Borgfirðingabók - 01.12.2014, Qupperneq 154
154
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2014
sem hann þekktu. Hann gætti lambanna í afgirtu hólfi, sem þá var að
nokkru tún, en annars grasmói; skammt frá hlöðunni, þar sem verið var
að láta niður heyið af Blettunum. Honum þótti Gísla dveljast, vissi að
hann hafði komið að sunnan kvöldið áður, fram á vegarenda, sem þá var
milli Gilsbakka og Kolsstaða. Á Þorvaldsstöðum var mikið hey í sæti, en
fáliðað heima til að binda. Því taldi Markús víst, að Gísli hefði farið að
binda og dveldist því.
Nokkru eftir hádegi, þó kannske nær nóni, finnst mér að það hafi
verið, að ég fór heim til að sækja þorstadrykk handa þeim sem við
hlöðuna voru. Þegar ég kem út og aðeins niður á heimreiðina, heyri ég
einhvern ókennilegan dyn í lofti og fer að svipast um. Er að koma bíll?
Það var nú von á Gísla. En í þeim svifum kemur Markús austur fyrir
fjárhúsa hornið með reipi í höndunum, sem hann er að gera upp. Heyri
ég þá að hann kallar hástöfum: „Flugvél, flugvél “, með mikilli áherzlu.
Nú verður mér litið til lofts og sé þetta furðuverk æða úr útsuðri, ekki
hátt á lofti. Mér varð það fyrir, af því ég var staddur við traðargirðinguna,
sem var úr vírneti, að ég prílaði upp í næsta girðingarstaur, til að sjá
betur!! Þaðan horfði ég á eftir vélinni ösla djúpan himinbláma þessa fagra
sólskinsdags, uns hún hvarf inn yfir heiðina, á leið til Akureyrar. Þarna
var á ferðinni Charles A. Lindbergh, amerískur flugkappi af sænskum
ættum. Þá var hann heimsfrægastur allra flugmanna og var fyrir stuttu
kominn fljúgandi til Íslands ásamt konu sinni, en hafði nokkru fyrr,
minnir mig, fyrstur flogið yfir Atlantshaf í áfanga milli Ameríku og
Bretlandseyja. En ekki kem ég nú fyrir mig hvort það var fyrr en þetta,
eða síðar, sem barni þeirra hjóna var rænt og það drepið, en það mál var
mjög umtalað í heimsfréttunum um sinn.
Þetta var fyrsta skipti, sem ég sá flugvél. Ógleymanleg stund enn, eftir
sjötíu ár.
Gísli kom með bílinn er liðið var á dag. Þá rákum við, sem heima vor-
um, lömbin inn með honum og Markúsi. Síðan voru þau dregin út úr
húsinu, eitt og eitt, og lyft á bílinn. Í hópnum var ein gimbur falleg-
ust. Við heyrðum á Markúsi að honum fannst hún of falleg til að fara
þessa ferð. Svo kynlega vildi til, að Markús dró hana út. Þegar hann var
kominn í dyrnar með hana, sleppur hún úr höndum hans og hleyp-
ur rakleitt austur fyrir hús og að mig minnir í opið túnhliðið og var
á burtu, en enginn viðstaddra í standi til að elta hana uppi. Markús
tautaði í barminn: „Æ, ég held hún megi fara“. Við hlógum, því okkur