Morgunblaðið - 13.10.2022, Síða 44
44 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 13. OKTÓBER 2022
✝
Sveinn Ingi
Garðarsson
fæddist í Reykja-
vík 8. mars 1963.
Hann varð bráð-
kvaddur á heimili
sínu í Ósló 6. mars
2022.
ForeldrarSveins
eru Dagný Þ. Ell-
ingsen, f. 7. janúar
1939, og Garðar V.
Sigurgeirsson, f. 3.
febrúar 1937. Bræður Sveins eru
Óttar Rafn, f. 23. ágúst 1960, d.
17. ágúst 2010, og Benedikt Jón,
f. 18. apríl 1971.
Sveinn ólst upp hjá foreldrum
sínum, lengst af í Aratúni í
Garðabæ. Hann stundaði nám við
skóla bæjarins og lauk stúdents-
prófi frá Fjölbrautaskólanum
þar árið 1983 og í viðskipta-
fræðum frá Ohio University árið
1989. Á námsárunum
vann hann á sumrin
ýmis störf, m.a. í
hvalveiðistöðinni í
Hvalfirði og á tog-
ara. Að loknu námi
starfaði hann lengst
af í ferðaþjónust-
unni; nokkur ár í
Stokkhólmi og síðan
í Ósló. Árið 2000
kvæntist hann
Cathrine Kristiansen
frá Ósló, en þau skildu.
Útför hans fór fram í Ósló 18.
mars sl. og aska hans var flutt til
Íslands.
Minningarathöfn um Svein
verður haldin í Fossvogskap-
ellunni í dag, 13. október 2022,
klukkan 15.
Duftkeri hans verður síðar
komið fyrir við hlið bróður hans,
Óttars Rafns.
Það er svo ótal margt sem kem-
ur upp í hugann þegar við hugsum
til baka um kynni okkar við Svein
Garðarsson. Þetta var þegar við
vorum ung, forvitin og hvatvís.
Þetta voru góðir tímar. Það var
sem sagt aldrei lognmolla í kring-
um okkur vinina sem fylgdumst
að á æskuslóðunum í Garðabæ.
Kjallarinn í Aratúninu, partí eftir
böll eða átta saman á leið í Hollý, á
bremsulausri Volkswagen-bjöllu
með bensíngjöfina tengda inn um
gluggann í bandspotta.
Sveinn lifði lífinu hratt, stund-
um of hratt, og því fylgdi gjarnan
smá vesen. Það var fátt sem stöðv-
aði för Svenna nema kæruleysið
eins og að missa þrisvar af flugvél
á einum sólarhring. Hann fór
þangað sem hann ætlaði sér og oft
með miklum stæl.
Svenni hafði einfaldan smekk á
mat og vín, hann keypti það sem
var dýrast á matseðlinum og vínið
þurfti að vera rautt, gamalt og að
minnsta kosti fjórtán prósent.
Hann var feikilega góður á bók-
ina og skoraði ávallt hátt í prófum,
yfirleitt án þess að mæta í tíma.
Háskólinn hentaði honum sér-
staklega vel þar sem mætingar-
skyldan var lítil. Það kom líka á
daginn að það hentaði honum ekki
að vinna hjá öðrum, nema þegar
hann var á sjó, þar var erfitt að
mæta ekki.
Inn á við bjó alltaf góður dreng-
ur og traustur vinur sem skilur
eftir ótal margar minningar í
hjörtum okkar. Við hefðum öll
kosið að leiðir okkar hefðu legið
oftar saman í gegnum tíðina. Fjar-
lægðin milli okkar var orðin of
mikil.
Við söknum þín.
Ólafur (Óli), Ragnheiður
(Ragga) og Ársæll (Sæli).
