Morgunblaðið - 29.01.2022, Side 34
34 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 29. JANÚAR 2022
VIÐTAL
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Sterk kímnigáfa, leikur með liti og
vangaveltur um hinn íslenska þjóð-
ararf í alþjóðlegu samhengi er meðal
þess sem einkennir verk myndlist-
armannsins Birgis Andréssonar
(1955-2007). Umfangsmikil yfirlits-
sýning á verkum hans verður opnuð í
Listasafni Reykjavíkur á Kjarvals-
stöðum í dag, laugardaginn 29. jan-
úar. Sýningin ber titilinn Eins langt
og augað eygir og tekur yfir nær alla
Kjarvalsstaði. Þar er opið alla daga
vikunnar frá kl. 10-17.
Í tilkynningu frá safninu segir að
Birgir hafi verið leiðandi afl í ís-
lenskri myndlist í meira en 30 ár en
hann féll frá langt fyrir aldur fram.
Hinn bandaríski listfræðingur
Robert Hobbs sér um sýning-
arstjórn. Hann er prófessor í list-
fræði og hefur í sínum rannsóknum
einbeitt sér að tuttugustu öldinni.
Hann hefur bæði starfað við há-
skólana Yale og Cornell í Bandaríkj-
unum auk þess sem hann hefur stöðu
prófessors við hina virtu listadeild við
Virginia Commonwealth University.
Hann hefur einnig mikla reynslu af
sýningarstjórn en þetta er í fyrsta
sinn sem hann stýrir sýningu úr fjar-
lægð en hann er staddur í Bandaríkj-
unum vegna faraldursins. Hann nýt-
ur trausts stuðnings Ásmundar
Hrafns Sturlusonar, sem er hönn-
uður sýningarinnar, og starfsfólks
Listasafns Reykjavíkur.
Heillandi og mikilvæg
Hobbs kynntist verkum Birgis í
Sean Kelly Gallery í New York fyrir
um áratug og segist strax hafa
heillast af þeim. Fyrir tilstilli Barkar
Arnarsonar sem rekur galleríið i8
spurði eigandi gallerísins Hobbs
hvort hann hefði áhuga á að vinna
með verk Birgis. Sýningarskrá sem
Listasafns Íslands hafði gert um sýn-
ingu Birgis vakti athygli hans og
hann sló til. „Ég hugsaði strax með
mér að ég myndi njóta þess að vinna
með verk Birgis. Sú vinna er
heillandi, viðamikil og mikilvæg,“
segir Hobbs.
„Eitt af því sem hefur vakið athygli
mína er sú alþjóðlega hugmynda-
fræðilega sýn sem Birgir hefur.
Hann kynntist þeirri sýn bæði þegar
hann var í listnámi hjá Magnúsi Páls-
syni, Dieter Rith og Robert Filliou í
Reykjavík og í Jan van Eyck aka-
demíunni í Hollandi. Birgir horfði á
íslenskar hefðir frá alþjóðlegu sjón-
arhorni. Svo það er visst samtal eða
spenna sem þróast milli þessara
tveggja póla. Þetta stöðuga samtal
breytir skilningnum á íslenskar hefð-
ir en á móti hafa íslenku hefðirnar
áhrif á hið alþjóðlega sjónarhorn.“
Af virðingu en þó gagnrýninn
Í list sinni leitaði Birgir í brunn ís-
lenskrar menningar, sagna, hefða og
handverks þjóðarinnar. Hann velti
fyrir sér sambandi þess staðbundna
og þess hnattræna og hvernig það
hefur áhrif hvort á annað. Hobbs seg-
ir að það að hann sé sjálfur Banda-
ríkjamaður hafi hjálpað honum að
kunna að meta hvernig íslensk hefð
hefur orðið til í gegnum aldirnar og
sjá utan frá hvernig þjóðerniskennd
Íslendinga var hálfpartinn persónu-
gerð og nýttist í sjálfstæðisbarátt-
unni. Hobbs bendir á að Ísland hafi
breyst mikið og hafi orðið fyrir mikl-
um áhrifum að utan á tuttugustu öld-
inni og því hafi Birgir tekið eftir.
„Birgir skoðar íslenska menningu á
gagnrýninn hátt en þó af væntum-
þykju. Hann ber virðingu fyrir henni
og nýtur hennar en sér líka hvernig
þessi umbreyting hefur orðið. Hann
meðhöndlar þetta með skemmtilegu
háði,“ segir Hobbs.
