Goðasteinn - 01.09.1988, Qupperneq 60
Tungufoss í Eystri-Rangá. Foss þessi er af fróðum mönnum talinn
einn hinn besti til rafvirkjunar, bæði vegna hagstæðrar aðstöðu og
einnig þess að vatnið í ánni hefur þann höfuðkost að það frýs aldrei
og er mjög jafnt yfir allt árið.
Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri hefur skoðað fossinn og
fyrir hans meðmæli og vegamálastjórans hefur ráðherra, sam-
göngu- og atvinnumálaráðherra látið gjöra mælingar og kort af
landinu við fossinn og þannig lagt nauðsynlega undirstöðu til þess
að gjöra megi áætlun um útbyggingu á fossinum.
Lengra er þessu máli ei komið enn. Það er talið að fossinn hafi
um 6000 hestöfl. Þetta er mikill auður og mætti um það segja að
margur er ríkari en hann hyggur.
Auðmagn fossins er í því fólgið, hve miklu mætti til leiðar koma
með afli hans, ef þvi væri beitt á réttan hátt. Nú er það bráðum
undir okkur komið, nágrönnum fossins, hve lengi vér látum hann
eyða kröftum sínum til einskis.
Vér þurfum allir - allir búandi menn og konur, að setjast niður
heima hjá oss og leggja niður fyrir oss og hver með öðrum, hvað
kostar árlega allt það sem fossinn gæti gjört fyrir oss. Hvað kostar
olían, sem vér eyðum, að viðbættum flutningskostnaði? Hvað
kostar eldiviðurinn, sem vér eyðum til suðu og upphitunar? í þeim
útreikningi má ekki gleyma fæðinu handa fólkinu, sem vinnur að
hirðingu eldiviðarins og heldur ekki því, að oft notum vér dýran
vinnukraft við hirðingu eldiviðar að sumrinu um sláttinn. Hve
mikið getum vér aukið töðufenginn, eða annan jarðargróða, með
þeim áburði, sem vér hingað til höfum brennt, og hvers virði er það
í peningum? Til hvers mundum vér geta notað það rafmagn, sem vér
vildum festa okkur, þann tíma sólarhringsins sem vér notum það
ekki, hvorki til ljósa eða suðu, því aflið er alltaf til staðar, þegar það
er einu sinni komið til vor. Og hvers virði mundi þessi notkun verða?
Kostnaðurinn við hin nýju áhöld til Ijósa og suðu má sennilega
leggja að líku í peningum við þau áhöld, er vér notum nú, svo þetta
ætti ekki að þurfa að taka með í reikninginn. Þegar vér höfum
reiknað þetta allt til peninga, þá vitum vér líka hve mikið fé vér
getum lagt fram árlega fyrir rafmagn, án þess að eyða nokkru fé frá
öðrum þörfum eða fá fé að láni.
58
Goðasteinn