Fylkir


Fylkir - 01.12.2022, Side 20

Fylkir - 01.12.2022, Side 20
20 FYLKIR - jólin 2022 ° ° síðustu öld þegar mesta gróskan var í skipasmíðum þar. Hann vann að smíði flestra bátanna í slippn- um hjá Ársæli á Fögrubrekku og var aðalhönnuður fyrirtækisins, teiknaði sjálfur eina 7 báta sem þóttu í senn glæsilegar fleytur og góð sjóskip. Einn af þekktustu bátum hans var Jón Stefánsson VE 49 sem var happafleyta og á hann fiskaðist mikið. Guðrún VE 163 var t.d. systurskip hans og líka Kári VE 47 og Björg NK 103. Þetta voru rennilegir bátar, stýrishúsið rúm- gott og með mörgum gluggum. Runólfur mun líka hafa teiknað Hannes lóðs VE 200 sem Jóhann Pálsson lét smíða í Svíþjóð. En tíminn líður og öll mannanna verk eru forgengileg. Bátar Runólfs eru nú horfnir og þau hjón, Krist- ín Skaftadóttir og Runólfur skipa- smiður, löngu látin. Öll systkini Laugu eru dáin, hún stendur ein eftir. Hilmisgata 7 er mesta prýði á sínum stað en þar er komið annað fólk. „Þannig er lífið“ segir Guðlaug Kristín Runólfsdóttir, Vestmann- eyingur og ávallt Vestmanneying- ur! „Fullorðin kona sem er með mér í ræktinni spurði mig í gær hvort ég væri úr Reykjavík. Nei, sagði ég án þess að hugsa mig um, ég er Vestmanneyingur! En ég hef búið hér í borginni í 70 ár.“ Kristín Skaftadóttir í Litlabæ. Móðir Laugu, Kristín Skaftadóttir, átti mikinn ættgarð í Vestmanna- eyjum. Foreldrar hennar, Margrét Jónsdóttir og Skafti Gíslason á Suður-Fossi í Mýrdal, eignuðust 11 börn. Kristín missti móður sína af barnsförum þegar hún var aðeins 6 ára og yngri systkini hennar fóru þá í fóstur á nálægum bæjum eins og siður var. En Kristín fór til móð- ursystur sinnar í Vestmannaeyjum, Kristínar Jónsdóttur í Litlabæ sem var gift Ólafi Ástgeirssyni og varð fósturbarn þeirra. „Þetta var snöggt og óvænt and- lát og þar við bættist mikil sorg fyrir mömmu að skilja við systkini sín. En hún tók gleði sína fljótt aft- ur því að fólkið í Litlabæ tók henni svo vel. Það var gott að vera í bað- stofunni þar, mikið fjör, margt fólk og margir gestir. „Manngott fólk“ sagði mamma um þau í Litlabæ.“ Runólfur bátasmiður og Krist- ín Skafta, eins og þau voru oftast kölluð, giftu sig 1924 og ári síðar byggði Runólfur Brimberg með Ólafi í Litlabæ, tengdaföður sín- um ef svo má kalla. Það hús var og er norðan við Litlabæ, var byggt í túninu þar. Runólfur og Kristín voru í vesturendanum en fóstur- foreldrar hennar, Ólafur og Kristín Jónsdóttir, voru í austurendanum. En þarna varð fljótt of þröngt um foreldra Laugu þegar fjölskyldan stækkaði. Þeim þótti garðurinn kringum húsið líka vera lítill. Svo að þau réðust í að byggja Hilmis- götu 7 árið 1930 og fluttust þang- að og áttu þar heima upp frá því. Líf og fjör í Litlabæ. „Já, mamma og Ási í Bæ voru systrabörn en líka uppeldissystkin. Þegar ég var að alast upp var mikill samgangur á milli okkar og Litla- bæjar-fólksins. Það var óskaplega hlýlegt þar og allir velkomnir. Mik- ið sungið! En við vorum auðvitað meira á Brimbergi hjá Kristínu og Óla, „afa og ömmu“ eins og ég kall- aði þau.“ Gömlu hjónin í Litlabæ, foreldrar Ólafs, Ástgeir Guðmundsson báta- smiður og Kristín Magnúsdóttir, voru orðin roskin þegar mamma Laugu kom til Eyja. Margt hefur verið skrifað um Ástgeir og bát- ana hans en Kristín gamla í Litla- bæ var líka merkileg kona, ættuð frá Berjanesi í Vestur-Landeyjum. Lauga man hana vel, hún dó 1938. „Hún var blíðlynd og góð kona, en orðin mikill sjúklingur þegar ég sá hana, með krepptar hendur eftir erfiða lífsbaráttu.