Víkurfréttir


Víkurfréttir - 02.02.2022, Qupperneq 15

Víkurfréttir - 02.02.2022, Qupperneq 15
Markvörðurinn Ingvar Jónsson varð Íslands- og bikarmeistari með Víkingi á síðasta ári en hann er uppalinn Njarðvíkingur. Eftir nokkur ár í atvinnu- mennsku í Noregi og Danmörku flutti Ingvar og fjölskylda aftur heim, núna búa þau og starfa í Reykjanesbæ þar sem þau hafa stofnað fyrir- tæki með vinafólki sínu. Ingvar spilaði með Njarðvík í gegnum alla yngri flokkana og eftir þrjú tímabil með meistara­ flokki Njarðvíkur skipti hann yfir í Stjörnuna í Garðabæ sem hann lék með í fjögur ár. Eftir það lá leiðin til Noregs þar sem hann lék á fjórum árum með liðunum Start, Sande­ fjord og Sandnes Ulf áður en hann fór til Viborg í Danmörku og var þar í eitt og hálft ár. Þá fannst Ingvari nóg komið af flækingi og flutti aftur heim til Íslands þar sem hann gekk til liðs við Víking árið 2020. Þú ert ekkert á förum þaðan er það? „Nei, vonandi ekki. Maður veit samt aldrei í fótboltanum en viðræður eru nýhafnar og ég býst við að vera þar allavega eitt ár í viðbót. Spennandi tímar þar í gangi. Síðasta tímabil ansi vel heppnað,“ segir Ingvar en hann varð tvöfaldur meistari með liði sínu á síðasta ári. Á að verja titlana í ár? „Já, það er stefnan hjá okkur.“ Alltaf verið markmaður Ingvar byrjaði í fótbolta um sex ára gamall og frá því að hann byrjaði hefur hann alltaf verið markmaður. „Ég prófaði það og fannst það svo gaman að ég festist bara þar. Kannski hefur mér þótt svona leiðinlegt að hlaupa eða eitthvað. Einhvern veginn fannst mér alltaf langskemmtilegast að vera í marki. Byrjaði svona sex, sjö ára gamall þannig að þetta eru orðin nokkur ár núna – ég á vonandi nokkur góð ár eftir, markmenn geta spilað svo lengi. Ég er nýbyrjaður að taka mark­ mannsstigin í KSÍ og er aðeins byrj­ aður að þjálfa hjá Njarðvík, er með sjöunda flokkinn. Ég held að maður endi í þjálfun eftir fótboltann svo það er fínt að byrja aðeins núna, aðeins að fá tilfinninguna fyrir þessu og klára þessi stig. Svo hef ég verið með nokkur markmanns­ námskeið hérna á Suðurnesjum sem hafa verið vel sótt. Reyndar var það þannig þegar ein bylgjan var að skella á okkur, í kringum jólin, að það voru þrjátíu markmenn skráðir og mættu tuttugu og tveir að lokum. Þetta voru krakkar úr öllum liðunum hérna á Suðurnesjum, nám­ skeiðið náði til margra sem var mjög skemmtilegt. Það eru margir áhuga­ samir um markmannsþjálfun hér suður frá en markmannsstaðan er oft vanmetin, samt dregur hún alltaf nokkra til sín – það er skemmtilegt að vera aðeins öðruvísi en allir hinir. Ég var í körfu þangað til ég var fjórtán eða fimmtán sem ég held að sé mjög góður grunnur fyrir mark­ menn. Það er um að gera að stunda fleiri en eina íþrótt þegar maður er yngri, hafa þetta fjölbreytt.“ Ingvar er í sambúð með Íris Guð­ mundsdóttur og þau eiga tvö börn saman. „Hún elti mig um allt þarna í Noregi og Danmörku. Svo var þetta orðið gott af flutningum, sérstaklega eftir að börnin voru byrjuð í skóla. Það var eiginlega ástæðan fyrir því að við komum heim, það var ekki hægt að bjóða þeim upp á enn einn flutninginn og nýtt umhverfi. Þetta er mikið flakk og aðeins erfiðara en að segja það að vera að flytja með árs millibili, sérstaklega þegar það þarf að byrja allt í nýju landi. Þannig að það kom ekkert annað til greina en að koma heim á þeim tíma.“ Grænn hugsunarháttur að ryðja sér til rúms Ingvar og Íris búa nú í Keflavík þar sem Íris er íþróttakennari í Myllu­ bakkaskóla. „Íris er systir Halla [Haraldar Guðmundssonar], aðstoðarþjálfara Keflavíkur, og Bryndísar Guðmunds­ dóttur sem var í körfunni með Keflavík. Þetta er mikil Keflavíkur­ fjölskylda.“ Og hvernig gengur það, að bræða saman Njarðvíking og Keflvíking? „Það gengur ágætlega. Ég gaf alla­ vega eftir, keypti hús í Keflavík og börnin eru byrjuð að æfa þar,“ segir Ingvar og hlær. „Nei, í alvöru talað þá er ekki jafn mikill rígur og var í gamla daga – en þau skipta yfir í Njarðvík seinna.“ Er kannski orðinn grundvöllur til að sameina þessi félög? „Það er margt vitlausara held ég, sérstaklega í yngri flokkunum. Þá kannski nýtast peningarnir betur í fleiri þjálfara og getuskipta þeim sem eru að æfa. Þetta á eftir að breytast einhvern tímann.