Fallinn er frá minn kæri vinur
Svenni. Þrátt fyrir að vera fæddir
á sama ári og ekki mörg húsin á
milli okkar í Aratúninu kynntumst
við ekki fyrr en við 12 ára aldur-
inn. Bráðgerum drengnum lá á að
hefja skólagöngu og var því ári á
undan í grunnskóla. Við vissum
vel hvor af öðrum, bæði sem ná-
grannar og sem sendlar í miðborg
Reykjavíkur. Það var þó ekki fyrr
en við hittumst fyrir tilviljun í
skíðaskála í Kerlingarfjöllum að
við urðum vinir, og ævilöng vin-
átta tókst með okkur. Aldrei var
komið að tómum kofunum hjá
honum þegar rökrætt var um
heimspeki, pólitík eða trúmál eða
annað sem varðaði mannlega til-
veru.
Stóran hluta menntaskólaár-
anna varði Sveinn sem togarasjó-
maður og tók sín próf milli túra.
Ævintýraljómi var á togara-
mennskunni þar sem oftast var
landað í erlendum höfnum. Kjall-
araíbúðin í Aratúninu breyttist í
félagsmiðstöð milli túra og vel var
tekið á tollinum. Að loknu stúd-
entsprófi var stefnan tekin á há-
skólanám í Bandaríkjunum. Með
Óttari, eldri bróðir sínum, og fleiri
vinum var haldið til Ohio þar sem
fjöldinn allur af Íslendingum var
við nám. Varð hann vinmargur á
þeim tíma sem hentaði ágætlega
samkvæmisþörfum piltsins. Eftir
háskólapróf og stutt stopp á Ís-
landi flutti hann til Svíþjóðar þar
sem hann vann hjá frænda sínum
sem seldi Íslandsferðir. Gekk það
vel og ákvað fjölskyldan að stofna
sambærilegt fyrirtæki um sölu á
Íslandsferðum frá Noregi, þar
sem foreldrar hans bjuggu. Gekk
fyrirtækið afar vel til margra ára.
Má segja að vendipunktur hafi
orðið á lífi hans er hann lét af
störfum í fjölskyldufyrirtækinu.
Þúsundir Norðmanna komu til
landsins á þeirra vegum og hann
var tíður gestur í heimalandinu og
gat haldið góðum tengslum við
vini hér. Þjónustuaðilar báru hann
gjarnan á höndum sér í þessum
Íslandsferðum og fékk hann
gjarnan að njóta velvilja þeirra til
að viðhalda sambandi við gamla
vini. Minnisstæðar eru margar
minningar úr þessum heimsókn-
um enda lítið sparað til af veislu-
kostum, er hentaði Sveini vel því
hann sætti sig ávallt aðeins við það
allra besta í mat og drykk.
Aldamótaárið 2000 gekk
Svenni að eiga Cathrine Kristian-
sen. Að hætti Sveins var slegið til
veglegs víkingabrúðkaups í Al-
mannagjá með veislu í Valhöll.
Mér var það heiður að vera hans
svaramaður í brúðkaupinu. Í ræðu
við það tilefni fannst mér viðeig-
andi að líkja honum við fæðingu
og þróun Surtseyjar þar sem
margt er sameiginlegt með þeim,
eins og hvernig tímalína sköpunar
og þróunar er áþekk. Eftir ára-
langa ágjöf hverfa þessi tvö eintök
og verða að forgengilegum minn-
ingum okkar sem eftir lifum að-
eins sekúndubrot á jarðsöguleg-
um tíma.
Eftir atvinnumissi og skilnað
tók við allskrautlegt tímabil hjá
vininum. Um tíma bjó hann í Gam-
bíu þar sem hann tók múham-
eðstrú og giftist þarlendri konu.
Búseta þar hentaði á endanum illa
heilsuleysinu og flutti hann aftur
til Noregs.
Far vel, kæri vinur. Megir þú
finna friðinn hvort sem hann er á
himnaríki, í Valhöll eða hjá meyj-
unum sjötíu og tveim.
Gísli Gíslason.
