Borgfirðingabók - 01.12.2014, Page 36
36
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2014
sumarið fór í hönd og mér gafst ekki tími til þess að eiga við
smíð ina fyrr en um haustið. Ég man nú ekki hvað það tók mig
langan tíma að ljúka við gripinn, en sögin heppnaðist vel og ég
var í sjöunda himni, þegar verkinu lauk. Og munurinn maður, að
rista í hrífusköftin, eða saga til klifberana, ja, ég ætla nú ekki að
lýsa því.10
Með undarlegum hætti gat Þórður auðveldlega „séð fyrir sér“ áhöld
og smíðisgripi með þessum hætti og endurskapað þá. Eitthvert sinn á
Þórður að hafa handleikið silfurdósir gests, sem að Mófellsstöðum kom,
og sagt: „Þær eru prýðilega smíðaðar þessar dósir, en mér sýnist þær
mjórri í annan endann“, og til enn frekari áherslu hækkaði hann róminn
og bætti við hárri og hvellri röddu: „Það sé ég vel.“ Gesturinn þagði um
stund en sagði svo stundarhátt: „Já, – víst er þetta sjón“.11 Þórður blindi
þroskaði með sér undravert næmi í fingurgómum sínum. Það næmi var
öðru fremur sjón hans.
Kristleifur fræðimaður Þorsteins son frá Stóra-Kroppi skrifaði í bréfi
sínu til Vestur-Íslendinga árið 1934, m.a.:
Ég man ekki, hvort ég hef nokkurn tíma sagt ykkur frá Þórði
blinda á Mófellsstöðum í Skorradal. Hann á fáa sína líka . . .
Þórður er orðinn þjóðkunnur fyrir hagleik sinn og hugvit . . .
Verða menn sem sjá Þórð smíða, undrandi sökum hraða hans og
leikni, og hver smíðisgripur, sem frá hans höndum kemur, ber
vott um frábæra vandvirkni. Þórður er greindur maður og glaðvær
og leikur við hvern sinn fingur, þegar gesti ber að garði. Og þeir
eru margir, sem koma að Mófellsstöðum til þess að sjá þennan
þjóðhaga, sem hefur vakið svo mikla eftirtekt. – Í haust var flutt langt
og merkilegt útvarpserindi um Þórð, sem gerði hann landskunnan,
og áður hafði hans verið lofsamlega minnzt í blöðum og tímaritum.
Þórður fer oft til Reykjavíkur og velur sér þar efni til smíða, og við
það er sem hann hafi augu á hverjum fingri, svo er hann öruggur að
velja aðeins það bezta, eftir að hafa farið höndum um efnið. Þórður
sækir stjórnmálafundi og fylgist vel með landsmálum. Nú hefur hann
útvarpstæki og með því opnast honum nýr heimur og hafa með því
10 Gísli Sigurðsson: „Ég klappaði saman lófunum og bergmálið hjálpaði mér að rata“.
(1958), 32.
11 Mbl. 14. ágúst 1962. Guðlaugur Einarsson í minningargrein um Þórð.