„Þetta er eitt af þeim verkefnum
það reynist sífellt stærra og mikil-
vægara fyrir listasöguna því meira
sem ég kafa ofan í það. Ég held að
Birgir sé mjög mikilvægur fyrir ís-
lenska listasögu en sé ekki síður þýð-
ingarmikill á alþjóðavísu. Hann var
vinur Lawrence Weiner, þekkts
bandarísks konseptlistamanns. Þeg-
ar ég tók viðtal við Weiner áður en
hann dó lagði hann áherslu á að í
hvert sinn sem hann heimsótti Ísland
þá hefði hann hlakkað til að eyða tíma
með Birgi því hann hefði verið svo
klár og spurt svo gáfulegra spurn-
inga. Birgir var líka kunningi lista-
mannsins Donalds Judd. Birgir var
afar virtur meðal kollega sinna, bæði
á Íslandi og erlendis. Þegar kemur að
konseptlist þá er hann einn af örfáum
sem hafa fengist við liti. Það er svo
erfitt að henda reiður á liti sem fyr-
irbæri og ég held að hann hafi haft
sérstaklega gaman af því.“
Húmorinn skín í gegn þegar Birgir
vann hinar frægu veggmyndir sínar í
litum sem hann kallaði „íslenska“.
Hobbs bendir á að hann sé í raun og
veru að nota sænskt litakerfi, al-
þjóðlegt kerfi, sem hann heldur fast í
að kalla „íslenska liti“. „Hann leikur
sér í raun með hvað er íslenskt og
heldur því opnu. Hvað er þjóðarlitur?
Litur er ekki eitthvað sem þú getur
neglt niður og skilið. Hvernig Birgir
notar liti er gott dæmi um þá kímni-
gáfu sem hann bjó yfir.“
Sem dæmi um annars konar verk
sem tekur á hinu þjóðlega og hinu al-
þjóðlega eru þau sem Birgir kallaði
„Nýbúa“. Hann plantaði fræjum
hinna ýmsu ávaxta í dósum undan
niðursuðuvörum frá Ora og varpaði
þannig ljósi á þann fjölda innflytj-
enda sem streymdi til landsins. Ljós-
myndir Birgis af Oradósunum sem
hafa orðið fyrir erlendum áhrifum
eru meðal þeirra yfir eitt hundrað
verka sem verða til sýnis á Kjarvals-
stöðum.
Verk að láni frá The Met
Listaverkin koma meðal annars úr
safneign Listasafns Reykjavíkur,
Listasafns Íslands og Nýlistasafnsins
en einnig frá innlendum og erlendum
einkasöfnurum. Eitt verkið er síðan
fengið að láni frá The Metropolitan
Museum of Art í New York. Það er
stór veggmynd í fallegum ljósbláum
tón sem er einn af þessum „íslensku
litum“. Sýningarstjórar þar vildu
halda verkinu á íslensku í stað þess
að þýða það yfir á ensku og því stend-
ur skýrum stöfum „Eins lagt og aug-
að eygir“, sem titill sýningarinnar
vísar í. Þá verða einnig til sýnis
prjónuðu fánarnir sem Birgir sýndi á
Feneyjartvíæringnum árið 1995.
Listamaðurinn var alinn upp hjá
blindum foreldrum og bjó með þeim á
heimili fyrir blinda. „Ég held það hafi
haft gríðarleg áhrif á hann og hans
list. Sumir hafa ýjað að því að það
hafi verið synd að foreldrar hans hafi
verið blindir og jafnvel að hann hafi
fundið fyrir sektarkennd yfir að hafa
gerst sjónlistamaður. En í raun var
því öfugt farið. Hann átti í góðu sam-
bandi við föður sinn og það að hann
hafði verið alinn upp meðal blindra
valdefldi hann sem barn. Eftir að
hann gerðist listamaður leiddi hann
foreldra sína um og lýsti listaverkum
sínum fyrir þeim. Það gæti verið ein
af skýringunum af hverju hugmynda-
fræðin á bak við listina varð honum
mikilvæg. Það var honum augljóslega
mikilvægt að geta útskýrt lista fyrir
þeim.“
Samhliða sýningunni kemur út
stærðarinnar bókverk með verkum
listamannsins sem ber titilinn In Ice-
landic Colours. Ragnar Kjartansson,
sem var nemandi Birgis, skrifar for-
mála, Robert Hobbs skrifar um Birgi
frá sjónarhóli listfræðinnar og loks er
í verkinu að finna viðtöl Þrastar
Helgasonar við listamanninn sjálfan.
Þröstur skráði árum saman hnyttni
Birgis og heimspeki, endurminningar
og frásagnir og gaf út á bók árið 2010.
Íslensk menning og alþjóðleg sýn
- Umfangsmikil yfirlitssýning á verkum Birgis Andréssonar opnuð á Kjarvalsstöðum - Sýningar-
stjórinn Robert Hobbs segir Birgi vera mikilvægan fyrir íslenska listasögu sem og á alþjóðavísu
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Uppsetning Í vikunni unnu starfsmenn Listasafnsins hörðum höndum að því að setja upp verk Birgis. Hér má sjá
„Afríku“-röð listamannsins, textaverk sem eru í hinu „íslenska“ litakerfi sem hann notaði mikið í verkum sínum.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Verk „Nálægð, þekking, lestur“ komið upp á vegg á Kjarvalsstöðum.
Ljósmynd/Jean Crutchfield
Sýningarstjóri Listfræðingurinn
Robert Hobbs stýrir sýningunni.