Sveinn hefur kvatt okkur
óvænt og langt um aldur fram, að-
eins 59 ára að aldri. Það er þung-
bært fyrir okkur sem hann þekkt-
um og enn erfiðara fyrir hans
nánustu að missa nú annan son og
bróður á sviplegan hátt.
Áður höfðu þau misst Óttar
Rafn árið 2010 sem lést af slysför-
um nokkrum dögum fyrir 50 ára
afmæli sitt og var jarðsettur á 50
ára afmælisdegi sínum.
Við kynntumst Sveini fyrst
þegar að hann hóf nám í háskól-
anum í Athens, Ohio University.
Hann reyndist góður námsmaður
enda vel gefinn og lauk námi sínu
með sóma.
Sveinn var góður félagi, örlátur
við vini sína og greiðvikinn en
nokkuð sérlundaður og átti það til
að fyrtast við okkur félaga sína og
á stundum einangra sig. En það
stóð aldrei lengi og skildi aldrei
eftir nokkur sár.
Brúðkaup Sveins og Cathrine
var líklega eitt eftirminnilegasta
brúðkaup þeirra sem voru þeirrar
gæfu aðnjótandi að upplifa það.
Það var haldið á Þingvöllum í blíð-
skaparveðri og að heiðnum sið.
Að hjónavígslunni lokinni döns-
uðu gestir og skemmtu sér fram
undir morgun á Hótel Valhöll á
Þingvöllum. Hús sem nú er horfið
á braut eins og brúðguminn.
Við vinir og fyrrverandi skóla-
félagar Sveins hörmum skyndi-
legt brotthvarf hans en þökkum
honum fyrir þann tíma sem við
áttum með honum.
Við bræður sendum fjölskyldu
Sveins, foreldrum og bróður okk-
ar dýpstu samúðarkveðjur.
Sigurður Bragi Guðmundsson,
Gunnar Karl Guðmundsson,
Ásgeir Heimir Guðmundsson.
Sveinn Ingi
Garðarsson
✝
Óskar Jón-
atansson fædd-
ist á Smáhömrum
við Steingrímsfjörð
16. mars 1924.
Hann lést á hjúkr-
unarheimilinu Ísa-
fold í Garðabæ 30.
september 2022.
Foreldrar hans
voru Jónatan Hall-
dór Benediktsson,
kaupfélagsstjóri á
Hólmavík, f. 26. júlí 1894, d. 5.
mars 1983, og Þuríður Samúels-
dóttir kona hans, f. 19. júní
1903, d. 2. ágúst 2008.
Systkini Óskars eru Svavar, f.
3. júní 1931, kvæntur Mörtu
Gunnlaugu Magnúsdóttur, f. 27.
júní 1936; Ríkarður, f. 25. des-
ember 1932, d. 28. júlí 2002,
kvæntur Þóru Magnúsdóttur, f.
19. ágúst 1932, d. 17. ágúst 2007;
Lára, f. 12. janúar 1936.
Óskar lauk prófi
frá Samvinnuskól-
anum árið 1945.
Hann starfaði sem
bókari hjá Kaup-
félagi Steingríms-
fjarðar frá 1945 til
1955 og sem bókari
hjá Sambandi ís-
lenskra samvinnu-
félaga frá 1955 og
sem aðalbókari SÍS
frá 1960 til 1990.
Eftir starfslok hjá Sambandinu
starfaði Óskar sem bókari í fyrir-
tækinu Lyru í hartnær 20 ár.
Óskar sat í stjórn Átthaga-
félags Strandamanna og Lands-
sambandi íslenskra frímerkja-
safnara og kom auk þess að
útgáfu Strandapóstsins.
Útför hans fer fram frá Vída-
línskirkju í Garðabæ í dag, 13.
október 2022, og hefst hún kl.
13.
Hann nafni minn hefur nú kvatt
okkur í hinsta sinn.
Ég var skírður í höfuðið á hon-
um Óskari frænda, bróður pabba.
