Borgfirðingabók - 01.12.2014, Blaðsíða 166
166
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2014
á þessum árum við laugina í Stóra-Ási. Engir búningsklefar, engar
sturtur og alls ekki neitt af þeim hlutum sem nú þykja sjálfsagðir og
tilheyra slíkum stöðum. Og ekki þætti það heilbrigðiseftirlit merkilegt
nú í dag sem ekki lokaði sem snarast þeim sundstað þar sem sundgestir
kæmu hlaupandi óbaðaðir út úr fjárhúsi beint ofan í laugina. Nema
hvað, - engum þótti neitt athugavert við þetta og öruggt að engum varð
nokkurn tímann meint af.
Til þess var ætlast að hvílst væri á milli þeirra tíma sem kennt var,
klukkustund í einu eða svo. En afskaplega getur það nú verið erfitt að
hvíla sig í heilan klukkutíma þegar maður er alls ekkert þreyttur og
auk þess í hópi jafnaldra sem eru líkt á sig komnir. Þess vegna varð nú
það, þar sem heyfyrningarnar hans Kolbeins heitins í Stóra-Ási, bæði
galtabrotið fyrir sunnan hlöðuna og stabbinn í hlöðunni sjálfri, buðu
upp á ákjósanlegustu aðstöðu fyrir þá ágætu leiki „fallin spýtan“ og
„yfir“, að mestur parturinn af hvíldartímanum fór til þeirra hluta.
Ég hef áður minnst á aðstöðuna til að klæða sig úr og í. Það voru
sem sé fjárhúsin. Urðu þar við jafnan hlut að búa stelpur og strákar í
fullkomnu samræmi við það jafnrétti kynjanna sem síðar varð. Þó höfðu
forstandsmenn þessara námskeiða þá varúð á, sakir velsæmis og siðsemi,
að skikka strákum í eitt hús og stelpum í annað. Að vísu var veggur á
milli sem náði upp í þak, þó ekki væri svo hár að þeir strákar sem best
voru úr grasi vaxnir næðu að kíkja yfir í stelpnahúsið um rifuna milli
þaks og veggjar, ef þá langaði til að láta eftir sér slíkan dónaskap. Ef
upp komst um slíka pörupilta mátti oft heyra hin ámátlegustu hljóð og
skræki úr þeirri krónni sem stelpurnar voru í. Einu sinni hefndu þær
grimmilega þessara uppátækja.
Í það skiptið höfðu þær orðið eitthvað seinni en við, strákarnir, að
klæða sig úr og komast ofan í laugina. Og auðvitað datt okkur ekki í
hug að það kæmi til af öðru en venjulegu stelpuseinlæti, okkur datt ekki
í hug að neitt byggi þar á bak við.
Það kom þó á daginn.
Þegar tíminn var búinn og við strákarnir ætluðum að fara að klæða
okkur í fötin gaf heldur á að líta. Þar var allt í einni stertabendu, buxur,
skyrtur og peysur á tvist og bast. Sumt bundið kirfilega upp í sperrur og
utan um stoðir, annað alls ekki sjáanlegt.
Hófst nú hið mesta basl við að leysa niður föt og finna týnd, töfðumst
við vegna þess arna vonum lengur. Allt í einu er rekið upp ægilegt heróp
mitt á milli okkar, ásamt tilheyrandi híi og hlátrasköllum. Vissum við