutakmörk,
loka skemmtistöðum, en fjölmennir
viðburðir við framvísun neikvæðs
hraðprófs ekki lengur heimilaðir.
Markmið aðgerðanna er sam-
kvæmt minnisblaði sóttvarnalæknis
að halda áfram uppbyggingu á heil-
brigðis- og spítalakerfi landsins sam-
hliða því að ná fjölda samfélagslegra
smita niður í viðráðanlegan fjölda,
eða um 500 smit á dag. Þau hafa verið
um og yfir þúsund talsins.
Bjartsýnar spár eða þannig
Þróun innlagna hefur ítrekað
verið með mun jákvæðari hætti en
spár spítalans hafa sagt fyrir um,
sem í sjálfu sér er gleðiefni, en bendir
til þess að eitthvað sé að líkaninu.
Stutt er síðan Landspítalinn
kynnti spálíkan, þar sem bjartsýn-
asta spá gerði ráð fyrir að 52 lægju á
sjúkrahúsi vegna veirunnar næsta
fimmtudag miðað við 0,5% innlagna-
hlutfall. Þeir eru hins vegar 43 talsins
eða um ¾ bjartsýnustu spár. Sömu-
leiðis eru færri í gjörgæslu en bjart-
sýnasta spá sagði, 8 en ekki 10.
Í fyrrnefndu minnisblaði sótt-
varnalæknis, dagsettu 10. janúar,
sem var grundvöllur ákvörðunar rík-
isstjórnar, sagði að miðað við spá
gætu 57-89 sjúklingar verið á legu-
deild og 10-27 í gjörgæslu.
Raunin er önnur, en það kemur
einnig illa heim og saman við ætlað
0,5% innlagnarhlutfall – að 0,5%
smitaðra þurfi að leggja inn á spítala.
Það byggist á því að óbreytt hlutfall
smitaðra fái delta-afbrigðið, en inn-
lagnartíðni þess er mun hærri eða
1,7% á móti 0,2-0,3% þeirra, sem
smitast af ómíkron-afbrigðinu. Það
er ekki ómögulegt, en fellur illa að
þróun meðal annarra þjóða og
reynslu af því hvernig afbrigði hafa
útrýmt öðrum í fyrri bylgjum.
Í minnisblaðinu kemur og fram
að gert sé ráð fyrir að á degi hverjum
smitist rúmlega 1.000 manns að jafn-
aði út janúar, sem aftur er ekki
ómögulegt en ekki í takt við fyrri
bylgjur eða reynslu í nágrannalönd-
um af þessari bylgju.
Hins vegar er í því ekki að finna
lykilforsendu fyrir spá um álag á heil-
brigðiskerfið, sem er meðalinnlagn-
artími sjúklinga. Hann hefur sam-
kvæmt erlendum rannsóknum reynst
mun styttri hjá sjúklingum með
ómíkron-afbrigðið en hinum með
delta-afbrigðið – þeir eru útskráðir
um þremur dögum fyrr – og einkenn-
in að öðru jöfnu léttvægari.
Séu framangreindar forsendur
réttar (miðað við 1.100 smit á dag)
virðist Landspítalinn gera ráð fyrir
að sjúklingar liggi að jafnaði inni í
a.m.k. 10 daga miðað við lægri mörk
og allt að 16 dögum og vel það.
Það má draga í efa miðað við
aðrar fyrirliggjandi upplýsingar um
framvindu og meðferð sjúkdómsins.
Nær er að miða við sjö daga meðal-
innlögn og hugsanlega skemmri í
ljósi þess að sjúklingar með ómí-
kron-afbrigðið ná sér fyrr. Það gæfi
til kynna að kúfnum væri þegar náð í
um 40 manns.
Með Covid eða vegna Covid
Þá blasir við spurningin hvernig
það stenst ef nú liggja 46 manns á
spítala með kórónuveiruna.
Það skýrist sennilega af því að
11 af framangreindum liggja inni á
sjúkrahúsi vegna annarra veikinda
(og óvissa um fimm). Það gefur til
kynna að 29-34 manns eru á spítala
vegna Covid-19 en 46 með Covid-19,
sem er eilítið annar hlutur.
Það er mun nær því sem við
mætti búast og heilmikill munur á 46
og 29. Með því er ekki lítið gert úr því
að annast þarf sjúklinga með Cov-
id-19 með varfærnari hætti en ella,
en þeir 12-17 sjúklingar fela ekki í sér
sérstakt álag vegna faraldursins og
ættu ekki að hafa áhrif á tölfræðispár
um innlögn og álag á spítalann.
Ef litið er til síðustu 14 daga
koma fram að meðaltali liðlega þús-
und smit á dag. Ef innlagnartími er
7-10 dagar, þá ætti kúfurinn í inn-
lögnum að vera þegar fram kominn.
Að sjálfsögðu þarf ávallt að gera ráð
fyrir frávikum, en það er erfitt að
skilja hvernig gera má ráð fyrir 57-89
innlögnum vegna Covid-19 að því
gefnu að smit haldist í rúmlega 1.000.
Það gengur ekki upp, nú nema eitt-
hvað sé bogið við þær forsendur og
upplýsingar, sem settar voru fram í
minnisblaðinu.
Það er ástæða til þess að fagna
auknu upplýsingastreymi frá Land-
spítalanum og heilbrigðisyfirvöldum
(má samt biðja um innlagnatíma eftir
afbrigðum?), en menn verða að stilla
sig um að mála skrattann á vegginn,
þannig að mesta bjartsýni reynist
svartagallsraus. Það eykur hvorki
traust né líkur á því að við komumst
áfallalaust í gegnum faraldurinn.
Svartsýn bjartsýni í
spám um innlagnir
Morgunblaðið/Eggert
Sóttvarnir Ráðstafanir við faraldrinum eiga að byggjast á vísindum og
tölfræðin þarf að standast skoðun, svo meta megi vænlegustu viðbrögðin.