Við höfum alltaf verið mjög nánir
frændurnir, allt frá því að ég var
lítið barn, og þær eru margar
stundirnar sem rifjast upp þessa
dagana.
Þegar ég var í pössun á Rauðó,
ungur að árum, var Óss alltaf til
staðar fyrir mig og var óþreytandi
að lesa fyrir mig hin ýmsu ævin-
týri, jafnvel kvöld eftir kvöld.
Stundum fékk ég að skoða frí-
merkjasafnið hans og hann gaf
mér bók til þess að safna frímerkj-
um í, og safnið mitt samanstóð að-
allega af flugvélafrímerkjum. Svo
tókum við af og til eina skák sam-
an eða spiluðum á spil.
Seinna þegar Óss tók loksins
bílpróf, um sextugt, þá fórum við
oft saman í bíltúra. Eitt sinn alla
leið upp að Henglinum. Þar löbb-
uðum við upp á topp en þegar nið-
ur kom var dregið fram tjald og úr
varð þessi fína útilega.
Síðustu árin sín dvaldi Óskar í
góðu yfirlæti á hjúkrunarheim-
ilinu Ísafold og áttum við þar oft
og iðulega góð samtöl um daginn
og veginn. Óskar fylgdist með
fréttum og fylgdist af áhuga með
öllum fréttum af vinnustaðnum
mínum, Icelandair, og fylgdist
gjarnan með gengi hlutabréfanna.
Þar sem Óskar starfaði sem að-
albókari og endurskoðaði marga
ársreikninga má segja að hann
hafi „valið“ brottfarardag við
hæfi, síðasta dag septembermán-
aðar og þar með lokadag þriðja
ársfjórðungs.
Ég á eftir að sakna hans nafna
míns mikið. Hjartahlýrri, ráða-
betri og ljúfari maður er vand-
fundinn.
Ég bið góðan Guð að taka vel á
móti þér.
Hvíl í friði.
Óskar Tryggvi
Svavarsson.
Margs er að minnast, nú þegar
látinn er tæplega tíræður Óskar
Jónatansson, frændi minn, eða
Óss, eins og hann var jafnan kall-
aður í fjölskyldunni. Sagt er að
menn gleymi því slæma en muni
hið góða þegar ævi vina eða ætt-
ingja er á enda runnin. Sjálfsagt er
það oftast rétt, en það á þó ekki við
um Óskar, því allar minningar mín-
ar og okkar systkina um hann eru
einfaldlega bjartar, ljúfar og góðar.
Óskar var ræktarsamur og
frændrækinn. Hann hringdi til
mín nýlega að huga að líðan okkar
systkina eftir að móðir okkar dó
fyrr á árinu. Þá var hann árvakur í
besta lagi og vel með á nótunum.
Vinátta Óskars og föður okkar
var löng og stóð í ein 85 ár, eða þar
til faðir okkar systkina lést árið
2013. Faðir Óskars, Jónatan, og
Elinborg, móðir föður míns, voru
systkini og eftir að Björn afi minn
lést frá fimm ungum börnum árið
1932 var amma mín undir vernd-
arvæng Jónatans um nokkurt ára-
bil. Þeir frændur voru því samtíða
á barnsaldri á Smáhömrum við
Steingrímsfjörð á þriðja áratug
síðustu aldar og síðar á Hólmavík.
Óskar hafði miklar taugar til Smá-
hamra og fór þangað oft, einnig á
meðan ég var í sveit þar á bæ á
öndverðum 7. áratug síðustu aldar.
