Goðasteinn - 01.09.1988, Síða 15
Hraunsnefið framan við Syðstu-Mörk, vestan brúarinnar. Kostuðu
þessir garðar fullgerðir um 160.000,- krónur. Falleg snidduhleðsla
var í fyrstu utaná varnargörðunum. Kiwanismenn á Hvolsvelli hafa
á síðari árum grætt gömul sár í Stóru-Dímon, sem græn og fögur
drottnar á sléttunni miklu brydduð kaffibrúnu móbergi hið efra.
En víkjum nú sögunni frá varnargörðunum sem haldið hafa
Fljótinu í föstum farvegi í fimmtíu ár og staðnæmumst við hina
voldugu brú, þar sem fallhamar lyftist og hnígur og hamarshögg
dynja hálfan sólarhringinn. Stundum komu hlaup í Fljótið, sem
eyðilögðu stillansa og bráðabirgðabrýr, en um það var ekki verið að
fárast. Öllum verkum miðaði vel fram undir traustri handleiðslu,
Sigurðar Björnssonar, brúarsmiðs. Og það þurfti líka að smíða brýr
á Stóra-Dalsána og Neðra-Dalsána og byggja mörg minni ræsi á
leiðinni frá Markarfljótsbrúnni að Kattarnefi. Ofaníburður i þann
veg, sem er um fjórir kílómetrar, var keyrður á hestvögnum. Við þá
framkvæmd réði ríkjum Jón Jónsson frá Flatey í Mýrarhreppi,
Austur-Skaftafellssýslu. Hann var þekktur barnakennari í Reykja-
vík, en starfaði hjá vegagerðinni i fjörutíu ár og þótti mönnum gott
að starfa undir hans stjórn.
En nú er mál að lýsa hinu mikla mannvirki, Markarfljótsbrúnni.
Brúin er úr járnbentri steinsteypu 242 metrar að lengd og standa
undir henni 11 stólpar, auk landstólpanna. Breidd brúarinnar er 3
metrar. Ofan á brúargólfið var steypt kúpt slitlag. Sex til sjö metra
langir staurar voru reknir niður undir brúarstólpana og var þá
komið á fastan botn. í brúna fóru 1000 tonn af sementi og 40 tonn
af steypustyrktarjárni. Brúarefnið var sumpart flutt frá Eyrarbakka
og sumpart frá Reykjavík. Brúin sjálf kostaði 128 þúsund krónur.
Efni og áhöld kostaði 55 þúsund krónur. Vinnulaun voru um 50
þúsund krónur og aðflutningur efnis og áhalda 19 þúsund krónur.
Það var sunnudaginn 1. júlí 1934, sem vígsluhátíð Markarfljóts-
brúar var haldin í Litlu-Dímon. Dagurinn var sólbjartur, það
andaði frá vestri. Sextíu tjöld blöktu í golunni hjá Litlu-Dímon, þar
sem hin nýju mannvirki blöstu við augum, lengsta steinbrú lands-
ins. Það var fyrirfram vitað að margt yrði um manninn við Markar-
fljót, ef veður yrði gott á vígsludaginn og árla dags var auðséð að
Goðasteinn
13