“ Ási í Bæ segir frá ömmu sinni í bókinni góðu, Skáldað í skörðin. Það var stórt hjartarúm hjá henni og mikið pláss í baðstofunni litlu í Bæ. Alltaf hægt að bæta við fólki, annaðhvort í fóstur eða til skemmri dvalar. Þórunn Ketilsdóttir, „Tóta í Uppsölum“ kom t.d. til Eyja ung kona, sveitarómagi úr Mýrdalnum sem var að leita sér lækninga. Hún var fyrst í Nýborg hjá frændfólki en bað svo Kristínu Magnúsdóttur um að fá að koma til hennar í Litlabæ og dveljast þar um tíma. Þó að þar væru aðeins tvö herbergi en sjö börn fannst pláss fyrir Tótu og þar var hún í 18 ár.“ Þetta var eins og í Brekkukoti Laxness. Ási lýsir þessu fólki á lifandi hátt í endur- minningabók sinni. Fimm Stínur. Það voru fimm Kristínar eða Stín- ur í Litlabæ: Elst var Kristín gamla Magnúsdóttir frá Berjanesi, kona Ástgeirs bátasmiðs. Þá Kristín Ást- geirsdóttir (Stína frænka í Hafnarf- irði, Stína stóra), dóttir þeirra. Hún var gift Engilbert Á. Guðmunds- syni smið og verslunarmanni, en hann veiktist snemma af berklum og var sjúklingur lengi en afar duglegur maður, dó 1945 á Víf- ilsstöðum. Þau voru þá nýflutt úr Eyjum. Kristín Engilbertsdóttir var dóttir þeirra (Stína litla) og ólst að mestu upp í Litlabæ. Hún gift- ist síðar Alfreð Clausen söngvara og samdi m.a. nokkra texta sem hann söng við vinsæl lög. Fjórða nafnan var Kristín Jónsdóttir, hús- freyja, kona Ólafs Ástgeirssonar. Þau fluttust úr Litlabæ 1925 eða svo, en ekki lengra en að Brim- bergi. Það var hún sem brá skjótt við þegar Margrét á Suður-Fossi, systir hennar, dó af barnsförum frá 11 börnum. Hún tók eitt barnið til fósturs, Kristínu, móður Laugu, Stínu Skafta. Og það var sú fimmta með þessu nafni. Það hefði sem sagt vakið mikil viðbrögð að kalla hátt í Litlabæ: „Kristín, Kristín, Stína, komdu hingað!“ Stínu-nafnið hefur lifað í ættinni, frá þessum heiðurskonum eru margar Stínur komnar. Fögruvellir. Í næsta húsi við Litlabæ, á Fögru- völlum, bjó uppeldissonur Krist- ínar gömlu Magnúsdóttur, Guð- laugur Hansson, stórmerkur maður, einn af forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar í Eyjum á sinni tíð. „Hansson“ var hann af því að réttu föðurnafni var haldið leyndu. Annars hefði sá misst stöðu sína og starf. Svo aumlega æsku átti Guðlaugur að hann var settur á sveitina, „boðinn upp“ eða öllu heldur boðinn niður. „Niður- setningar“ voru þessi börn köll- uð og þeim holað niður þar sem sveitarsjóðurinn þurfti að borga minnst með þeim. Kristín Magn- úsdóttir, þá unglingur í Berjanesi, var viðstödd uppboðið á Guð- laugi ásamt systrum sínum. Þeim rann til rifja að sjá útganginn á barninu, hann var hlandbrunninn af vanhirðu, en brosti eigi að síð- ur svo fallega við þeim. Þær báðu því foreldra sína að taka Guðlaug og á það var fallist en þó með því skilyrði að þær systur önnuðust drenginn. Margrét, móðir þeirra, var þekktur græðari og græddi brunasárin á Guðlaugi, að sögn með íslensku smjöri, og setti þel yfir. Og auðvitað fór Guðlaugur aldrei frá þessu góða fólki og ólst upp í Berjanesi. Sú fjölskylda flutt- ist svo í Litlabæ í Vestmannaeyjum 1887 þegar Guðlaugur var 13 ára gamall og hann fylgdi Litlabæjar- fólki og Kristínu Magnúsdóttur þar til