Vesturbæjarblaðið - des. 2021, Blaðsíða 12

Vesturbæjarblaðið - des. 2021, Blaðsíða 12
12 Vesturbæjarblaðið DESEMBER 2021 Bærinn Nauthóll var reistur um árið 1850. Hann var eitt margra nýbýla, sem risu í nágrenni Reykjavíkur á þessum tíma og einn af sex bæjum er byggðust út frá Skildinganesi. Um bæjarhúsin í Nauthóli greinir Sigurður Jónsson í Görðum svo frá í æviminningum sínum, en hann ólst upp í Skildinganesi. „Á Nauthóli var tvíbýli. Bæjarhúsin voru byggð hvort sínu megin við allmikið bjarg og myndaði bjargið sameiginlegan gafl húsanna. Á stríðsárunum, 1940 til 1945, setti setuliðið upp mastur með steyptri undirstöðu þar sem aðalbæjarhúsin höfðu staðið, svo að nær ekkert er eftir af tóftum þeirra.“ Nauthóll var ein af sex hjáleigum Skildinganess. Bærinn stóð skammt norður af samnefndri vík. Hann var við vegarslóða sem lá með sjónum frá Fossvogsdal yfir í Skildinganes. Um síðustu aldamót mun taugaveiki hafa stungið sér niður á Nauthóli og var bærinn þá brenndur að ráði Guðmundar Björnssonar landlæknis. Síðan hefur ekki verið búið þar. Nafn Jósefínu Eyjólfsdóttur var þó kennt alla tíð við Nauthól. Jósefína var áberandi persóna í Vesturbænum í Reykjavík megnið af síðustu öld. Hún var fædd 1893 og lifði í 86 ár til 1979. Jósefína fluttist á Grímstaðaholtið eftir að Nauthólsbærinn var brenndur. Á Holtinu var nokkuð sérstæð byggð og mannlíf. Þorvaldi Gylfasyni prófessor sem ólst upp á Aragötunni segist svo frá. „Þarna uppi á Holtinu bjó fólk af ýmsu tagi, einkum erfiðisfólk. Verkamenn, kennarar, kristniboði, sælúnir sjómenn og Jósefína í Nauthól. Hún stendur mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum með gauðrifna nælonsokkana hangandi á hælunum, sígarettuna neglda við neðri vörina, Chesterfield, minnir mig, nema það hafi verið Lucky Strike, og ískrandi viskírödd af rámustu gerð. Þegar ég kom til Albaníu þrjátíu árum síðar, sá ég fullan sjó af sígaunakerlingum, en engin þeirra komst í hálfkvisti við Jósefínu.“ Stutt á milli himnaríkis og helvítis Í viðtali sem Sigrún Davíðsdóttir tók fyrir Morgunblaðið við Þórarinn Óskar Þórarinsson sem oft hefur verið nefndur Aggi og er barnabarn Jósefínu haustið 1996 fór hann yfir sérstæða sögu ömmu sinnar. Í upphafi frásagnarinnar staldraði hann við Nauthól. Hún sagði að enginn hafi viljað koma nálægt þessum stað. Allt verið ljóslaust. Bara nokkrir torfbæir á stangli. Á milli víkurinnar og miðbæjarins var Vatnsmýrin, sem á þeim tíma gat gleypti fólk með húð og hári. Hóllinn við lækinn var að sögn Jósefínu mikil álfahöll og þarna á unglingsárunum kvaðst hún hafa komist í kynni við mystíkina. Hún sagðist hafa verið í stöðugu sambandi við álfana og trúði á stokk og steina. Hún trúði bæði á himnaríki og helvíti og í hennar huga var stutt þar á milli. Sagði kjet og smér Jósefína var spákona og kvenskörungur. Sumir hafa lýst henni sem miðaldagaldrakonu. Agga segist svo frá, að ef barn fæddist í fjölskyldunni hafi sú gamla viljað ráða uppeldinu og hafði það mest í faðminum. Aggi segist hafa verið í faðmi ömmu sinnar þar til ég var 24 ára að hún dó. Hann segir ömmu sína alltaf hafa verið í slopp, haft skræka og skerandi rödd og talaði hátt eins og öll þessi fjölskylda gerir. Allt hafi komst til skila sem hún sagði. Hún hafi einnig verið flámælt, sagt kjet og smjer og notað skrýtin orð. Hvað var þá betra en fótbolti Halldór Sigurðsson fyrrum farmaður og síðar fisksali var eiginmaður Jósefínu en þau eignuðust ekki börn saman. Hann sá fyrir heimilinu en Jósefína hafði tekjur af spádómunum auk þess að aðrir drógu í bú eftir getu. Halldór var einnig íþróttafrömuður og einn af aðalstofnendum íþróttafélagsins Þróttar. Honum rann til rifja slæpingjaháttur krakkanna á holtinu og í nágennni og taldi að finna þyrfti þeim verðugri viðfangsefni. Og hvað var þá betra en fótbolti og annað íþróttalíf. Aggi ræddi nokkuð um sögu Halldórs í viðtalinu við Sigrúnu. „Halldór mátti muna tímana tvenna, því sem tólf ára laug hann sig inn á norska kaupskipaflotann. Í fyrra stríði sigldi flotinn fyrir Breta og hann var þrisvar á skipi, sem var skotið í kaf. Þótt hann væri ósyndur komst hann alltaf af. Hann var í Arkangelsk þegar byltingin braust út í Rússlandi 1917, hann sigldi á Kína - og endaði síðan á Jósefínu. Við mátum mikils stundirnar á síðkvöldum þegar var friður og hann sagði mér frá siglingum sínum. Þau amma voru alltaf að tala um liðnar stundir og ég hlustaði. Það var eitt sem einkenndi allt þetta fólk: þeim var guðsgefin náttúra að segja sögur. Þannig er öll ætt Jósefínu og þaðan hef ég frásagnargáfuna.