Borgfirðingabók - 01.12.2014, Page 37
37
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2014
losnað að nokkru leyti fjötrar þeir, sem á hann hafa verið lagðir alla
þessa dimmu daga.12
Það má geta nærri hve mikilvægur Þórður var ekki aðeins heimili sínu
heldur einnig nágrönnum hvað alla trésmíði varðaði, og það á þeim tíma
þegar flestu varð að bjarga heima fyrir. Á nútímamáli mætti ef til vill tala
um Þórð blinda sem stofnun, fyrirtæki í héraði, sem menn reiddu sig
á. „Ef tindur brotnaði í hrífu, klyfberi losnaði úr festingu eða vagnhjól
skekktist undir hlassi, þá var leitað til Þórðar“, skrifaði smaladrengur
sem var á Mófellsstöðum árin 1931-1935 og hann bætti við
. . . Það var ekki ótítt þegar ég . . . var staddur uppi í fjalli í leit að
hrossum, að ég pírði forvitniauga niður á Indriðastaðaflóann. Iðulega
kom ég þá auga á einhverja þúst nálgast upp og nær, og þegar hún
kom í greinilegra sjónmál mátti gjarnan sjá ríðandi mann, sem reiddi
brotið amboð fyrir framan sig á hnakknefinu, teymdi burðarklár
klyfjaðan einhvers konar búvinnuvélum. Og Þóður lappaði upp á
flesta brotamunina, oft og tíðum með ærinni fyrirhöfn og hugviti,
og enga man ég fara vonsvikna til baka af fundi hins þjóðhaga,
blinda manns.13
Og það heyrir til sögunni að á meðan beðið var lagfæringanna eða þegar
gripurinn var sóttur heill naut gesturinn beina í Mófellsstaðaeldhúsi hjá
henni Guðfinnu, mágkonu Þórðar blinda. „Um áratugi smíðaði [Þórður]
orf og hrífur fyrir íbúa Skorradals og nágrannasveitanna“ skrifaði Ólafur
Hansson í minningarorðum um Þórð og bætti við: „Einnig smíðaði
hann kommóður, kistur, koffort og kistla . . . Eru margir þessarar gripa
hin mesta dvergasmíði ,svo að erfitt er að fá ókunna til að trúa því að
þeir séu gerðir af blindum manni . . . Ýmsir smíðagripir Þórðar hlutu
verðlaun á iðnsýningum.“14 Fyrstu viðurkenninguna af því tagi hlaut
Þórður á Iðnsýningunni 1911 og þá „fyrir trjesmíði.“15 Riddarakross
Fálkaorðunnar var Þórði veittur í september árið 1954 fyrir starfið
„þjóðhagi“.16
12 Kristleifur Þorsteinsson: Fréttabréf úr Borgarfirði (1966),165-166.
13 Mbl. 14. ágúst 1962. Guðlaugur Einarsson í minningargrein um Þórð.
14 Mbl. 14. ágúst 1962. Ólafur Hansson í minningargrein um Þórð.
15 Vísir 18. ágúst 1911.
16 http://www.forseti.is/Falkaordan/Skrayfirorduhafa/ Lesið 28. apríl 2014.