Goðasteinn - 01.09.1988, Síða 22
Einn athyglisverðasti og skemmtilegasti þáttur frásagnar af
þessum bardaga er þegar kona á Hofi sér bardagann, segir Merði
og biður hann að skilja þá sem berjast. Þá segir Mörður: „Þeir einir
munu vera, að ég hirði aldrei þó að drepist!’ - „Eigi munt þú það
vilja mæla” segir hún, „þar mun vera Gunnar frændi þinn og Otkell
vinur þinn”. - „Klifar þú nokkuð ávallt mannfýla þín,” segir hann,
og lá hann inni meðan þeir börðust.
II.
Hinum megin við ána er Völlur á Rangárvöllum. Að vísu kemur
ekki heim við hreppaskipan nú orðalag sögunnar í fyrsta kafla, þar
sem segir: „Mörður hét maður, er kallaður var gígja. Hann var
sonur Sighvats hins rauða. Hann bjó á Velli á Rangárvöllum!’ Því
að Völlur er í Hvolhreppi. En vera kann að þá hafi víðara svæði
kallast Rangárvellir. Nú er það svæðið á milli Eystri-Rangár og Ytri-
Rangár.
Ef við lítum í vesturátt blasir við sá frægi Kirkjubær þar sem
Otkell bjó. Kirkjubær er í miðri sýslu, en er undarlega afskekktur
bær. 5 km eru til næsta bæjar í hvaða átt sem farið er. í frásögninni
af stuldinum í Kirkjubæ, sem er hin skemmtilegasta leynilögreglu-
saga, er sagt frá því þegar Melkólfur fer til baka, eftir að hafa stolið
og brennt. Á heimleið týnir hann hníf og belti og saknar ekki fyrr
en hann er kominn alllangt á leið og þorir ekki að fara til baka og
leita að gripunum. Skammkell finnur þá hér á götu og kennir, og
fer til Marðar vinar síns. Mörður uppgötvar þá hver á sök á stuldin-
um. Vandræði Gunnars á Hlíðarenda hefjast eftir það að marki.
Stundum hafa menn undrast hvers vegna Merði Valgarðssyni var
illa við Gunnar frænda sinn sem raun ber um vitni, en í raun og veru
er óvild hans til Gunnars ákaflega vel rökstudd i sögunni. Afskipti
Gunnars af móður Marðar, Unni Marðardóttur, voru í fyrstu þau
að hann heimti fé hennar, en vildi svo ráða málefnum hennar þaðan
í frá, tók því mjög illa þegar hún giftist Valgarði hinum gráa og
duldi það ekki. Af þeim sökum er líklegt að Valgarður hafi verið
lítill vinur Gunnars og Mörður hafi þess vegna alist upp í óvild til
Gunnars. Mörður var höfðingi hér um slóðir, Gunnar hins vegar
ekki, en skyggði á aðra menn í byggðinni og tók forystu í málum.
20
Goðasteinn