Borgfirðingabók - 01.12.2014, Page 156
156
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2014
Þannig leið þessi fagri sólskinsdagur til enda. Önn fólksins hafði
skilað árangri í tæpum hundrað heyhestum velverkuðum í hlöðu. Mér
finnst æska mín hafa verið rík af slíkum dögum. Þessum sigurdögum
í striti daganna, sem létu þá erfiðu gleymast, rigningarvikurnar þegar
ekkert miðaði við þurrkinn, bara staðið við slátt í olíugallanum.
Það er lyginni líkast, hvernig heyskapurinn hefur breytzt frá þessum
tíma, til þess sem nú er. Þrjár til fjórar manneskjur sópa saman á viku
heyforða á við þann – og meiri og betri þó – sem tíu eða tólf náðu
áður í átta eða níu vikna striti – ef vel gekk. Áþján óþurrkanna er að
verulegu leyti létt af fólkinu – þó ekki sé fyrir að synja, að óþurrkasumur
á við þau verstu á liðinni öld, svo sem 1913, 1926, 1936, 1947, 1955,
1959 og helzt þó hið versta af þeim öllum, 1969, gætu enn gert strik í
reikninginn. En á móti hefur sumarið glatað hinum ólýsanlega ilmi úr
heyi og jörð úthagans, sem gældi við nasir allan engjasláttinn.
Meðan börn mín voru ung, sagði ég þeim stundum söguna af því þegar
ég sá fyrst flugvél, sem gerði þennan yndislega ágústdag eftir minni legri
en aðra slíka. En það fannst mér alltaf merkilegt, að þeim, börnum
tækni aldar, sem frá blautu barnsbeini höfðu séð þessi undur á himni,
fannst ekkert frásagnarvert við að sjá flugvél í fyrsta sinn. En hitt var
þrot laust skemmtunar- og aðhlátursefni – að ég skyldi klifra upp í
girðingar staur til að sjá hana betur.
Í ágúst 2003