Borgfirðingabók - 01.12.2014, Page 172
172
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2014
Hann kenndi tvö vor, 1947 og 1948. Hann mun þá hafa verið 16 og 17
ára gamall, eða með öðrum orðum lítið eldri en við krakkarnir sem hann
kenndi. Hann hafði einstakt lag á að fá okkur krakkana til að gera okkar
besta, hvort heldur var í leik eða starfi. Auk þess hafði hann í fórum
sínum gítar sem hann var óspar að slá og láta okkur krakkana syngja ef
ekki viðraði til útileikja á milli kennslutíma. Hann var leiðbeinandi sem
hélt fullkomnum aga án þess að vera nokkurn tímann strangur.
Oddur Sveinbjörnsson kenndi sund síðasta vorið sem ég fór til laugar
í Stóra-Ási. Hann var ágætur íþróttamaður og jafnvígur á flest. Auk
sundkennslunnar sem hann rækti af kostgæfni, var hann áhugamaður
um frjálsar íþróttir og varði að jafnaði nokkrum tíma á degi hverjum
til leiðbeiningar á því sviði. Hann var góður félagi og eftirminni leg
fyrirmynd öllum sem honum kynntust þótt árin líði.
Og þannig liðu þessir dagar við nám og leiki. Þessi hálfsmánaðartími
á vori hverju, meðan jörð gréri, nótt var björt og mannlíf mótaðist.
Auð vitað varð árangur af námi hjá hverjum og einum misjafn, rétt eins
og gengur og gerist. Flesir komust þó á flot, aðrir ekki í það skiptið en
áttu þó kost á að bæta sér það upp næsta vor. Höfðu þá allt að vinna
og engu að tapa. Þess bera vitni gulnuð blöð, eða réttara sagt gulnuð
skjöl niður í skúffu og greinarhöfundur fann nýlega. Sundskírteini, 28,
29 og 30 ára gömul, prentuð á þykkan pappír. Þar er mynd af pilti og
stúlku á sundklæðum á gangi meðfram sjó. Önnur tvö ungmenni þreyta
fagur legt skriðsund undan landi og lengra til hafs má líta skútu með
vind segl og fokku líða hjá í hægum byr. Ekki gátu aðrir en handhafar
slíkra skírteina talist menn með mönnum og vei þeim sem ekki náðu I.
stigi í sundi eftir tveggjanámskeiðatilraunir.
Ég hygg að okkur öllum sem tókum þátt í sundnámskeiðunum í
Stóra-Ási á þessum árum, og nú erum komin á og yfir miðjan aldur,
standi þessir dagar fyrir hugskotssjónum jafn ljóslifandi og meðan þeir
liðu.
Þá var lífið ennþá leikur og maður hlakkaði til morgundagsins þegar
lagst var til hvíldar að kveldi með notalega þreytutilfinningu í öllum
skrokkn um eftir busl í vatni og leiki liðins dags.
Þessi frásögn er áður birt í afmælisriti Ungmennafélagsins Brúarinnar árið 1982.
Teikningar: Bjarni Guðmundsson.