Goðasteinn - 01.09.1988, Page 81
að fara. En þetta tillitsleysi olli því að sögn lækna síðar, að ég varð
aldrei söm eftir og fékk raunar síðar grimmilega að kenna á því. En
ég hef víst verið búin að valda nógu miklum vandræðum, því þegar
upp komst um þetta sjúkdómstilfelli, var bærinn umsvifalaust
settur í sóttkví. Enginn á bænum mátti hafa samneyti við annað
fólk. Og þyrfti einhver að hafa tal af heimafólki, fór hann aldrei
nær en inn á mitt tún. Þar var kallast á.
Fólk var yfirleitt mjög hrætt við þennan sjúkdóm og margur
gesturinn passaði sig á að standa aldrei i vindstöðu af heimamanni,
væri einhver andvari.
Geta verð ég þess að mér er ferðaþrá í blóð borin. Sem barn
hlakkaði ég mikið til að verða stór svo ég gæti ferðast. En alllengi
mátti ég þó bíða þess að geta svalað þeirri þrá, því þegar ég var upp-
komin og vonir stóðu til að ég gæti örlítið farið að víkka sjón-
deildarhringinn tóku afleiðingar skarlatssóttarinnar sig upp í
höfðinu á mér. í stað ferðalaga mátti ég láta rúmið geyma mig um
sinn. Þannig gekk það lengri tíma, ég var annað kastið í og við
rúmið, en skárri á milli. Það er ekki ástæða til að leyna því að ég
var nú ekki meiri bógur en það, að ekki var alveg laust við að
stundum hafi ég örlítið vorkennt sjálfri mér, ekki síst að sumarlagi
þegar sólin sendi geisla sína inn um gluggann minn. Þá þráði ég
heitt að komast út, vinna og njóta heilbrigðs lífs. Raunar held ég
að ég hafi oft unnið án þess að geta talist fær um það, en mér var
ekki vandara um en öðrum sem áttu við bága heilsu að búa og
margir áttu svo miklu meira bágt en ég. Ekki var um annað að ræða
en sætta sig við orðinn hlut og umfram allt, reyna að halda gleði
sinni. Það var númer eitt.
Svo er það eitt kvöld eftir fagran sumardag að ég get ekki sofnað.
Ég var eitthvað leið og þung í skapi og leið bölvanlega. Ýmsar
hugsanir leituðu á. Ég hugleiddi líf mitt og fannst það síður en svo
glæsilegt. Læknar höfðu ekki gefið mér vonir um varanlegan bata,
síður en svo.
Það var ekki beint uppörvandi að sjá lífið fram undan í ljósi þess
að verða kannski alla tíð einskis nýt persóna öðrum til byrði. Fyrir
nú utan auka atriðin að geta fátt gert af því sem hugurinn girntist,
verða t.d. í stað ferðalaga að húka alla tíð á sömu þúfunni. Út frá
Goðasteinn
79