Gott samband þeirra frænda fór
ekki fram hjá okkur systkinum og
það var spenna í lofti og eftirvænt-
ing þegar von var á Óskari í heim-
sókn. Þá var oftast spilaður lomber
með Tryggva föðurbróður og Mar-
gréti konu hans, einatt með mikl-
um hlátrasköllum. Þeir félagar
höfðu frá æskuárum komið sér upp
afar sérstöku og stundum flóknu
tungutaki þar sem þeir notuðu all-
ar þekktar orðmyndunarreglur ís-
lenskunnar, án þess að þekkja
þær, og ófu þar hinn furðulegasta
vef. Nú eru þau öll horfin úr „ver-
aldar umsvifaþröng“, eins og segir
í sálminum, en sem betur fer náðist
að skrá þessa orðanotkun þeirra
um síðir með hjálp föður míns.
Kunnugt er mér um að Óskar
var bókhneigður og hafði unun af
lestri. Einhvern tíma fyrir löngu
sagði hann mér að sér fyndust Ís-
lendingasögur svo merkilegar að
hann tímdi varla að lesa þær held-
ur vildi treina sér þær til betri
tíma. Ég er ekki frá því að ég sé
sama sinnis. Vonandi hefur hann
þó fundið góðar stundir til lestr-
arins síðar meir. Þá gaf Óskar Sig-
ríði systur minni eitt sinn hefti þar
sem hann hafði vélritað nokkur
kvæði eftir Davíð frá Fagraskógi.
Faðir minn segir frá bernsku-
brekum þeirra nyrðra í bók sinni
Minningar af Ströndum. Meðal
annars sagði faðir minn þegar
hann var spurður með hverjum
hann ætlaði að vera þegar hann
kæmi til Hólmavíkur: „Ég verð
bara einn eða tveinn með Óskari.“
Þegar hann lá banaleguna skrifaði
Óskar honum einstaklega hjart-
næmt bréf og þakkaði honum vin-
áttuna traustu sem stóð alla þeirra
ævi. Þetta bréf kunni faðir minn
vel að meta þótt þróttlaus væri og
gæti ekki svarað því. Nú kveðjum
við systkinin, ég, Björn Valur og
Sigríður, öndvegismanninn Óskar
og þökkum þá blessun að hafa
fengið að kynnast honum.
Þorkell Örn Ólason.
Kæri frændi og vinur, kallið er
komið og þú hefur kvatt eftir
langa og farsæla ævi. Það er erfitt
að kveðja þann sem hefur alltaf
verið til staðar, glaður, áhugasam-
ur og skilningsríkur en þetta er
samt hluti af lífinu.
Þegar ég hugsa til baka þá
varst þú alltaf með, hvort sem það
var að bræður þínir voru að
byggja hús, fjölskyldan að taka
upp kartöflur eða farið var í ferðir.
Minningarnar um þig á Rauða-
læknum eru margar og góðar, það
var alltaf notalegt að heimsækja
ykkur Láru, afa og ömmu og
spjalla saman yfir góðum kaffi-
bolla og nýbökuðum kleinum.
Þegar við Líney byrjuðum
saman fyrir liðlega 40 árum þá
urðuð þið strax góðir vinir og það
hélst alla tíð, þú tókst henni með
opnum örmum og þínu hlýja brosi.
Þú sýndir áhuga öllu því sem við
tókum okkur fyrir hendur og
varst tilbúinn að hjálpa.
Ein af þessum góðu minningum
er frá þeim tíma þegar við byggð-
um okkur hús í Krókamýrinni, þú
komst og lagðir okkur lið og okkar
vinir urðu að þínum.
Í seinni tíð eftir að þið Lára
fluttuð á Strikið breyttist margt
en alltaf var jafn notalegt að koma
til ykkar. Undir það síðasta áttir
þú góðan tíma á Ísafold þar sem
þér leið vel og þú naust góðrar að-
hlynningar frábærs fólks sem þér
fannst vænt um. Börnin okkar og
barnabörn nutu þess að koma til
þín og þú varst alltaf jafn glaður
að sjá þau og naust þess að hafa
þau hjá þér. Aðeins er tæpur mán-
uður síðan þú fylgdist með af
áhuga þegar smalað var á Smá-
hömrum og hafðir gaman af því að
fá símtöl og fréttir úr sveitinni en
Smáhamrar áttu alltaf sérstakan
stað í þínu hjarta.