“ Ingvar og Íris reka einnig fyrir­ tækið Víkurbása á Hafnargötu ásamt vinafólki sínu, þeim Kára Oddgeirs­ syni og Katrínu Jónsdóttur. Hvernig gengur að reka svona fyrir- tæki í dag? „Við byrjuðum þetta fyrir rúmu ári síðan og erum búin að fá yfir okkur þrjár eða fjórar Covid­bylgjur. Þetta hefur gengið svona í bylgjum en fyrst við höfum lifað þetta allt af þá er ég mjög vongóður með framhaldið, þegar engar hömlur verða og ekkert Covid­vesen lengur. Fólk hefur tekið ótrúlega vel í þetta og gengið vel. Fólk er að kynnast þessu konsepti, þetta er svolítið nýtt. Þetta er búið að vera lengur í bænum og það þekkja þetta ekki allir en það eru stöðugt fleiri að koma til okkar og kúnnahópurinn fer sístækkandi.“ Víkurbásar er nokkurs konar um­ boðssala fyrir notuð barnaföt þar sem fólk leigir pláss fyrir sínar vörur og svo sjá Ingvar og félagar um að selja og auglýsa. Finnst þér vera mikil vitundar- vakning í svona grænni hugsun? „Já, ég held að á undanförnum árum hafi fólk farið að hugsa miklu meira um þetta og farið að átta sig á hversu stóran þátt fataiðnaðurinn spilar í umhverfismálum. Fólk getur lagt sitt af mörkum þar með því að selja, kaupa og endurnýta í stað þess að vera alltaf að kaupa allt nýtt. Eins og með barnaföt sem eru kannski notuð í tvo eða þrjá mánuði, oft sér ekki á þessum fötum og það er hægt að kaupa þau margfalt ódýrari notuð.“ Ingvar bendir á að áður fyrr hafi fatnaður jafnan gengið milli fólks innan fjölskyldna en svo breyttist eitthvað og við urðum að þessu mikla neyslusamfélagi þar sem alltaf þarf að kaupa allt nýtt. Upphafið að verslunarrekstrinum seigir Ingvar hafa orðið með þeim hætti að hann hafi verið að spá hvað hann gæti tekið sér fyrir hendur samhliða fótboltanum. „Það hentar ekkert alltof vel að ráða sig í vinnu frá átta til fjögur, maður þarf oft frí hér og þar vegna æfinga eða leikja. Ég hef alltaf haft þann draum að vera með lítið fyrir­ tæki og svo gerðist það að kona vinar míns, sem var flugmaður hjá Icel­ andair, missti vinnuna. Nú ég og Íris höfðum kynnst svona verslunum í Noregi og Danmörku, þar sem nánast allir velja svona endurnýtingu í stað þess að kaupa sér nýtt. Svo við fórum í þetta saman og það hefur bara gengið ótrúlega vel. Vinnu­ tíminn hentar mjög vel, nokkrir klukkutímar á dag og svo fótboltinn seinni partinn. Við lögðum auðvitað mikið í þetta við að byggja þetta upp fyrsta árið en nú erum við komin með helgar­ starfsmann þannig að þetta er farið að ganga ágætlega og álagið á okkur að minnka.“ Bankar á dyrnar í landsliðinu Ingvar á að baki átta leiki með A­landsliði Íslands en hann er ný­ kominn úr verkefni með landsliðinu. Þá spilaði landsliðið vináttulands­ leiki við Úganda og Suður­Kóreu í Tyrklandi. Nú ertu nýkominn úr landsliðsverk- efni, hvernig gekk það? „Það gekk nú ekkert sérstaklega vel,“ segir Ingvar. „Þetta var beint eftir jólafrí, alveg í byrjun janúar, og einu æfingarnar sem ég var búinn að vera á voru á frosnu gervigrasi í bænum. Þannig að það var smá munur að fara á rennandi blautt gras og ég tognaði í kálfa á annarri æfingunni, þannig að ég missti af báðum leikjunum en ég átti að byrja báða leikina. Það var svolítið svekkj­ andi en svona er þetta, meiðsli eru partur af þessu. Þetta voru bara æf­ ingaleikir og ekkert undir þannig að það var ekkert vit í að vera að pína sig neitt. Vonandi fæ ég bara aftur tækifæri til að sýna mig, það voru komin þrjú ár síðan ég var valinn síðast og það var gaman að finna smjörþefinn af þessu aftur.“ Ertu að minna á þig? „Þeir voru allavega ánægðir með mig. Það eru náttúrlega miklar breytingar á markmannsstöðunni, Hannes [Halldórsson] hættur og margir ungir að koma inn. Svo er auðvitað spurning hversu mikið þeir fá að spila með sínum félagsliðum, það er erfitt að velja menn í hóp sem eru ekki að spila. Maður er allavega inni í myndinni og veit að ef maður stendur sig vel á maður góðan séns að komast í hóp aftur – það er extra gulrót,“ segir markvörðurinn að lokum. Grænn í gegn Ingvar og liðsfélagar hans fagna fyrsta Íslandsmeistaratitli Víkings í þrjátíu ár. Mynd: Fótbolti.net Jóhann Páll Kristbjörnsson johann@vf.is Markverðir á æfingu landsliðsins í Tyrklandi 2022. Halldór Björnsson, Hákon Valdimarsson, Ingvar og Jökull Andrésson. Mynd úr safni Ingvars Íris Guðmundsdóttir, Ingvar Jónsson, Kári Oddgeirsson og Katrín Jónsdóttir, eigendur Víkurbása. vÍkurfrÉttir á SuðurNeSJuM // 15

x

Víkurfréttir

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.