Borgfirðingabók - 01.12.2014, Page 28
28
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2014
en alltaf nefndur Sokki seinni hluta ævinnar og ég þekkti aldrei annað
nafn á honum.
Við sviplegt fráfall Guðmundar Stefánssonar 5. okt. 1936 komst
Sokki í eigu Axels Hallgrímssonar (1895-1992), sem þá var ráðsmaður
ekkjunnar Kristínar Þórðardóttur á Lambastöðum. E.t.v. hefir Sokki
verið kominn í tamningu til Axels áður og ekki þótt ráðlegt að hafa
mannaskipti á honum svo stórbrotinn og erfiður sem hann var í
tamningu.
Þótt Sokki væri erfiður í tamningu var hann aldrei hrekkjóttur því ef
svo hefði verið var hann ótemjandi með öllu. Það var viðkvæmni hans
og styggð sem gerðu hann svo vandmeðfarinn sem raun bar vitni. Þegar
á bak var komið var hann viðbragðssnöggur og snarráður, viljamikill
en taumléttur. Hreyfingar hans voru ullmjúkar með mikilli fótlipurð
en fótlyftan þætti ekki mikil í dag, þó ágæt þætti á þeim tíma. Fyrstu
skiptin sem Axel kom honum á bak hlýtur honum að hafa fundist sem
hann sæti á púðurtunnu, sem gæti sprungið þá og þegar. Skapgerðin var
tvíþætt, annars vegar stórbrotinn víkingur en hins vegar viðkvæm og
lítil, sem auðvelt var að brjóta niður með rangri meðferð. Gangurinn
var fjölhæfur, brokkið mjúkt, sem hann var lítið látinn nota enda erfitt
um vik vegna eðlislægs töltgangs hans. Um sumarið 1939 vorum við
Axel saman í vegavinnu og hafði hann orð á því áður en Sokki var allur,
að næsta vetur ætlaði hann ,,að ríða hann vakran“ eins og hann orðaði
það. Þá vildu menn ekki æfa unga hesta til skeiðs. Sjálfsagt hefir bygging
eða vaxtarlag Sokka ekki verið gallalaust en hafi svo verið sást það ekki
þegar Axel var sestur á bak. Sokki var holdgrannur alla ævi jafnvel svo
að til lýta þótti. Kannski hefur þess vegna notast betur að léttleika hans
og fótalipurð.
Þessi formáli að lýsingu á Sokka er orðinn lengri en ég ætlaði í fyrstu
enda komið að lokum þessarar frásagnar þó tilefni hennar sé ósagt.
Það sem hér fer á eftir man ég eins og gerst hefði í gær. Svo mikil áhrif
hafði það á mig enda stóð ég í sömu sporum nokkrum mánuðum áður
að missa reiðhest minn sem var samfeðra Sokka. Slík lífsreynsla er örðug
hesthneigðum unglingi.
Árið 1939 var Axel heimilsmaður á Grímsstöðum og í vegavinnu það
sumar. Það var sunnudagskvöld í júlí. Kvöldhúmið var að breiðast yfir
og stutt í sumarrökkrið. Flestir verkamanna voru komnir úr helgarfríi
og stóðu í góða veðrinu utan við tjöldin. Þá kom Axel niður nýlagðan
veginn, reið Sokka, rak á undan sér tvo eða þrjá lausa hesta og fór greitt.