Við erum þakklát fyrir þann
tíma sem við áttum saman og
minningin um þig lifir.
Líney og Jónatan.
Óskar Jónatansson, eða Óss
eins og hann var oftast kallaður,
var hávaxni blíði frændinn sem
virtist búa yfir óþrjótandi þolin-
mæði, áhuga og kærleik gagnvart
okkur frændsystkinunum sem og
öðrum fjölskyldumeðlimum.
Ég man ekki eftir Óss öðruvísi
en brosandi sínu einlæga og stóra
brosi.
Ég líkt og svo mörg skyld-
menni, gat ávallt treyst á hlýjar
móttökur hjá langömmu Þuríði,
Óss og systur hans Láru á Rauða-
læknum. Minningarnar eru marg-
ar og ná allt aftur í barndóm.
Tröppurnar upp á þriðju hæðina
voru leikvöllur og garðurinn sömu-
leiðis, en skemmtilegast var að
kíkja inn til Óss. Herbergið hans
fól í sér kyrrð en sömuleiðis frum-
leika, líkt og útvarpið sem var
byggt inn í vegginn við rúmið, sér-
staka málverkið eftir Kára Eiríks-
son og óvenjulega löguð borðtölva.
Mér fannst alltaf notalegt að
vera í kringum Óss, og félagsskap-
ur hans hafði róandi áhrif sama á
hvaða aldri ég var. Ég átti heim-
angengt á Rauðalækinn þegar ég
vann í byggingarvinnu í Borgar-
túni við síðustu aldamót og þykir
vænt um minningar af notalegum
kvöldverðum og morgunmat áður
en ég fór í verkamannavinnu og
Óss hélt til starfa sem bókari hjá
Lyru, en áður hafði hann verið að-
albókari Sambands Íslenskra
samvinnufélaga (SÍS).
Þó svo Óss hafi lengi verið stór-
tækur frímerkjasafnari með tengsl
víða um heim, voru það bækur sem
fylgdu honum alla tíð. Upp á háa-
lofti voru staflar af lesnum bókum,
þar á meðal reyfurum, og var hann
lengi áskrifandi að ýmsum bóka-
flokkum. Bókasmekkur hans var
fjölbreyttur allt fram á síðasta dag.
Á seinni árum voru það hljóðbækur
sem veittu honum aðgang að
draumaheimi bókmenntanna með
tilheyrandi ánægju, ég tala nú ekki
um ef lesturinn var góður. Á tíræð-
isaldri upplifði hann tímaleysi í
gegnum skáldskap og sagnfræði
inn á milli þess sem hann dreymdi
skemmtilega drauma um liðna
tíma. Þó hann væri rúmfastur und-
ir lokin, sagði hann mér að í draum-
um sínum hlypi hann um tún og
endurlifði gleðitíma með vinum og
frændum eins og Óla E, ávallt kall-
aður Óli C, á Smáhömrum á
Ströndum, uppeldisheimili þeirra
beggja. Nær dagleg samvera með
afa Svavari, bróður Óss, og Láru
systur þeirra, hafa vafalaust aukið
á lífsfyllingu og endurminningar
langrar ævi.
Að tala við Óss var alltaf samtal
sem gat farið vítt og breitt sama
hversu stutt það var. Ég mun
sakna samtala sem og hlýrra faðm-
laga frá Óss. Ég heyri enn óminn
af stóru ljúfu röddinni sem ávallt
yljaði mér um hjartaræturnar.
Ég, Svavar litli, kveð góðhjart-
aða stóra frænda minn hann Óss
með þakklæti efst í huga.
Svavar Jónatansson
(Svavar yngri).
Óskar Jónatansson
Minningarkort á
hjartaheill.is
eða í síma 552 5744