Borgfirðingabók - 01.12.2014, Page 164
164
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2014
sæva og hafði ekki aldur til að fylgja þeim sem eldri voru og tygjuðu sig
af stað á morgnana með nesti til dagsins, sundföt og handklæði að læra
að synda suður í Áslaug. Og ekki getur greinarhöfundur svarið fyrir það
að hafa farið einförum að vatna músum og vorkenna sjálfum sér þau
yfirþyrmandi örlög að hafa ekki öðlast hlutgengi í því rómaða samfélagi
aldurs vegna. Að minnsta kosti í eitt skipti eða tvö.
Einhvern veginn þreyði maður nú samt Þorrann og Góuna. Árin liðu
og systir og frænka urðu of stórar til að vera í sundi lengur. Röðin var
loksins komin að okkur bræðrum að nema þessa ágætustu íþrótt íþrótta.
Og ekki ætlaði maður nú að láta sinn hlut eftir liggja í þessu fremur en
öðru. Heyrt höfðum við um sundfimi þeirra Bergþórs í Fljótstungu,
Þorsteins á Húsafelli og Steinbjarnar á Háafelli. Sagt var með sanni að
þessir menn hefðu hvorki þurft vað eða ferju til að komast yfir Hvítá.
Það var sagt, að meðan þeir voru ungir og frískir hefðu þeir bundið föt
sín á bakið og synt ána nálega hvar sem þeir komu að henni, ef þeir
þurftu á annað borð að komast yfir. Ekki þarf að efa hvílík þrekraun
slíkt sund hefur verið. Hvítá verður hvergi neðan Hraunfossa heitari á
sumrin en rúmlega 5 gráður á Celsius og straumþung að auki. Af þessu
má sjá að markið hefur verið sett hátt hjá undirrituðum og hans ágæta
bróður, þó aldrei kæmust þeir með tærnar þar sem framantaldir menn
höfðu hælana. Urðu þó um síðir sæmilegir sundmenn báðir tveir.
Á þessum árum var brúin auðvitað ekki komin á ána hjá Bjarnastöðum,
líklega þó verið orðin til sem hugarfóstur einstöku manna, sem ekki varð
að veruleika fyrr en mörgum árum seinna. Nærtækasta samgöngutækið
til að komast yfir var ferjan á Bjarnastöðum. Einhver fullorðinn varð að
ferja okkur yfir á morgnana og sækja okkur svo aftur seinnipart dagsins,
eða þegar kennslu var lokið. Minnist ég þeirra Bjarnastaðafeðga við
þann starfa, auk föður míns, sem ók okkur þá að og frá ferjustaðnum
þegar hann eignaðist jeppa.
Ekki rekur mig minni til að hafa nokkru sinni heyrt þess getið að þeir
ferjumenn fengju nokkurn tíma goldið það ómak og álag sem þetta
skapaði þeim. Má þó vera án þess ég viti, en varla myndi farandi fram á
það við nokkurn mann að bæta því um líku ofan á ærinn vinnudag um
hávorið án þess nokkurt gjald kæmi fyrir.
En í þá daga gerðu menn nú svo margt samfélaginu til góða án þess
að krefjast þóknunar. Sérstaklega minnist ég hans Jóns okkar á Bjarna-
stöðum í sambandi við þetta tilstand, góðlátlegrar kerskni hans og