Borgfirðingabók - 01.12.2014, Síða 32
32
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2014
En hver var Þórður blindi?
Hann var fæddur að Mófellsstöðum
29. júní þjóðhátíðarárið 1874, elstur
tíu systkina er upp komust. Foreldrar
hans voru þau Jón Þórðarson og kona
hans, Margrét Einarsdóttir, er höfðu
hafið búskap þar þremur árum fyrr.
Þórður fæddist með skerta sjón en
sjö ára gamall missti hann skyndilega
sjónina með öllu; hann var staddur úti
á túni og kvartaði um að það væri orðið
svo dimmt að hann rataði ekki heim. Í
barnshugann höfðu þó greypst myndir
sem hann mundi æ síðan, svo sem af
foreldrum hans, en greinilegust var þó
myndin af stjörnubjörtum himni vetrarkvölds sem hann geymdi í huga
sér allt til æviloka.2 Og ekki má þá gleyma því hve Þórði varð hinn hvíti
litur fífunnar minnisstæður.3 Engin ráð voru við augnsjúkdómnum og
við blinduna mátti Þórður því búa æ síðan. Margir hefðu bugast við
það og orðið sér og sínum „til sorga og þyngsla“, eins og sóknarprestur
Þórðar skrifaði. En Þórður lét ekki hugfallast enda búinn miklu þreki
og óvenjulegum viljakrafti, auk glaðværðar er einkenndi dagfar hans alla
ævi. Eins og gjarnan gerist þroskuðust önnur skilningarvit hans að sama
skapi meir sem sjónina þraut; hann var að eðlisfari sérlega verklaginn og
í handverki sínu náði hann fágætum árangri.
Þórður átti alla ævi sína heima á Mófellsstöðum, við hlið bróður síns,
Vilmundar og konu hans, Guðfinnu Sigurðardóttur, er þar bjuggu, sem
og systkina sinna, Guðmundar og Júlíönu, á heimili er var alla tíð þekkt
fyrir samheldni, hlýju, ástúð og frábæra rausn, svo vitnað sé til orða
heimildarmanns er vel þekkti til þar.4 Heima á Mófellsstöðum naut
Þórður sín og þar gat hann þroskað og nýtt hæfileika sína og lagt heimili
og samfélagi það lið er gerði hann þjóðfrægan. Þórður eltist vel, var
alla tíð heilsugóður, og náði háum aldri. Þórður lést 6. ágúst 1962, þá
liðlega 88 ára gamall, ókvæntur og barnlaus. Hann var lagður til hvílu í
Hvanneyrarkirkjugarði.
2 Mbl. 14. ágúst 1962. Ólafur Hansson í minningargrein um Þórð.
3 Davíð Pétursson í samtali við BG 28. apríl 2014.
4 Mbl. 14. ágúst 1962. Ólafur Hansson í minningargrein um Þórð.
Þórður Jónsson – á yngri árum.