Borgfirðingabók - 01.12.2014, Blaðsíða 85
85
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2014
Ása verk af ýmsum toga, hugsaði heim og leitaði fanga fyrir sköpun sína
í þjóðararfinn svo sem torfhleðsluna og fl. Hún óf verk sem einkenndust
bæði af skörpum og mjúkum línum, dökkum og ljósum litum. Ása notaði
norska ull sem hún litaði sjálf og þróaði við það sérstaka litunaraðferð og
einnig notaði hún hör í verk sín.
HEIM TIL ÍSLANDS
Ása og fjölskylda fluttu heim til Íslands 1984 og keyptu hús í Hafnarfirði
og hún gerðist meðlimur í Gallery Hallgerður Langbrók, sem nokkrar
textíllistakonur stofnuðu og hóf göngu sína sama ár. Þrátt fyrir að
heilsan væri ekki alltaf upp á það besta vann Ása mjög mikið árin eftir
heimkomuna. Ásamt því að sinna listinni, heimili og barni, kenndi hún
meira og minna við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og var í nefndum
og ráðum Félags íslenskra myndlistarmanna. Enn fremur var hún í
fulltrúaráði Nordisk Konstförbund. Nokkrum árum eftir heimkomuna
leitaði Ása hugmynda í forna myndlist og fór að nota gotneskt skriftletur
og myndstafi úr íslenskum miðaldahandritum í verk sín, einkum texta
sem hún sótti í Jónsbókarhandrit, en í þeim er hin forna lögbók okkar
Íslendinga. Fyrstu verkin sem hún vann upp úr handritunum voru
útsaumuð teppi, þrjú stór og tvö minni. Seinna óf Ása tvö stór teppi
af sama toga, enn fremur vann hún handritamyndir sínar í verk með
blandaðri tækni. Í þær myndir notaði hún líka margskonar efni, svo
sem akrýlmálaðan striga og pappír. Hún málaði með vatnslitum á mjög
þunnan vatnslitapappír sem hún límdi ofan á striga eða pappír. Það
sama gerði hún við efni er hún saumaði með saumavél, sem líkja má við
mjög gisið þráðaverk sem hún saumaði líka sem sjálfstæð textílverk. Ása
notaði ekki aðeins texta úr fornritum í myndir sínar heldur einnig texta
úr ýmsum ferðahandbókum og pöntunarseðlum, sem bændur sendu
í Lefolí verslunina á Eyrarbakka, þar sem föður langafi hennar vann
sem skrifstofumaður. Í Biblíuna sótti Ása texta sem hún skrifaði með
eigin rithönd og setti í myndirnar. Þessar myndir eru mjög fjölbreyttar
að gerð, gjarnan með tvær hliðar, framhlið og bakhlið sem oft grillir
aðeins í. Á næstu tveimur áratugum eftir heimkomuna heldur Ása
margar einkasýningar, bæði hérlendis og erlendis og tekur þátt í fjölda
samsýninga (sjá ferilskrá). Árið 1988 leggst starfið í Hallgerði Langbrók
niður og Ása kaupir kjallaraíbúð á Bræðraborgarstíg í Reykjavík. Þar
vinnur hún að listsköpun sinni ásamt ýmissi annarri vinnu, m.a sem