Goðasteinn - 01.09.1988, Page 20
á Skúmsstöðum. Voru þeir engir veifiskatar, hvorki til líkama né
sálar, bráðgreindir báðir og húmoristar þegar því var að skipta. Þeir
ruddu sér braut gegnum mannfjöldann að hliðinu, leiddust og
glottu tvírætt. Fundarmenn skipuðu sér í tvær aðskildar fylkingar,
en ekki man ég fyrir víst hvorir voru fyrr taldir. Voru hvorutveggja
fjölmennir um það er lauk, og nú komst æsingin í hámark í liði
beggja, og þeir æstustu horfðu fráneygir á lið óvinarins. Var þessi
virkilega kominn í andskotahópinn? Þá var farið og talað um fyrir
viðkomandi og væri allt með felldu var týndi sonurinn leiddur í
rétta hjörð.
Þegar farið var að telja slæddust með unglingar sem sumir hverjir
voru þó nokkuð langt frá að eiga kosningarétt. Ég var kominn hátt
á átjánda ár og hár vexti miðað við aldur og þótti mér löðurmann-
legt að taka ekki þátt í bardaganum þegar ég sá að mér yngri og
smávaxnari unglingar létu telja sig, og dreif ég mig gegnum hliðið
og slapp í gegn án athugasemda, en oft heyrðist kallað úr annarri
hvorri fylkingunni: „Þessi á ekki kosningarétt!” Teljararnir sinntu
því ekki, enda hafa þeir vist fljótt séð að talningin var vonlaust verk.
Sumir létu tvítelja sig, fóru hring kringum húsið og að hliðinu aftur.
Þá var nokkuð um að dilkadráttur væri viðhafður og t.d. er mér
mjög minnisstætt þegar Finnbogi á Lágafelli kom með Pál í Snotru
í togi. Sigurður í Kúfhól reyndi að ná Páli af Boga, en varð frá að
hverfa því Finnbogi reyndist handfastur á feng sinn.
Páll var eitt sólskinsbros og virtist engu láta sig skipta hvor hefði
betur, Finnbogi eða Sigurður, enda var Páll nánast trúlaus hvað
pólitíkina snerti. Það er skemmst frá að segja að ekki féll neinn
úrskurður um á hvorn veginn atkvæðagreiðslan hefði farið.
Á heimleiðinni var deilt um það hvorir hefðu verið liðsterkari á
fundinum Framsóknar- eða Sjálfstæðismenn, og einnig gengu
klögumál á víxl um svindl við atkvæðagreiðsluna og nefndu báðir
aðilar dæmi þar um máli sínu til sönnunar.
Þessi fundur hefur verið mér minnisstæður og kannski ræður þar
mestu um að þetta var fyrsti pólitíski fundurinn sem ég fór á, a.m.k.
sá fundurinn sem eitthvað kvað að, og eins hitt að á þessum árum
var næsta fátt um tilbreytingar frá daglegu amstri.
18
Goðasteinn