hann kvæntist. Guðlaugur Hansson var einn af stofnendum Verkalýðsfélagsins Drífanda og Kaupfélagsins Dríf- anda 1917 og var í forustu þeirra félaga. Kaupfélagið byggði Dríf- andahúsið á Litlabæjarlóðinni, spildu sem Ástgerir í Litlabæ lét félaginu í té. Guðlaugur var fyrst kallaður ‚kommúnisti‘ en þegar bolsarnir ýttu honum út um 1930 var hann kallaður ‚krati‘. Guðlaugur var kosinn í bæjarstjórn 1923 og sat þar með hléum í 15 ár. „Hann var einstakur maður, svo mikið góðmenni“ segir Lauga, „og þá ekki síður Málfríður, Fríða, kona hans.“ Þau keyptu Fögruvelli og byggðu þar nýtt hús sem enn stendur. Guðlaugur og Málfríður giftu sig 1904 en eignuðust ekki börn. Um áratug síðar kom til þeirra systurdóttir Málfríðar sem bar nafn þeirra beggja, hjónanna á Fögruvöllum, Málfríður Guðlaug. Hún var fædd á Melhól, eða Undir- hrauni eins og það hét líka, í Með- allandi og var eitt margra barna Guðríðar, systur hennar og Ingi- bergs Þorsteinssonar. Hún þótti þegar í æsku námfús, yfirlætislaus og alvörugefin, trúrækin og trygg- lynd. Hún varð leiðtogi KFUK í Eyj- um, stjórnaði barnasamkomum og æfði barnakór. Málfríður Guðlaug byrjaði 15 ára að fást við kennslu barna innan skólaskyldualdurs en fór svo í Kennaraskólann 1929 og lauk prófi 1931. Hún lærði þá líka á orgel og fékk söngkennararéttindi. Haustið 1931 varð hún kennari við Barnaskólann en smitaðist af skarlatssótt seint í janúar og lést 1. febrúar, daginn eftir 25 ára af- mælisdag sinn. Málfríður Guðlaug var hinn „bjartasti sólargeisli í lífi fósturforeldra sinna“ og andlát hennar því þung raun fyrir þau sem þá voru um sextugt. Um hana skrifuðu Páll Bjarna- son skólastjóri og sr. Sigurjón Þ. Árna- son sóknarprestur fallegar minningar- greinar. „Þær voru mikl- ar vinkonur, mamma og hún“. Og Guð- laug Kristín fékk fyrra nafn sitt frá henni. Og kannski líka Guðlaugi Hans- syni. Seinna nafnið er frá Kristínu Jónsdóttur í Litlabæ, „ömmu“ á Brimbergi. „Ég naut nafns ríkulega hjá gömlu hjónunum á Fögruvöllum. Þau umvöfðu mig og voru mér svo „Ég naut nafns ríkulega hjá gömlu hjónunum á Fögruvöllum. Þau umvöfðu mig og voru mér svo góð. Mér fannst ég eiga annan afa og aðra ömmu á Fögruvöllum. Ég var þar öllum stundum sem krakki. Gréta, systir mín, sagði að ég væri fordekruð þar!“ Foreldrar Guðlaugar, Runólfur Jóhannsson (1898-1969), skipasmiður frá Eyrarbakka, og Kristín Skaftadóttir (1906-1992), frá Suður-Fossi í Mýrdal en alin upp í Litlabæ í Eyjum. Fósturforeldrar Kristínar Skaftadóttur, Ólafur Ástgeirsson báta- smiður í Litlabæ og Kristín Jónsdóttir, móðurystir hennar (ömmu- systir Guðlaugar). Þau byggðu síðar Brimberg, norðan við Litlabæ, og bjuggu þar, fyrst með Runólfi og Kristínu Skaftadóttur. Ási í Bæ, Ástgeir Ólafsson (1914-1985), ungur að árum. Ási og Kristín Skaftadóttir voru systrabörn og uppeldissystkini. Jóhann Guðmundsson frá Gamla-Hrauni við Eyrarbakka, föðurafi Guðlaugar. Hann var þekktur bátaformaður um aldamótin 1900, reri m.a. frá Þorlákshöfn. Hér er hann klæddur að fornum sið sjó- manna. Skinnklæðin, hatturinn og skórnir voru jafnan lýsisborin til að mýkja þau og verja frekar fyrir vætu. Á höndum og innan undir var allt úr ull.

x

Fylkir

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fylkir
https://timarit.is/publication/878

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.