FLE blaðið - 01.01.2022, Page 13
13FLE BLAÐIÐ JANÚAR 2022
þessi réttindi eru aðgreinanleg frá fyrirtækjunum. Grænar inn-
eignir gæti verið mögulegt að selja, en mat á væntu söluverði
þeirra gæti verið flókið ef virkur markaður er ekki til.
VIRÐISRÝRNUN EIGNA
Fyrirtæki þurfa að huga að áhrifum loftslagstengdra þátta við
mat á virðisrýrnun eigna. Ef sjóðstreymisspár eru notaðar við
mat á virðisrýrnun er mikilvægt að fyrirtæki skoði áhrif lofts-
lagstengdra þátta á forsendur þeirra. Svo dæmi sé nefnt þá
ættu sjóðstreymisspár vegna prófunar á virðisrýrnun að vera
byggðar á skynsamlegum forsendum sem studdar eru gögn-
um og sýna besta mat stjórnenda á efnahagsaðstæðum í fram-
tíðinni. Ef loftslagstengdir þættir hafa áhrif á virði eigna, en ekki
er tekið tillit til þeirra með fullnægjandi hætti við mat á virðis-
rýrnun, gæti það leitt til ofmats rekstrarfjármuna, leigueigna,
viðskiptavildar og annarra óefnislegra eigna. Þá má einnig
búast við að loftslagstengdir þættir komi til með að hafa aukin
áhrif á vænt útlánatap fjármálafyrirtækja.
BIRGÐIR
Ný lög og reglur vegna loftslagsbreytinga geta ekki eingöngu
leitt til þess að til skuldbindinga stofnist. Þær geta einnig haft
áhrif á verðlagningu vara, til dæmis vegna hærri framleiðslu-
kostnaðar. Breytt kauphegðun viðskiptavina, sem í auknum
mæli leita í umhverfisvænar og sjálfbærar vörur, gæti leitt til
minni eftirspurnar eftir minna grænum vörum, sem gæti svo
leitt til hærri niðurfærslu birgða en gert hafði verið ráð fyrir.
Þar sem við leitum nú öll leiða til að draga úr losun úrgangs
eru fyrirtæki í auknum mæli farin að bjóða viðskiptavinum
upp á endurnýtanlegar umbúðir, sem má til dæmis skila gegn
gjaldi og fyrirtæki nýta svo aftur. En hvað á að gera við þess-
ar umbúðir reikningshaldslega? Ef fyrirtæki býður til dæmis
margnota flöskur sem nýtast fleiri en eitt tímabil, þá ætti að
flokka þær sem rekstrarfjármuni og afskrifa á áætluðum nýt-
ingartíma.
LÁNASAMNINGAR
Skilmálar lánasamninga taka í auknum mæli til loftslagstengdra
málefna. Dæmi um slíka skilmála er ef losunarmarkmið eru til-
greind í lánasamningum. Lántakendur þurfa að greina lánveit-
endum frá brotum á lánasamningum og gætu slík brot leitt til
gjaldfellingar lána, sem gæti svo haft áhrif á mat á rekstrarhæfi
fyrirtækja. Þá gæti loftslagstengd áhætta haft áhrif á lánskjör.
Lánveitendur gætu til að mynda veitt lántökum afslátt af vöxt-
um ef þeir ná tilteknum markmiðum í loftslagsmálum. Að sama
skapi gætu lánveitendur sett álag á vexti ef þessum markmið-
um er ekki náð.
Við reikningshaldslegt mat lántakenda á slíkum lánasamn-
ingum þarf að skoða hvort samningarnir innihaldi innbyggð-
ar afleiður sem þarf að aðskilja og færa í bókhald, þar sem
loftslagstengdu þættir geta haft áhrif á sjóðstreymi lánanna.
Lánveitendur þurfa hins vegar að skoða hvort skilyrði fyrir fær-
slu lánanna á afskrifuðu kostnaðarverði séu uppfyllt og ef svo
er, hvernig þeir ætla að taka tillit til mögulegra loftslagstengdra
breytinga á vöxtum við færslu vaxtatekna.
REKSTRARHÆFI
Ljóst er að þrátt fyrir að áhætta vegna loftslagsbreytinga kunni
að hafa áhrif á öll fyrirtæki, þá eru áhrifin misjafnlega mikil. Fyrir
einhver fyrirtæki gæti áhættan haft veruleg áhrif á reksturinn
og mat á rekstrarhæfi. Loftslagstengdir þættir gætu bæði haft
jákvæð og neikvæð áhrif á mat á rekstrarhæfi. Verulega minnk-
andi eftirspurn eftir framleiðslu fyrirtækis gæti haft neikvæð
áhrif á mat á rekstrarhæfi á meðan notkun grænnar orku eða
orkusparandi tækja gæti haft jákvæð áhrif. Þá þarf að gæta að
því að ef sjóðstreymisspár eru nýttar við mat á rekstrarhæfi
þarf sömuleiðis að gæta að því að loftslagstengdir þættir séu
teknir inn í þær spár. Þörf gæti verið á viðbótarskýringum um
rekstrarhæfi um mikilvæg atriði sem tengd eru verulegri óvissu
ef slík óvissa er tengd loftslagsáhættu.
UPPLÝSINGAGJÖF Í SKÝRINGUM
Skýringar í ársreikningum fyrirtækja um loftslagstengd mál
þurfa að vera viðeigandi miðað við aðstæður og veita skýr-
ar upplýsingar um mikilvægar reikningshaldslegar ákvarðanir
og mat stjórnenda. Þegar þær eru settar fram þarf jafnframt
að hafa í huga að þær séu til þess fallnar að hjálpa notendum
reikningsskilanna að skilja mat stjórnenda á framtíðarhorfum
fyrirtækjanna og gæta að því að þær séu í samræmi við upplýs-
ingar sem birtar eru annars staðar, til dæmis í skýrslu stjórnar
eða í tengslum við ófjárhagslega upplýsingagjöf.
NIÐURLAG
Áhrif áhættu vegna loftslagsbreytinga á reikningsskil geta verið
af ýmsum ástæðum, svo sem náttúruhamförum og breyting-
um á regluverki, tækni, kauphegðun viðskiptavina, stefnumót-
un og viðskiptamódeli fyrirtækja, skilmálum fjármálagerninga
og kröfum fjárfesta og eftirlitsaðila. Fyrir liggur að fjárfestar og
eftirlitsaðilar kalla í auknum mæli eftir því að ársreikningar veiti
upplýsingar um möguleg áhrif áhættu vegna loftslagsbreytinga
á afkomu, fjárhagsstöðu og sjóðstreymi til skemmri og lengri
tíma. Við gerð og framsetningu þessara upplýsinga er mikil-
vægt að vanda til verka þannig að upplýsingarnar séu gagn-
legar og taki mið af aðstæðum þeirra eininga sem leggja reikn-
ingsskilin fram. Fyrirtæki, sem og opinberir aðilar, þurfa því að
huga að áhrifum áhættu vegna loftslagsbreytinga á reiknings-
skil sín og gera viðeigandi ráðstafanir sem fyrst.
Johann I.C. Solomon og Svanhildur Skúladóttir