Goðasteinn - 01.09.1988, Síða 83
og meira. Og ég er staðráðin í að komast alla leið upp, enda finn
ég ekki til þreytu. Og eftir óralanga göngu og klifur, klifur og göngu
er ég allt í einu komin upp. Alla leið upp.
Ekki er mögulegt að lýsa þeirri fegurð sem fyrir augu bar, svo
gagn sé að, nema að litlu leiti. Þarna kliðaði þúsund radda fugla-
söngur. Svo spakir voru fuglarnir, að þeir settust á hendur mínar og
herðar og ég gat strokið þeim og gælt við þá að vild. Einn fugl vakti
sérstaka athygli mína. Hann var nokkuð stór, en rennilegur, all há-
fættur, hvítur að lit með sambland af rauðum, grænum, bláum og
gylltum lit á höfði og aftur eftir baki og stöku fjöður í væng. Hann
var fremur hálslangur, hnarreistur og mjög tignarlegur.
í fjallaklasanum var stórt stöðuvatn, með mörgum syndandi
svönum. Umhverfis vatnið var margvíslegur gróður. Miklar breiður
voru þarna af stórum safaríkum berjum. Einnig fjöldi sigrænna
trjáa, sem sum slúttu fram yfir vatnið og spegluðust í því.
Aldrei fyrr né síðar hef ég séð jafn stórar og litfagrar búkettrósir
sem hér. Ég undraðist allan þennan gróður og óviðjafnanlegu lita-
dýrð. Hér, svona hátt uppi.
Á þessari ferð minni hafði ég notið meiri og fjölbreyttari fegurðar
en ég hafði áður augum litið. Öll þessi fegurð, kyrrð og friður snart
mig að hjartarótum. Og ég lofaði Guð af öllum mætti sálar minnar.
En rétt í sömu mund vaknaði ég inn í mína eigin veröld í bólinu
mínu heima. Og trúið mér, vonbrigðin voru sár.
En upp frá þessu, árum saman ferðaðist ég í draumum um lönd
og álfur og naut þessara ferðalaga áreiðanlega engu síður en í vöku
væri. Allar þessar ferðir og draumar frá þessum árum greyptu sig
með ólíkindum fast í huga minn. Og marga ferðina fór ég sem mér
hefði verið ómögulegt í vökunni.
Ég dái fjöll og jökla og ég hef í draumi margt fjallið klifið og
komist upp á margan tindinn. Og kannski verið sigurglöð eins og
þeir sem í vökunni sveitast blóðugum svitanum við að sigra hina
ýmsu tinda heimsfjallanna.
En gleði mín var ekki fólgin í að sigra tindinn, heldur að geta úr
slíkri ógnarhæð horft til allra átta og virt fyrir mér víðáttu
umhverfisins í sinni margbreytilegu fegurð. En i sumum tilfellum
nærri ógnvekjandi hrikafegurð fjalla og jökla.
Goðasteinn 6
81