Ægir - 01.01.2023, Síða 18
18
Hjaltasyni. Að lokum nefnir hann þýð-
ingu á bókinni Sjávarútvegur – fjöl-
breyttar áskoranir, sem hann þýddi úr
færeysku.
„Ég skrifaði líka mikið fyrir sjávar-
útvegsráðuneytið, meðal annars
námsefni í sjávarútvegsfræðum, vann
fyrir EFTA og FAO og vann hjá FAO í
Róm eitt sumar,“ bætir hann við.
Áfall að fá uppsögn á Mogganum
Morgunblaðið hóf á sínum tíma útgáfu
á sérblaði um viðskipti sem naut mik-
illa vinsælda og segist Hjörtur hafa
sótt fast við ritstjórana að sambæri-
legu sérblaði um sjávarútveg yrði ýtt
úr vör.
„Mér var að ósk minni þegar við
Ágúst Ingi Jónsson og Árni Jörgensen
bjuggum til sérblaðið Úr verinu. Það
kom fyrst úr haustið 1990, mjög vönd-
uð útgáfa sem sinnti öllum helstu þátt-
um sjávarútvegsins og þjónustugrein-
um við hann. Þá voru erlendum frétt-
um gerð góð skil. Úr verinu var sam-
einað viðskiptablaðinu um tíma, en
kom út á ný sem sérblað í mars 2005.
Nokkru síðar tóku útrásarvíkingarnir
völdin í atvinnulífinu og sjávarútveg-
urinn hvarf í skuggann. Það gerði Úr
verinu líka og sjávarútvegurinn fékk
að meðaltali eina síðu í blaðinu dag-
lega,“ rifjar Hörtur upp.
Árið 2008 urðu ritstjóraskipti á
Morgunblaðinu þegar Ólafur Stephen-
sen, frændi Hjartar, tók við af Styrmi.
„Eitt af hans fyrstu verkum var að
reka mig þegar ég kom úr fríi í maílok.
Hann taldi enga þörf fyrir mann með
sérhæfingu í sjávarútvegi enda skipti
hann engu máli í samfélaginu. Annað
átti reyndar eftir að koma í ljós. Seta
Ólafs á ritstjórastóli var stutt og nú á
sjávarútvegurinn Moggann.
Uppsögnin var mér gífurlegt áfall
og kom mér gjörsamlega í opna
skjöldu. Ég var hálf lamaður fyrst á
eftir en fór fljótlega í ýmis konar
íhlaupavinnu og setti meðal annars
upp hvalasíðu fyrir LÍÚ og fór á
hrefnuveiðar. Svo bauðst mér að rita
sögu Fiskifélags Íslands ásamt Jóni
Hjaltasyni. Það var kærkomið verkefni
og kom sagan út árið 2011 með nafn-
inu Undir straumhvörfum. Áður hafði
ég unnið mikið með Gunnari Flóvenz
að útgáfu Síldarsögu Íslands, sem kom
út 2007.
Traustið mikilvægt
Hjörtur segir að margs sé að minnast
þegar hann líti yfir farinn veg í skrif-
um um sjávarútveg í fjóra áratugi.
„Mér er ofarlega í huga það traust
sem ritstjórarnir á Mogganum, Matthí-
as og Styrmir, höfðu á mér og gerðu
mér kleift að komast inn í sjávarút-
veginn og studdu mig í vandasömum
málum. Það kom nokkrum sinnum fyr-
ir að embættismenn í stjórnkerfinu
voru ekki sáttir við fréttir sem ég
skrifaði og klöguðu í Styrmi. Klögurn-
ar voru ekki vegna þess að skrifin
væru ekki rétt. Það hentað embættis-
mönnunum einfaldlega ekki að sann-
leikurinn væri sagður. Alltaf stóð
Styrmir með mér í þessu og þegar hon-
um fannst ég vera eitthvað að slaka á,
hnippti hann hressilega í mig eins og
ég átti skilið.
Mér tókst einnig að ávinna mér
traust framámanna í sjávarútveginum,
forystumanna hagsmunasamtaka og
stjórnenda stóru fyrirtækjanna. Þar
þurfti maður að sanna sig og sýna
fram á þekkingu á viðfangsefninu. Eft-
ir því sem þekking jókst varð traustið
meira. Einn þessara manna var Krist-
ján Ragnarsson, formaður og fram-
kvæmdastjóri LÍÚ. Hann reyndist mér
mjög vel og mér enn minnisstætt þeg-
ar ég náði í hann eftir langan vinnu-
dag og hann var mjög upptekinn.
Hann sagði nokkur orð og sagði svo:
„Skrifaðu þetta bara Hjörtur minn. Þú
veist hvað ég vil segja.“
Fartölvan alltaf við hendina
Þegar ritun sögu Fiskifélagsins lauk
hóf Hjörtur störf fyrir Ólaf M. Jóhann-
esson í Ritsýn og skrifaði greinar í
blaðið Lyfjatíðindi. Um vorið 2013
stofnaði Ólafur vefmiðilinn kvotinn.is
og var Hjörtur ritstjóri hans frá upp-
hafi.
„Það gekk nokkuð vel en eftir nokk-
ur ár færðist útgáfan til almanna-
tengsla- og útgáfufyrirtækisins At-
hygli og fékk vefsíðan síðar nafnið
Auðlindin. Athygli var síðan skipt upp
og Ritform tók við útgáfunni árið 2018
en í öllum tilfellum fylgdi ég með.
Það eru því að nálgast 10 ár sem ég
hef stýrt þessari útgáfu og með færsl-
unni yfir til Athygli og síðar Ritforms
skrifaði ég mikið í tímaritið Ægi og
sjávarútvegsblaðið Sóknarfæri. Auð-
lindin hefur verið öflug fréttaveita
fyrir sjávarútveg alla tíð og skrifin
fyrir tímaritin hafa veitt mér mikla
ánægju. Vefsíðan hefur verið mjög
bindandi enda aldrei fallið úr virkur
dagur í öll þessi ár. Til að geta farið í
frí hefur tölvan verið fastur farangur
og síðunni sinnt utan úr heimi gegnum
netið, oftast frá Spáni en einnig frá
Balí. Ég er þakklátur henni Helgu
minni fyrir þolinmæðina, sem hún hef-
ur sýnt mér í öll þessi árin. Það eru
ekki allir sem þurfa að skrifa og safna
saman fréttum alla frídaga í sól og
sælu. Ég hef stundum sagt að ég sé
með ferðaskrifstofu en nú er kominn
tími til að láta staðar numið enda kom-
inn á áttræðisaldurinn,“ segir Hjörtur.
Hjörtur og Helga á góðum degi í ferðalagi á Balí.