Heimili og skóli - 01.02.1962, Page 34
26
HEIMILI OG SKÓLI
Fyrir tuttugu árunr var mér sent
fyrsta heftið af tímariti, sem var að
hefja göngu sína. Það hét Heimili og
skóli. Ég óskaði þess þá, að þetta rit
héti: Heimili, kirkja og skóli. Mig
langaði til að prestamir norðlenzku
ættu aðild að því, svo að sjónarmið
kirkjunnar mætti verða túlkað þar. —
En nú er ég fyrir löngu búinn að sætta
mig við að svo var ekki, því ég efast
satt að segja um, að hið trúarlega og
kirkjulega sjónarmið hefði verið betur
túlkað, eða kirkjan átt öruggari máls-
svara í ritinu þessi tuttugu ár, enda
þótt einhverjir prestar hefðu verið
með í útgáfu þess. Svo vel hefur þar
verið á málum haldið frá sjónarmiði
kirkjunnar að mínum dómi, — af svo
miklum heilindum hefur ritið flutt
kristinn boðskap. Af handahófi tek ég
sem dæmi nokkrar setningar úr grein
ritstjórans í síðasta hefti: „Vilji for-
eldrar og skólar leggja grundvöll að
heilbrigðu tilfinningauppeldi . . . ættu
þeir að byrja á því, þegar í fyrstu
bernsku, að leggja grundvöll að trúar-
uppeldi barna sinna.“ — „í lotning-
unni fyrir einhverju, sem er æðra en
við sjálf, liggur kjölfesta lífsins, sem
gefur því gildi.“ — „Eina leiðin út úr
þessum ógöngum, sem efnishyggjan og
tæknin hafa leitt okkur í, er að byrja
á ný að rækta tilfinningalífið og trú-
arlífið. Það er nálega hin eina von
mannkynsins nú.“ —
Slíkur boðskapur á sannarlega sitt
erindi í riti um mikilsverðustu mál
þjóðarinnar — uppeldismálin. Ég
þakka ritstjóra og útgefendum Heim-
ilis og skóla ágætt starf í tuttugu ár og
óska ritinu heilla og blessunar á þess-
um tímamótum.
Kirkjubæjarklaustri, á bóndadaginn
1962.
Gisli Brynjólfsson.