Heimili og skóli - 01.02.1964, Blaðsíða 21
hann reykti. Það' var líklega bezt að hætta
þessari vitleysu.
Hann var svo upptekinn af þessum hugs-
unum, að hann vissi ekki fyrri til, en dyrn-
ar opnuðust og móðir hans kom inn.
Hann þreif seðilinn út úr sér og ætlaði
að fela hann í lófanum. En það var of
seint. Móðir hans hafði þegar séð, hvað
um var að vera. Og nú logsveið hann í
lófann, því að það var ekki alveg dautt
í seðlinum, en hann þorði ekki að æpa,
þótt hann langaði mest til þess. Móðir
hans kom nú brunandi í áttina til hans.
Hún var þung á brúnina. „Hvað á þetta
að þýða, drengur? Ertu farinn að reykja?
Hvað ertu með í lófanum? Það voru eng-
ar sígarettur til“. Það var ekkert undan-
færi. Hann varð að opna lófann og sýna
henni hálfbrunninn seðilinn. „Ertu alveg
frá þér, drengur! Hnuplar peningum til
þess að fara svona með þá. Heldurðu að
peningar séu til þess að kveikja í þeim?
Eg skal kenna þér að láta það vera fram-
vegis.“ Hún sló hann þéttingsfast á vang-
ann. Þetta gerðist allt með svo skjótri svip-
an, að hann kom engum vömum við. Seðil-
ræksnið datt á gólfið. Hann greip hönd-
unum fyrir andlitið og hrópaði með grát-
stafinn í kverkunum um leið og hann þaut
út: „Ég átti hann sjálfur.“
Hann sást ekki aftur fyrri en við mið-
degisverðarborðið, og þar sat hann þögull
og afskiptalaus, þar til máltíð var lokið.
Eftir hádegið þurfti hann aftur í skól-
ann í handavinnu og kom ekki heim fyrri
en um klukkan 3. í dyrunum mætti hann
móður sinni. Hún var nú mild á svip og
brosti við honum. Hefir ef til vill fundið
til þess, að hún hefði verið nokkuð ströng
fyrr um daginn út af seðlinum.
„Heyrðu, Doddi minn“, sagði hún vin-
gjarnlega. „Ég þarf að biðja þig að skreppa
í búð fyrir mig og kaupa sígarettur, ég
gleymdi því alveg í morgun. Hún Anna
Geirs er komin og ég má til að fá þær“.
Hún rétti honum 25 krónu seðil. Hann
var vanur að hlýða móður sinni, en nú
langaði hann mest til að tæta seðilinn
í sundur og fleygja sneplunum framan í
hana. En hann gerði það ekki. Hann fleygði
leikfimidóti sínu inn í forstofuna, greip
seðilinn úr hendi móður sinnar, og hreytti
út úr sér um leið og hann hvarf út um
dyrnar: „Svo þú ætlar þá líka að brenna
seðil og láta Onnu Geirs hjálpa þér til
þess“. Innan stundar var hann kominn
aftur, fleygði vindlingunum á eldhúsborð-
ið, svo rauk hann út.
Dagurinn leið að kvöldi, og Doddi var
þögull eftir að hann kom inn. Hann bjó
sig undir skólann eins og venjulega, en
leitaði engrar aðstoðar hjá móður sinni,
eins og hann gerði þó oft. Eftir kvöldverð
fór hann að hátta með fyrra móti. Móðir
hans sá, hvað honum leið. Hún vissi, að
hann var særður — djúpt særður. Og orð-
in, sem hann hafði sagt við hana í and-
dyrinu, hljómuðu enn fyrir eyrum henn-
ar: „Svo þú ætlar þá líka að hrenna seðil
og láta Önnu Geirs hjálpa þér til þess“. En
þetta var nú svo ósanngjarnt. Það var
svo ólíkt með börn og fullorðna, þau máttu
ekki reykja. Ekki hafði hún sjálf farið að
reykja fyrri en eftir fermingu, naumast
dottið það í hug. Þó hafði faðir hennar
reykt stundum — ekki mikið — bara
pípu — en mamma hennar hafði aldrei
reykt. Það hafði ekki verið móðins þá —
frekar talinn ósiður, að kvenfólk reykti
eða drykki. Hvers vegna hafði hún þá
sjálf farið að reykja? Henni þótti það
vont, mjög vont í fyrstu og henni hafði
orðið óglatt. En því hafði hún þá farið
að reykja? I hreinskilni sagt: Hún hafði
HEIMILI OG SKÓLI 15