“ Sósíal velferð á Holtinu Og Þórarinn heldur áfram lýsingum sínum á Jósefínu ömmu sinni í viðtalinu við Sigrúnu. „Sú gamla eldaði alltaf, enginn mátti snerta neitt í eldhúsinu og þetta stóra hús var alltaf fullt af fólki. Þarna kom fólk til að láta spá fyrir sér og svo lúserar, vesalingar, fyllibyttur, klepparar og ídjótar. Hún eldaði kjötsúpu í potti, sem hefði dugað Afríkunegrum til að sjóða trúboða í. Hún tögglaðist mikið á því að hjálpa minnimáttar. Sagði alltaf að það skipti ekki máli hvort fólk væri skítakamarmokarar eða bankastjórar, því allir væru jafnir fyrir Guði og hún rak eiginlega "sósíal velfer" þarna á Holtinu. Ég man ekki eftir þeim degi að húsið væri ekki troðfullt af fólki. Miðað við normal heimili var þarna alls konar óregla í gangi. Það var tekið létt á að krakkarnir skrópuðu í skólanum og enginn agi hjá ömmu. Ef maður var þreyttur eða illa fyrir kallaður skildi hún það vel og fannst það þrældómur að vera að reka börn upp eldsnemma á morgnana til að fara í skóla. Hún og afi voru hörkudugleg, en hún rak þá pólitík að sjálf hefði hún þrælað svo mikið að afkvæmin ættu að hafa það þægilegt.“ Þórarinn segir Jósefínu hafa verið orðljóta. Hún hafi ekki haft vandað orðbragð og notaði heimatilbúin orð. Hún hafi verið fljót að afgreiða fólk, stimpla það og krossfesta. Hún hafi verið ofsalega bitur út í margt og marga, en lífsbarátta hennar hafði líka verið hörð. Stórvígi Sjálfstæðisflokksins Jósefína og Halldór byggðu sér hús á Grímstaðaholtinu. Byggingarleyfið fengu þau hjá Gunnari Thoroddsen sem þá var borgarstjóri. Þórarni segist svo frá í viðtalinu við Sigrúnu Davíðsdóttur að gamla húsið hafi verið stórvígi Sjálfstæðisflokksins. Sú gamla hafi séð það í spilunum að fólki var betra að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Annars blasti opin gröfin við. Hann sagði húsið hafa verið byggt fyrir daga skipulagsins, en þegar það hafi loks verið samþykkt vildu bæði nágrannarnir og borgaryfirvöld losna við það og allt verið gert til að rífa það. „Það var ekki beint vinsælt hjá nágrönnunum að amma kappkynti með kolum allan ársins hring. Þegar fólkið í blokkinni lagði sig kannski út á svalir á sumardegi átti það á hættu að fá kolareykinn yfír sig.“ Eftir langt samningaþóf fékk Halldór því framgengt að borgin fengi húsið, ef hann fengi annað hús í nágrenninu, því sú gamla gæti ekki hugsað sér að flytja af Grímsstaðaholtinu. Þá fluttu þau á Þrastargötu 9 sem er um 150 metra frá gamla húsinu og bjuggu þar að kostnaðarlausu allt til að þau létust með nokkru millibili. Fékk 14 milljónir í lífeyri eftir dauðann Jósefína átti engin börn með Halldóri en átti eina dóttur áður. Hún hét fullu nafni Steinþóra Eyjólfsína Steinþórsdóttir en var jafnan kölluð Lóló. Hún eignaðist fimm börn hér á landi og öll með útlendingum. Jósefína ól þau börn upp sem lifðu. Móðir Þórarins Óskars eða Agga er elsta barn hennar. Hún átti hann sautján ára með Englendingi, sem bar hið fræga nafn Kipling. Steinþóra fluttist til Bandaríkjanna 1949 eftir að hafa kynnst amerískum vörubílstjóra eða „truck driwer“ eins og það kallast á amerísku. Hún eignaðist einnig börn í Ameríku og missti sum. Ekki mun að fullu vitað hversu mörg þau voru en sjálf mun hún jafnan hafa sagt að það hafi verið fyrir daga pillunnar. Steinþóra bjó um tíma í Danmörku en flutti aftur vestur um haf. Til Minnesota. Hún fékk ríflega fjórtán milljónir Jósefína í Nauthól Jósefína og Halldór ásamt Lóló dóttur Jósefínu og nokkrum barna hennar. - minnisstæð og sögufræg persóna af Grímstaðaholtinu Halldór Sigurðsson, fisksali og æskulýðs foringi, er hægra megin á myndinni. Með honum er fyrsta uppskeran í Þrótti sumarið 1951, strákar sem unnu marga fræga sigra. Lengst til vinstri á myndinni er Halldór Halldórsson, augasteinn Jósefínu eða Bóbó eins og hann var oftast kallaður.

x

Vesturbæjarblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vesturbæjarblaðið
https://timarit.is/publication/1114

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.