Borgfirðingabók - 01.12.2014, Page 40
40
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2014
hann. Hver hlutur varð nefnilega að vera á sínum stað. Í hlut barnanna
kom að aðstoða Þórð í ýmsum verkum en líka að nema af honum
fjölmargt því af mörgu hafði hann að miðla. Vegna efnispantana o.fl.
þurfti Þórður stundum að komast í landsíma. Símstöð kom snemma að
Grund en síðar kom einnig símstöð að Indriðastöðum og þangað fylgdi
þá eitthvert barnanna honum jafnan. Kaldáin er á milli bæjanna, þá
óbrúuð, grýtt og ekki greið yfirferðar. Við ána fór Þórður í stígvélin, tók
fylgdarmanninn á bakið og óð hiklaust út í ána eftir að hafa spurt „Er
það ekki beint?“22 . . . Annars kvaðst Þórður rata eftir hljóðinu: „Það er
einhvers konar bergmál“, útskýrði hann fyrir ungum nágranna sínum.23
- - -
Þeim fækkar sem muna Þórð blinda. Einn er þó sá enn til frásagnar
sem gjörþekkti hann. Það er bróðursonur hans, Bjarni Vilmundarson
á Mófellsstöðum, en þeir áttu samleið þar um aldarþriðjungs skeið. Ég
ræddi við Bjarna, sem nú er einn eftirlifandi Mófellsstaðasystkinanna
yngri, um Þórð blinda og fara kaflar úr frásögn Bjarna hér á eftir:24
Ég spurði Bjarna fyrst hvort Þórður hefði gengið að heyskap þar á Mó-
fellsstöðum:
Heyskap, ég er nú hræddur um það. Hann var mjög liðtækur. Það
var allt hey í tóftum þá, og heyið flutt heim bundið í böggum.
Þá var Þóður til staðar heima að taka sáturnar og rétta þær upp
í garðinn til að hlaða heyinu þar niður. Það stóð ekkert á því því
hann var vel að manni. Eftir að búið var að byggja hlöðuna og
heyið var reitt heim á hestum, klyfberum og reiðingi var hann
ásamt okkur krökkunum heima til að taka heyið af klakknum og
bera það inn í hlöðu. Lestin var teymd upp að hlöðudyrunum,
og þar hélt ég eða eitthvert af börnunum í klárana. Svo fór
hann bara meðfram lestinni, tók hverja sátu og svipti henni á
öxlina og bar hana að og henti henni inn í hlöðuna, þangað til
allt var komið inn. Þetta stóð ekkert fyrir honum. Svo þegar allt
var komið inn og lestin farin aftur út á engjar, þá leysti hann úr
22 Bjarni Vilmundarson í samtali við BG 27. apríl 2014.
23 Óskar Þórðarson: „Minnisstæður maður“. (1982), 163.
24 Bjarni Vilmundarson í samtali við BG 3. október 2013.